17.08.1942
Sameinað þing: 5. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í D-deild Alþingistíðinda. (1000)

13. mál, vöru- og farþegaflutningar með ströndum fram og flugleiðis

Flm. (Eysteinn Jónsson) :

Mér er áhugamál, að þessi till. nái fram að ganga, og muni ég því ekki tefja afgreiðslu hennar með því að fara út í þær „eldhúsdagsumr.“, sem hér hafa verið teknar upp á hendur mér í sambandi við ýmislegt, sem áður hefur gerzt í siglinga- og strandferðamálum. Ég get því fremur sleppt því sem aðeins örlítill hluti þeirra athugasemda, er fram hafa verið bornar, á erindi til mín. Þær aths. eiga flestar erindi til annarra ráðh., sem standa þessum mönnum nær en ég.

Hæstv. atvmrh. sagði, að það væri broslegt, að ég væri að spyrjast fyrir um það, hvað gengi samningunum við setuliðið um það, að það rýmdi Rvíkurhöfn, það eð ég hefði til skamms tíma átt sæti í ríkisstj. Ég skil ekki þetta. Ég sé ekkert athugavert við það, þó að ég sem þm. vilji fá að vita, hvað gert hefur í þessu máli síðusta þrjá mánuðina og hvaða úrlausnartill. hæstv. ríkisstj. hefur haft að leggja fyrir setuliðið. En hæstv. ráðh. færðist undan að svara þessu. Hann kvað það undarlegt, að ég væri að spyrja um þetta, þar sem ég hefði stjórnað því ráðuneyti, sem málið hefði komið mest við. En ég hef aldrei haft siglingamálin með höndum, heldur var það einmitt núv. forsrh., sem þeim hefur stýrt. Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að athuga ræðu hans, sérstaklega þar sem hann er ekki viðstaddur.

Hv. þm. Vestm. sagði, að mér væri þörf á að opna augun fyrir því, að ekki væri allt með ágætum í strandferðamálum hér. Talaði hann eins og ég hefði til þessa einn ráðið öllu í strandferðamálunum. En ég get skýrt hv. þm. frá því, ef hann veit það ekki áður, að strandferðamálin hafa heyrt undir mitt ráðuneyti eina þrjá mánuði, áður en fyrrv. stj. lét af störfum. Þau mál heyrðu undir núv. hæstv. forsrh., og getur hv. þm. Vestm. snúið sér til hans með áminningu sína. Hv. þm. gat þess, að Súðin hefði ekki verið endurbætt né sett í hana ný vél. En það var einmitt hæstv. forsrh., sem kom í veg fyrir, að skipið yrði endurbætt eins og forstjóri Skipaútgerðar ríkisins vildi. Hann fékk sér til aðstoðar hv. þm. Barð. til þess að koma í veg fyrir þetta, eins og kom fram í ræðu þess hv. þm. hér. Þeir fundu það út, að ekki borgaði sig að gera við skipið, en við hinir í stj. vildum láta gera þetta, strax og það bar á góma.

Sama máli gegnir um dylgjur hv. þm. um það, að tækifæri til hentugra skipakaupa hafi verið látin ónotuð. Í því efni getur hann líka snúið sér til flokksformanns síns.

Þá var hv. þm. Barð. með „gamla plötu“ hér áðan. Hann sagði, að það sæti ekki á mér að fárast um þessi vandkvæði, þar sem ég hefði komið í veg fyrir það, að hann og aðrir gætu flutt inn skip á árunum 1933–l940. Á þessum árum voru gjaldeyrisörðugleikar miklir, eins og kunnugt er, og voru þá sett ýmis höft til þess að minnka kaup á óþörfum varningi, svo að hægt væri að kaupa verðmætari vörur. Á þeim árum var byggður upp stórfelldari atvinnurekstur en dæmi eru til áður, og var þá flutt inn meira af tækjum og hráefnum en dæmi eru til áður í sögu landsins. Þetta var hægt að gera vegna gjaldeyrishaftanna. Hitt er annað mál, að meira hefði mátt flytja inn af ýmsum atvinnutækjum eins og skipum og bátum, ef meira hefði verið til af gjaldeyri, en það breytir engu um þá staðreynd, að gjaldeyrishöftin hafa orðið að miklu gagni. Annars er það nokkuð fjarlægt því, sem hér liggur fyrir, að fara að halda hrókaræður um stefnuna í gjaldeyrismálum undanfarin ár, og er það varla til þess fallið að beina athygli manna að aðalatriðunum, og mun ég því ekki ræða þau mál frekar. En óhætt er að segja það, að landsmenn eiga nóg af skipum til þess að annast flutninga með ströndum fram, en vandkvæðin stafa af því, að skip þau, sem til slíkra flutninga eru ætluð, eru nú notuð til annarra hluta. Og er þá ekki sjálfsagt, að ríkið taki í sínar hendur nægan skipakost til þess að bæta úr þessum vandkvæðum, eins og till. fer fram á? Ef slíkt er ekki hægt með frjálsum samningum, er ætlazt til, að ríkið afli frekari lagaheimildar, og er það aðalatriði till., sem ég vil óska, að menn haldi sér sem mest við í umr. Mun ég svo ekki taka oftar til máls, nema brýna nauðsyn beri til.