15.04.1942
Neðri deild: 35. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 394 í B-deild Alþingistíðinda. (980)

32. mál, sala Hvanneyrar í Siglufirði

Skúli Guðmundsson:

Hv. þm. Borgf. lét orð falla um það, að ríkið hefði notað sér erfiðleika bænda til að ná eignarhaldi á jörðum þeirra. Þetta er ekki rétt hjá þm. Hitt er rétt, að sett voru lög um jarðakaup ríkisins, og þegar ríkið hefur keypt jarðir samkv. þeim, hefur það eingöngu verið, þegar bændur, sem bjuggu á jörðunum, óskuðu eftir því. Þessi jarðakaup hafa forðað því, að margir bændur flosnuðu upp, sem ella hefðu gert það. Hv. þm. Borgf. er kunnugt um þetta. Þessir bændur hafa síðan fengið erfðaábúð á jörðunum með góðum kjörum og tryggt þannig sér og niðjum sínum afnot þeirra í framtíðinni.

Það er vitað, að meðal bænda eru mjög skiptar skoðanir um, hvort heillavænlegra sé, að jarðir séu í einkaeign eða þjóðareign. Í löggjöf er nú þessum skoðunum gert jafnt undir höfði. Þeir, sem vilja, geta freistað að eignast jarðir, og þá er sanngjarnt, að ríkið eigi nokkuð af jörðum handa þeim, sem vilja gjarnan vera leiguliðar þess. Þá hefur verið sett löggjöf um erfðaábúð og óðalsrétt, þar sem gert er ráð fyrir, að jarðir séu afhentar mönnum á erfðaleigu, svo að menn geti lið eftir lið notið þeirra umbóta, sem á þeim eru gerðar.

Ég hef ekki orðið var við, að fram hafi komið upplýsingar um, að Siglufirði væri nauðsynlegt að fá þessa jörð keypta. Þar sem þetta er ríkiseign, mun ekkert vera því til fyrirstöðu, að ríkið leigi lóðir til almennra afnota. Ég hef ekki fengið neinar upplýsingar um, að knýjandi nauðsyn væri að skipta um eigendur. Þó að ég geti fallizt á, að frv fari til n., sé ég ekki ástæðu til, að frv verði samþ. endanlega, nema fyrir liggi einhverjar fyllri upplýsingar, sem sýna, að ástæða sé til að skipta um eigendur.