04.09.1942
Neðri deild: 21. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 91 í D-deild Alþingistíðinda. (1037)

77. mál, húsnæðismál í kauptúnum

Stefán Jóh. Stefánsson:

Það er í sjálfu sér ekki nema mjög æskilegt, að gerðar séu einhverjar ráðstafanir af hálfu ríkisstj. bæði til þess að rannsaka, hvað því kynni að valda, að kauptún hafa ekki notfært sér l. um verkamannabústaði og l. um samvinnubyggingar. Ekki sízt er ástæða til að benda ríkisstjórninni á að örva kauptúnin til þess að notfæra sér þessar heimildir eftir því, sem þau frekast geta. Ég er ekki alveg viss um, að það séu l. sjálf um verkamannabústaði eða fyrirmæli þeirra, sem hafa hindrað framkvæmdir í mörgum kauptúnum landsins í þessum efnum, heldur miklu fremur misskilningur, eins og hv. fhn. benda á í grg. þáltill., misskilningur á ákvæðum l., og í öðru lagi mikið áhugaleysi í þessum efnum og þá kannske líka loks, að ríkisstj. hefur ekki af sinni hálfu gert nægilega mikið til þess að örva menn til þess að notfæra sér þessi góðu l., sem sett hafa verið til þess að greiða fyrir framkvæmdum á byggingum verkamanna. Ég veit ekki til, að nokkur ákvæði l. um verkamannabústaði séu þess eðlis, að þau torveldi frekar byggingar verkamannabústaða í kauptúnum miðað við kaupstaðina. Samkv. l. um verkamannabústaði getur byggingarsjóður veitt til framkvæmda í þessum félögum, sem til þess eru stofnuð, lán, sem nema 85% af kostnaðarverði húsanna. Og í öðru lagi eru þessi lán veitt til 42 ára, þannig að þau greiðast að fullu með 4% gjaldi á ári á þessum tíma. Það voru gerðar verulegar breyt. á þessum l. 19.11, þegar vextir voru lækkaðir af þeim, sem varð til þess að örva byggingar í mörgum kaupstöðum landsins, bæði í Rvík, Hafnarfirði og víðar. Það hafa verið stofnuð a. m. k. í tveimur kauptúnum byggingarfélög verkamanna, annað á Patreksfirði, en það hefur ekki framkvæmt neitt, hitt er á Eyrarbakka og var stofnað fyrir tveimur árum. Þar var gerður nokkur undirbúningur að því að byggja hús í þessu félagi, sem varð þó ekkert úr, þegar á reyndi. Ég held, að það sé minna l. sjálf, sem þessu valda, þó að rétt sé að athuga, hvort nokkuð sé það í löggjöfinni, sem torveldi fyrir mönnum í kauptúnum að notfæra sér þau, heldur sé það athugaleysi manna, sem þorpin byggja, og þá sérstaklega þeirra héraðsstj. og hreppsstj., sem hlut eiga að máli. Það eru sveitarstj. á hverjum stað, sem ættu að stuðla að því eftir beztu föngum, að l. þessi séu notfærð af íbúum kauptúnanna, þar sem skortur er á húsnæði. En á því, að þeir geri það, hygg ég, að sé nokkur misbrestur. Ég tel eðlilegt, að fjmrh. skrifaði til allra hreppsnefnda í sjóþorpunum um þessi l. um verkmannahústaði, því að þau eru miklu líklegri til nota fyrir sjóþorpin heldur en l. um byggingarsamvinnufélög. Ef ráðuneytið gerði þetta og gæfi kauptúnunum upplýsingar um það, hvaða ákvæði l. hafa að geyma til þess að greiða götu sjóþorpanna, sem þyrftu á þessum hlunnindum að halda, gæti ég búizt við, að þar yrði meira byggt eftir þessum l. en ella.

En hvað eitt, sem fram kemur til að örva til að reisa verkamannabústaði í kauptúnum landsins og greiða götu áhugamanna, sem fyrir því vilja beita sér, er til heilla, og þess vegna vona ég, að till. verði til gagns. Ég er þess fullviss, að stórkostlega þarfar nýbyggingar gætu risið upp víða kringum land, ef örvun kemur til og allir möguleikar eru notaðir, og treysti ég einkum á, að l. um verkamannabústaði komi þar að gagni og fyrir miðstéttina einkum l. um samvinnubústaði. — Í grg. till. er talað um hlunnindi, er verkamannabústaðir njóti á þann veg eins og um beinan styrk, til þeirra sé að ræða. Ég vil leiðrétta það. Eins og flm. vita, styrkir ríki og hérað ekki beint, heldur rennur framlag þeirra í sjóð, til þess að sjóður sá sé þá betur fær til að lána fé til byggingar verkamannabústaða. Nú á sjóðurinn um 2 milljónir króna, og með góðu áframhaldi er þarna brátt kominn álitlegur vísir að talsvert öflugum fasteignabanka, sem risi upp samkvæmt ákvæðum l. um verkamannabústaði.

Ég vona, að þessi till. fái góðar undirtektir og nái samþykki.