30.03.1942
Sameinað þing: 4. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 19 í D-deild Alþingistíðinda. (997)

42. mál, aðstoð við íslenzka námsmenn á Norðurlöndum og í Þýzkalandi

Flm. (Pálmi Hannesson):

Herra forseti ! Við nokkrir alþm. höfum orðið ásáttir um að flytja þessa þáltill., sem hér er til meðferðar og fjallar um það, að ríkisstj. veitist heimild til að styrkja íslenzka námsmenn, sem nú dveljast á Norðurlöndum og annars staðar í Evrópu, í þeim löndum, sem eru þannig sett nú, að ekki eru við þau samgöngur héðan af Íslandi. Á Norðurlöndum og í Þýzkalandi dvelst nú allmikill fjöldi íslenzkra námsmanna og kvenna við ýmis konar nám. Það hefur verið mjög miklum erfiðleikum bundið að koma námseyr í til þessa fólks undanfarið, eins og kunnugt er. Og ríkisstj. hefur hlaupið undir baggann og hjálpað því gegn, því, að aðstandendur þess hafa svo endurgreitt hér það fé, sem þannig hefur verið lagt af mörkum. En þessir námsmenn allmargir hafa lagt út á námsbrautina án þess að hafa efnalega tryggan bakhjarl og hafa reynt að koma sér áfram með lánum þangað til að námi loknu. Slíkt námsfólk er mjög illa farið, eins og nú er högum háttað. Ég veit, að sendisveitin íslenzka í Kaupmannahöfn og Stokkhólmi hefur með ráði ríkisstj. séð þessu fólki farborða, en eins og kunnugt er, hefur þetta fólk ekki aðstöðu til að hafa samskipti við vini sína. Allmargt af því hefur lokið námi, og ég veit, að það hefur stundað námið af mikilli kostgæfni. En þó að sumt af því hafi lokið náminu, þá hefur svo verið undanfarið, að engin leið hefur verið fyrir það að komast hingað heim, jafnvel ekki yfir Síberíu og Ameríku.

Ég vildi beina því til hæstv. ríkisstj., eins og gert er hér í grg. þáltill., og undirstrika það, að reyndar verði allar hugsanlegar leiðir til þess að hjálpa þessu fólki til að komast heim, því að hér er mjög mikill skortur lækna og verkfræðinga og yfirleitt þeirra manna, sem nám hafa stundað erlendis. En hins vegar má ætla, að margt þessa fólks hafi ekki viðunandi atvinnu erlendis. Ég býst við, að vera megi, að miklir örðugleikar séu á þessari leið. Ég veit, að sumt af þessu námsfólki hefur von um, að takast kynni að komast yfir Portúgal, en veit ekki, hvort það er annað en draumórar. En ég vil beina því til hæstv. ríkisstj. að rannsaka, hvort nokkrir möguleikar muni vera á að koma þessu fólki heim þá leið.

Hér er farið fram á það í fyrsta lagi, að hæstv. Alþ. staðfesti þá venju, sem ríkisstj. hefur tekið upp, um að sjá þessu fólki farborða, og í öðru lagi heimili ríkisstj. að veita illa stöddum námsmönnum sem styrk allt að helmingi þess fjár, sem hún leggur þeim til dvalarkostnaðar.

Dæmin eru mjög glögg frá síðasta ófriði um það, hversu erfitt þeir námsmenn geta átt, sem lenda í því að vera erlendis við nám á ófriðatíma. Þá voru erlendis margir stúdentar við nám. En dýrtíðin var svo mikil, að flestir þeirra, sem luku námi frá 1916 og jafnvel til 1925, höfðu 8000–20000 kr. skuldir á bakinu, þegar þeir komu heim. Síðan kom hækkun gjaldeyrisins hér heima, og mikill hluti þessara námsmanna hefur ekki losnað við námsskuldir sínar enn. Þegar þess er gætt, hvernig þetta var þá, og hins vegar, hvernig gjaldeyrisástæður þjóðarinnar eru nú, þá hygg ég það mjög misráðið að leggja slíkt á tilvonandi embættismenn og starfsmenn þjóðarinnar. Ég geri ráð fyrir því, að heppilegasta lausnin sé nú á þessu að veita þessum námsmönnum svo ríflegan styrk, að skuldabyrðin verði þeim a.m.k. ekki óviðráðanleg, þegar heim er snúið. Og það er ætlun okkar flm. þessarar þáltill., að með ákvæðum till., ef samþ. verður og framkvæmd, sé sæmilega vel séð fyrir kosti þessa námsfólks. Ég get birt, ef óskað er, talsvert nánar tölur um fjölda þess námsfólks, sem dvelst erlendis nú, og hvaða námsgreinar það stundar, hve margt af því hefur lokið prófum og hvaða prófum. En verði þess ekki sérstaklega óskað, sé ég ekki ástæðu til að þreyta hv. alþm. með slíkum tölum. Höfuðatriðið er, hvort hæstv. Alþ. vill fallast á, að reynt verði að greiða fyrir þessu námsfólki á þann hátt, sem þáltill. felur í sér, eða ekki.

Ég vænti þess, að hv. alþm. snúist vel við þessari málaleitun, og ég geri hins vegar ráð fyrir því sem sjálfsögðu, að málinu verði vísað til hv. fjvn.