02.09.1942
Sameinað þing: 12. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í D-deild Alþingistíðinda. (1005)

13. mál, vöru- og farþegaflutningar með ströndum fram og flugleiðis

Eysteinn Jónsson:

Ég er í sjálfu sér ánægður með afgreiðslu hv. fjvn. á þessari þáltill. Þó finnst mér hún heldur vera til hins lakara brtt. frá fjvn. Það má þó segja, að aðalatriðið náist, þó að þáltill. verði samþ. á þann veg, sem n. leggur til. En það er svo, að í upphafi till. er gert ráð fyrir, að hæfilegur hluti af skipakosti landsmanna verði notaður til vöruflutninga, og ef ekki er hægt að koma því til leiðar með frjálsum samningum, þá verði leitað lagaheimildar til þess að koma þessu fram. Þetta er í þáltill., en þetta er fellt niður í þáltill. eins og hún er orðuð af hálfu n., því að þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Fyrri málsl. tillgr. orðist svo: Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að afla sér, eftir því sem tiltækilegt er, þess skipastóls, sem þörf er á til þess að annast vöru- og fólksflutninga með ströndum fram.“ Það er nefnilega gefið í skyn, að það geti orðið ríkisstj. um megn að fá skip til þessara flutninga. Þetta tel ég til hins verra, því að ég tel, að ríkisstj. verði að vera megnug þess að leysa þetta mál, af því að skip eru til þess í eigu landsmanna. Með orðalagi þáltill. virðist mér, að verði að gera mið fyrir því, að það geti komið til þess, að það þurfi beinlínis að taka skip eða báta leigunámi til þessara flutninga, ef það er nauðsynlegt. Því að það er ekki viðunandi, að bátar landsmanna séu í þjónustu setuliðsins, en jafnframt vanti okkur skip til vöruflutninga. Ég vænti þess af hæstv. ríkisstj., að hún skirrist ekki við að gera í tíma það, sem gera þarf í þessu efni.

Þar sem hæstv. atvmrh. er nú hér viðstaddur, langar mig, — þó að ég vilji ekki tefja þetta mál, — að beina til hans sérstöku atriði, sem snertir ákaflega mikið vöruflutningana í landinu, þó að það séu ekki beinlínis vöruflutningar með ströndum fram. Og mér virðist, að gott væri að flytja um það þáltill. Það er öllum kunnugt, að stórfelld vandræði eru nú með vöruflutninga á landi eins og á sjó, sem liggur í því, að vörubílakostur landsmanna er nú mjög í þjónustu setuliðsins, sem hér starfar. Af þessu eru stórvandræði víða. Og þegar flutningaþörfin eykst með haustinu, má búast við, að þessi vandræði aukist svo, að þau verði óyfirstíganleg, ef ekki eru gerðar sérstakar ráðstafanir. Setuliðið virðist vera að auka eftirspurn eftir vörubílum og keppa við landsmenn um afnot þeirra. Það auglýsti nýlega eftir 30 bílum í viðbót við þá, sem áður voru hjá því. Þetta virðist mér horfa til vandræða.

Ég vil spyrja hæstv. ráðh., hvort honum fyndist ekki viðeigandi, að ríkisstj. tæki upp samninga við herina um það, hversu mikil afnot þeir geti haft af vörubílakosti landsmanna, og það verði reynt að ná þeirri niðurstöðu, að þeir fái þá fyrirgreiðslu í þessu efni, sem mögulegt er, án þess að landsmenn standi uppi þannig, að þeir geti ekki komið fram nauðsynlegum flutningum. Ég vil beina því til hæstv. ríkisstj., hvort það sé ekki tímabært að ganga í það að taka upp slíka samninga við setuliðið. Mér er kunnugt um, að það hefur komið til orða, en mér er ekki kunnugt um, að verulega hafi verið tekið á þessu vörubílamáli gagnvart setuliðinu.

Ég vildi svo óska þess, að þessu máli yrði frestað nú. En mér virðist mjög vel viðeigandi að taka áskorun til hæstv. ríkisstj. um athugun á flugsamgöngum inn í þessa þáltill. Og eftir að málið er athugað milli umr., óska ég þess, að það verði tekið svo fljótt fyrir aftur, að því verði lokið á þessu þingi.