02.09.1942
Sameinað þing: 12. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 103 í D-deild Alþingistíðinda. (1056)

19. mál, raforkumál

Bjarni Benediktsson:

Hv. þm. S.-Þ. tók það illa upp, er ég sagði, að hann hefði gefið tilefni til þess, að álitið væri, að hann hefði falsað sögu málsins. Það þarf ekki langt að leita. Allir þeir þm., sem hér eru inni, — en þeir eru ekki margir —, heyrðu, þegar hann skýrði núna frá því, hverja vantaði á fund, og drap á alla aðra en sína eigin flokksmenn, og getur engum blandazt hugur um, að hann vildi lita frásögnina. Hv. þm. er mikill málafylgjumaður, en ég hygg, að hann ætti ekki að bletta þann skjöld, sem hann vill taka upp í þessu máli, hvorki með því að gefa rangar hugmyndir um það, sem hefur skeð, né það, sem er að ske. En það, sem ég meinti, er það, að hann vill alltaf halda því fram, að stefna Jóns Þorlákssonar í þessu máli hafi verið samkeppnisstefna, og þess vegna hafi hún til einskis góðs leitt, en framsóknarmenn hafi nú fundið ný ráð, sem hrinda muni málinu fram. Ég sýndi, að í frv. Jóns Þorlákssonar eru 2 meginatriði og hv. þm. S.-Þ. benti einmitt 1929 alveg réttilega á annað þeirra, tvö meginatriði, tvær stoðir, sem byggingin á að hvíla á. Önnur er sú, að ríkið á að standa fyrir framkvæmdunum, og hin sú, að haldið sé þeirri grundvallarreglu, að rafmagníð verði engum kostnaðarsamara úr þeim stóru virkjunum en þótt hann hefði hagfellt vatnsfall til heimavirkjunar. Þetta eru þær tvær meginhugsanir, sem eru í frv. Jóns Þorlákssonar, og vil ég spyrja hv. þm. S.-Þ. að því í fullri vinsemd, hvort þetta séu ekki þær tvær meginhugsanir, sem hann tók upp og telur nauðsynlegar til þess, að málið nái fram að ganga? Þrátt fyrir þetta byrjaði hann með því að halda því fram, að stefna Jóns Þorlákssonar hefði verið allt önnur, og talaði um samkeppnisstefnu og samvinnustefnu í því sambandi. Þetta hefur hv. þm. S.-Þ. látið í ljós í blaðagreinum og í sinni fyrri ræðu, og er þó meginhugsunin í frv. Jóns Þorlákssonar sannarlega nákvæmlega hin sama og hv. þm. S.-Þ. hefur tekið upp í blaðagreinum og kennt við Jón Árnason.

Í seinni ræðu sinni sagði hv. þm. S.-Þ., að Jóni Þorlákssyni hefði aldrei verið alvara með þetta mál. Þarna er hv. þm. S.-Þ. langt frá því að vera kominn í þá sókn, sem hann hefur haldið fram, að hann væri í, hann hefur öllu fremur hörfað í aðra varnarlinu. Um þessa vörn skal ég ekki þrátta við hv. þm. S.-Þ. Ég hef allt annað álit á heilindum Jóns Þorlákssonar og vitsmunum en Jónas Jónsson virðist hafa. Ég skal aðeins víkja nokkuð að rökum hv. þm. S.-Þ. fyrir því, að Jón Þorláksson hafi ekki meint það, sem hann lagði til árið 1929, og fullyrðingu hans um, að síðan hafi Sjálfstfl. ekkert gert í málinu. Ég vil minna á, hvernig þessu máli lyktaði 1929. Þá var því vísað til stjórnarinnar m. a. með atkv. hv. þm. S.-Þ., sem þá var dómsmrh. Síðan hefur Framsfl. farið með stjórn allt fram á þetta ár, og það er kannske tímanna tákn, að það er fyrst þegar Framsfl. fór úr stjórninni, sem málinu var vísað til með atkv. hv. þm. S.-Þ., sem málið er vakið á ný. Hv. þm. S.-Þ. tjáir ekki að neita því, að um leið og hann ásakar okkur í þessu máli, ber hann mesta ásökun fram gegn sjálfum sér og sínum eigin flokki, vegna þess að Framsfl. hefur verið mestu ráðandi sem þjóðmálaflokkur allan þennan tíma og langmestu ráðið um stjórn landsins. Í þau fáu ár á þessu tímabili, sem sjálfstæðismenn hafa verið kvaddir til ríkisstj., þá hafa þeir verið kvaddir til hennar vegna þess, að fjármálum ríkisins var komið í óefni undir stjórn Framsfl. Ég segi stjórn, en ætti kannske heldur að segja óstjórn. Áhrifa Sjálfstfl. á stjórn landsins gætti ekki á öðrum tímum en þegar fjármálum landsins var komið í slíkt óefni, að í jafnstórar framkvæmdir og hér er um að ræða var ekki hægt að ráðast. Þetta er augljóst öllum, sem um það hugsa, svo að sú ásökun á ekki við. Auk þess er það rangt, að Sjálfstfl. hefi látið málið liggja allan tímann. Það er hægt að benda á margar till. um þetta efni. Ég vil ekki tala þær upp, en kannske man hv. þm. S. Þ. eftir sumum þeirra. (JJ: Ég man ekki eftir neinni.) Þá viðurkennir hann að hafa ekki kynnt sér málin.

Varðandi sjóðina, sem hv. þm. var að tala um, þá er það eftirtekarvert, að hann segist hafa komið byggingar- og landnámssjóði á, þegar hann komst til valda. Það er alveg eins með sjálfstæðismenn nú, þegar þeir hafa forustuna um stjórn landsins, taka þeir upp og fá samþykkt frv. um raforkusjóð, og hafa í þessu efni nákvæmlega fylgt fordæmi hv. þm. S.-Þ. Um sjóðina vil ég enn fremur aðeins drepa á það, að það er út af fyrir sig alveg rétt hjá hv. þm. S.-Þ., að sjóðir eru góðir og nauðsynlegir. Það er hins vegar ekkert óeðlilegt, þó að hann misskildi orð mín um sjóðina, þar sem ég sýndi fram á, að hann hafði ekki til fulls áttað sig á efni sinnar eigin till., og þá var nú líka síður von, að hann skildi það, sem ég sagði um sjóðina. Það var ekki það, að ég væri á móti sjóðunum. Það, sem ég talaði um, voru þessir sérstöku skattstofnar handa sjóðunum. Hv. þm. veit það vel, að verkamannabústöðunum var komið upp fyrir tillög úr ríkissjóði og bæjarsjóði, tillög, sem tekin voru beint úr þeim sjóðum. Hann veit, að það sannar mitt mál bezt, að verkamannabústaðirnir áttu líka að fá nokkrar tekjur af einhverjum skatti af tóbaki, en á hinum erfiðu árum ríkisins var tóbaksskatturinn látinn ganga til annarra þarfa ríkisins, þeirra. venjulegu. M. ö. o., þessir sérstöku tekjustofnar geta komið að gagni, á meðan ríkissjóður, hvort eð er, hefur nóga peninga, en þegar harðnar í búi, eru þessir tekjustofnar einnig teknir til þarfa ríkisins. Þess vegna er ekki annað heppilegra en að hafa þetta óbundið og sjá, hvað ríkið hefur mikla möguleika til þess að láta fé í þessu ákveðna skyni á hverjum tíma. Ég er ekki á móti sjóðunum, en ég er á móti þessum sérstöku tekjustofnum, sem hafa gefizt illa, sbr. þetta mál og þjóðleikhúsið, sem hv. þm. S.-Þ. hefur beitt sér fyrir af mikilli óeigingirni. Þetta sýnir, hversu fjarstætt það er að byggja á tekjustofnum, sem ríkið tekur til sinna þarfa, þegar það þarf á peningum að halda. Það var þessi hlið málsins, sem ég átti við, en það kom ekki nógu skýrt fram, og ég er hv. þm. S.-Þ. þakklátur fyrir að hafa gefið mér tækifæri til að útlista það nánar.

Hv. þm. fór óvirðingarorðum um verkfræðinga. Ég hef nú heyrt það allt áður einmitt af hans munni eða lesið það í greinum hans. En ég vil benda honum á, að með þessari þáltill. gengur hann alveg inn á stefnu Jóns Þorlákssonar. Þessi till. er að efni til sama og frv. hans. Till. er kannske um sumt betur formuð, — en hann er nú búinn að vera í 13 ár að hugsa um það, sem Jón Þorláksson varpaði fram. — Till. er, ef til vill, betur formuð, en meginhugsunin er sú sama.

Varðandi óvirðingarorð hans um frv. 1929 og gagnsleysi þess vil ég að lokum benda honum ú eitt dæmi, sem ég veit, að hv. þm. S.-Þ. skilur undireins og honum er bent á það. Ef frv. 1929 hefði verið samþ. eins og það var, væri búið að bæta úr rafmagnsþörf Suðurlandsundirlendisins, án þess að bændum yrði hún ofviða sökum kostnaðar. Þá hefði Suðurland getað fengið orku úr Sogsvirkjuninni. Þetta hefði tekizt, ef frv. Jóns Þorlákssonar hefði ekki strandað, hvort sem það var fyrir það, að Jón Þorláksson hafði ekki trú á því, eða hvort það er fyrir það, að Framsókn tók við völdum. Af hvaða ástæðu, sem það var, er það víst, að ef frv. hefði ekki strandað, hefði verið ráðin bót á raforkuþörf Suðurlandsundirlendisins, sem ég veit, að hv. þm. S. Þ. viðurkennir, að sé mikið atriði í þessu máli.

Hv. þm. S.-Þ. gat þess, að hann væri vanur að snúa vör n í sókn. Það er satt, að hann er mikill málafylgjumaður og kann það oft. Ég skal fúslega játa, að í þessu máli hefur hann snúið vörn upp í sókn að vissu leyti. Hann hefur horfið úr einni varnarstöðunni eftir aðra, þegar hann rifjar upp sögu þessa máls. Það er af því, að hann allt of seint fékk skilning á gagnsemi þessa máls og mikilvægi og hefur síðan talað af sér um málið og reynir árangurslaust að réttlæta þetta. En hann hefur líka tekið það heillaráð með flokksmönnum sínum að snúa vörn í sókn með því að fylgja fram góðu máli, þótt aðrir eigi þar allt frumkvæði. Og það tel ég hverjum góðum dreng samboðið og þá ekki sízt hv. þm. S.-Þ.