11.08.1942
Efri deild: 4. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í B-deild Alþingistíðinda. (101)

7. mál, dómnefnd í verðlagsmálum

Atvmrh. (Magnús Jónsson) :

Ég vil ekki tefja þessar umr. neitt, aðeins víkja að fáum atriðum í ræðum hv. þm. og man ekki til, að síðan ég talaði í gær, hafi fallið ummæli, sem ég þurfi að taka sérstaklega til meðferðar. Ég man ekki nákvæmlega, hvernig orð féllu hjá mér um það, sem hv. þm. Seyðf. (HG) talaði um, en þau voru í þá átt, að á haustþinginu var það sameiginleg stefna þessara flokka að aðhyllast frjálsu leiðina. Menn treystu því, að sú aðferðin gæti gengið fyrst um sinn, af því að samningar væru yfirleitt í gildi og mætti telja líklegt, að þeir yrðu endurnýjaðir án grunnkaupshækkana. Það var sameiginleg stefna að vera móti frv. þáv. hæstv. viðskmrh., sem fór miklu harkalegar en gerðardómsl. inn á braut þvingunarinnar.

Hv. 9. landsk., og hv. 6. þm. Reykv. raunar líka talaði um, að nauðsyn væri að setja í frv. ákvæði um, að leyft yrði strax að segja upp öllum gildandi kaupgjaldssamningum. Ég vildi ráða þessum hv. þm. eindregið til þess að vera ekki að reyna til að koma þeim ákvæðum inn í þetta frv., því að æskilegra væri, að þetta mál fengi sem fyrst afgreiðslu og samþykki, sem virðist því tryggt, en síðan mætti bera hitt, sem menn eru ekki eins sammála um, fram í öðru frv., ef þörf gerðist. Það hefur verið minnzt á þá samninga, sem vissulega verða að taka við, þegar gerðardómur í kaupgjaldsmálum er úr sögunni, eða eitthvað verður að koma í staðinn. En ég vil halda þeirri stefnu, að frjálsa leiðin sé gengin eins lengi og unnt er. Ég sé ekki ástæðu til að setja ný þvingunarákvæði í l., fyrr en vitað er, að brýn þörf sé á, og það finnst mér, að þessir hv. þm. ættu sjálfir að skilja og sízt allra að fara þess á flot. Hitt er svo annað mál, hvort löggjafarvaldið sér sig seinna neytt til að grípa inn í til að bæta úr misrétti, ef það kæmi þá í ljós og yrði ekki lagað með frjálsu leiðinni. Frá þessu principi vildi ég, að n. víki ekki, þegar hún fjallar um þetta frv., hvað sem lagt er til um málið þar fyrir utan. Hv. 6. þm. Reykv. vildi hraða málinu ákaflega, jafnvel svo, að því yrði lokið á morgun. Það hefur nú aldrei verið kallað að tefja mál að láta það ganga að réttum þingsköpum, og þar sem þessu frv. er tryggt fylgi, skiptir ákaflega litlu máli, hvort það er afgr. nokkrum dögum fyrr eða seinna nú, þegar hægt er að fara að vinna að hverju, sem gera þarf í sambandi við samþykkt þess.

Flest af því, sem ég gæti nú um frv. sagt til viðbótar, er betra að segja í n. Enginn hnútur er í rauninni leystur með afnámi gerðardómsl., en hvort afnámið leiðir til þess, að hnúturinn verði leystur, eða leiðir til ógæfu, fer eftir því, hvað sett er í staðinn. Hv. þm. Barð (GJ) gerði ýmsar aths. í ræðu, sem hann hélt, áður en ég kom á fundinn. Nú hef ég rætt málið við hann, og munu atriðin, sem hann nefndi, verða athuguð með tilliti til væntanlegra breyt. á frv. í n. Ég vil taka undir þá ósk hæstv. forseta, að æskilegt væri, að málið kæmist nú til 2. umr. og nefndar.