20.04.1942
Efri deild: 37. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 16 í D-deild Alþingistíðinda. (985)

94. mál, skógræktardagur

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Hver góður Íslendingur mun vera hrifinn af þeirri hugmynd, sem í þessari till. felst, að klæða landið. Aðeins verða kannske skiptar skoðanir, hvernig eigi að framkvæma stórvirkið. Í framsöguræðu fyrir þessari till. kom í raun og veru ekkert fram, hvernig tillögumaður hugsar sér framkvæmd þessa skógræktardags, enda varla von, þar sem málið er ekki til fullnustu hugsað enn. En ég sé, að sú mæta kona, sem hefur komið með hugmyndina, hefur notað orð, sem ekki getur alls kostar staðizt, nefnilega að „öllum landsmönnum sé gert að skyldu“. Ef lögbjóða á einn ákveðinn dag, sennilega að sumrinu, veit ég ekki, hvernig hægt er er að láta alla landsmenn taka þátt í þessu, að ég nú ekki nefni börnin og gamalmennin. En við skulum hugsa okkur þær 40 þúsundir í Reykjavík, jafnt börnin sem gamalmennin, lasburða sem heilbrigða; það er ekki til það landrými í nánd við Reykjavík, þar sem allur þessi fjöldi gæti farið út á einn og sama dag til að undirbúa skógrækt. Nú er það að sjálfsögðu órannsakað mál, hvar skógræktina skuli helzt reka. Vitanlega eru margir staðir vel hæfir til skógræktar víðs vegar um landið, en ég þykist sjá erfiðleika á því í nánd við ýmsa bæi, þar sem mannfjöldinn er mestur, sem á að vinna að þessu. Og ef þetta er hugsað á þann veg, að allir fari út á akurinn, er þá meiningin að skattleggja hina, sem ekki geta komið til greina? Ég hef í huga ýmsar starfsstéttir í þjóðfélaginu. Við skulum taka allan fjölda sjómanna, sem bundnir eru við störf alla hluta sumarsins á hafi úti. Eiga þeir að borga dagsverkið í krónum? (JJ: Þetta má allt athuga í rannsókn.) Já, það má segja, en till. er ekki eins einföld og ýmsir ætla, ef um er að ræða að leggja einhvern nefskatt á alla landsmenn til þess að koma skógræktinni áleiðis. Ég og hv. flm. munum eins og aðrir á fastri grund taka okkar skóflu, meðan við erum þetta fleygir. (JJ: Þeir eru betri, þeir ungu.) Væri þetta þá ekki verkefni, sem binda ætti við ungu kynslóðina? Það hefur verið talað um jafnvel í barnaskólum, að þetta ætti að vera eitt af verkefnum þeirra, að klæða landið. Ungmennafélögin hafa áður gert nokkuð í þessu efni.

Ég er persónulega hlynntur hugsun þessa máls, en hefði óskað skýringa hv. flm. á hugmyndinni. Ég mun greiða till. atkv., svo að rannsókn sú geti farið fram, sem till. ætlast til.