20.04.1942
Efri deild: 37. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 15 í D-deild Alþingistíðinda. (984)

94. mál, skógræktardagur

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Ég er fylgjandi þessari till. og get hugsað mér, að þetta sé ein leið af mörgum, sem fara þarf til þess að vekja athygli landsmanna á, að auðvelt er að rækta skóg og að það er stórkostlegt fjárhagsatriði fyrir þjóðina. Það hefur sennilega ekkert sjónarmið verið fjarlægara yfirleitt, þegar talað hefur verið um skógræktina, heldur en ábatasjónarmið peningalega, en þó ávaxtast líklega engir peningar betur en þeir, sem varið er í skógrækt, ef hún er framkvæmd með réttum hætti. Árshringirnir á trjánum eru miklu meiri vextir en bankavextir á peningum, eða jafnvel þar, sem fé er enn betur ávaxtað. Það er ástæða til að minna á það í sambandi við þessa till., að augljóst er, að það verður aldrei hægt að koma skógræktinni í það horf hér á landi, sem hún þarf að komast í, með því einu að leggja fé til hennar og efla hana gegnum samtök, sem ríkið heldur uppi fyrir milligöngu skógræktarstjóra. Fyrir nokkru var ég staddur í skógræktarstöðinni suður í Fossvogi og sagði þá skógræktarstjóra, Hákoni Bjarnasyni, að ég þyrfti að fá hjá honum þúsund plöntur í ár, ég hefði gróðursett l–2 þúsund plöntur á ári undanfarið. Staddur var þar Sigurður búnaðarmálastjóri og segir: Þú hefur engan rétt til að fá þúsund plöntur; þú getur fengið eim fjórða úr plöntu. Það eru framleiddar 30 þúsund plöntur, en Íslendingar eru 120 þúsund. Það er því einn fjórði úr plöntu í þinn hlut! Og hvenær heldur þú, að það verði skógrækt á Íslandi með því að framleiða árlega einn fjórða úr plöntu á hvern Íslending? — Þetta opnaði augu mín á svipstundu fyrir því, hvað þessi starfsemi, sem ríkið rekur, er í raun og veru hlægilega lítil. Og þetta ýtti við mér því fremur, sem ég hafði þá undanfarið verið talsvert að tala við menn um skógrækt og orðið þess mjög var, hve torvelt menn töldu að rækta skóg, eins auðvelt og það þó er, og höfðu tapað hinni upphaflegu trú á því að „klæða landið“. Það tekst ekki heldur með því fyrirkomulagi, sem við nú höfum. Skógræktin nær aldrei því marki, sem hún þarf að ná, nema með því eina móti, að svo að segja hvert einasta heimili á Íslandi rækti skóg. Ég hef oft sagt við bændur, að það sé eins auðvelt að rækta skóg eins og að rækta gras. Þegar spurt er sem svo, hvort hægt sé að rækta björk á Íslandi, þá finnst svarið auðveldlega í þeirri staðreynd, að það hefur ekki verið hægt að drepa björkina á Íslandi með margs konar aðferðum í þúsund ár.

Nú get ég upplýst í þessu sambandi, að ég sagði við skógræktarstjóra, að hann skyldi setja fé í að taka eitt tonn af birkifræi í sumar. Og það hefur verið reynt að setja af stað dálitla „agitation“ víðs vegar um tandið fyrir því, að bændur kaupi þetta fræ á 8 kr. kg. Vegna þess, hve illa áraði í hitteðfyrra, var lélegt fræár í fyrra, en lítur út fyrir gott fræár .nú, þar sem s.I. sumar var svo hlýtt. En eins og menn vita, safna trén í fræið árið áður. Það, sem safnað hefur verið undanfarið, hefur aldrei selzt upp fyrr en nú, að eftirspurnin hefur þrefaldazt. Mér virðist því, að menn séu nú sem óðast að festa augu á því, að þeir eigi að kaupa fræ og sá til bjarkar. Sjálfur hef ég reynt þetta undanfarin ár og hef séð, að það er ekkert vit í að kaupa plöntur fyrir 50 aura. Það þarf fræ í þúsunda og hundrað þúsunda tali.

Til þess að varðveita plöntur þrjú fyrstu árin, sérstaklega fyrir holklaka, hafa verið reyndar ýmsar aðferðir, og gefizt misjafnlega. Þegar tekizt hefur að vernda þær þennan tíma, er hægt að láta vaxa upp skóg í stórum stíl. Og í sambandi við uppblástur landsins og stöðugt minnkandi haglendi, eins og á sér stað um gróðurinn í Ameríku, þar sem skóginum hefur verið eytt, og planta þarf trjám á ný, þá er þetta stórmál fyrir framtíðina. Aðalmeinið er það, hvað við hugsum smátt.

Annað er það atriði, sem ég undrast, að skógræktarmenn hafa ekki rannsakað. Það er, hve þétt plönturnar eiga að standa. Ég ætlaði eitt sinn að gróðursetja trjáplöntur í röðum, en var stranglega ráðlagt frá því, með því að þær þrifust þá ekki. Síðan hef ég athugað vel, að plönturnar þurfa að standa þétt. Í skógræktarstöðinni eru þær með eins metra millibili, og sjö ára eru þær seiling mín. Aðrar álíka gamlar plöntur með 2 metra millibili ná mér í mitt læri. Og séð hef ég þétt settar plöntur á 2. ári, sem náðu í mitti. Sterkustu plönturnar teygja sig upp í sólskinið, en draga úr og kyrkja þær, sem eru til hliðar. Þetta, að alltaf þurfi að grisja skóg, er skökk hugsun. Það hefur engin mannshönd komizt nálægt Bæjarstaðaskógi. Hann hefur fengið að vaxa þétt, en stærri plönturnar vaxið upp fyrir, og hinar fallið. Og þar eru 14 metra há tré, þráðbein.

Ég vildi ekki, að þessi till. færi gegnum umr., án þess að ég vekti athygli á þessum atriðum, sem ég hef nú nefnt. Ég vil mælast til, að till.samþ. og geri mér von um, að með áróðri komist málið á góðan rekspöl og almenningur skilji, að það er hann, sem á að taka málið að sér. Í ár seldust líka 200 kg af fræi, þar sem 70 kg hafa ekki gengið út undanfarin ár. Og ef hægt er að fá fólk til þess, á tvímælalaust að safna einni smálest af fræi í sumar, sem ég geng út frá, að með sæmilegum áróðri megi selja. Það eru engin ósköp að kaupa eitt kíló af birkifræi og sá heima, um leið og sáð er í garðinn. Það kostar að vísu dálitla nærgætni að fylgjast með plöntunum, þegar þurrkur er. En það er enginn vafi, að bóndinn gæti vel haft skóg fyrir heimilið á 25 árum og það aðeins með ígripavinnu, um leið og hugsað er um garðinn að öðru leyti.