02.09.1942
Sameinað þing: 12. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 108 í D-deild Alþingistíðinda. (1059)

19. mál, raforkumál

Flm. (Jónas Jónsson) :

Ég þarf ekki að fara djúpt út í ræðu hv. þm. Ísaf. Hann gerði lítið úr því, sem Framsfl. hefði gert á undanförnum árum í rafmagnsmálunum, en eins og kunnugt er, hafa nokkrir þm. Framsfl. og þar á meðal ég verið að reyna að koma því til leiðar, að hinar stærri rafveitur yrðu látnar borga nokkurn styrk til þess að koma upp smærri rafveitum, þar á meðal allstór rafveita, sem þessi hv. þm. hefur átt nokkurn þátt í að koma upp. Þetta hefur hann og flokksmenn hans reynt að drepa, og játaði hann það sjálfur. En á það má benda, að lægra hefði orðið risið á Alþfl. á Ísafirði, ef þeir hefðu ekki notið hjálpar annars staðar að við ýmsar framkvæmdir sínar þar.

Hv. þm. sagði, að ég væri orðinn gamall og áhrifalítill. En ýmsir helztu flokksmenn hans hafa þó gefið mér þau meðmæli, að það væri mér að kenna, að Alþfl. hefði ekki fengið þúsundir atkvæða, sem hann hefði annars fengið. Slík meðmæli hef ég fengið frá Héðni Valdimarssyni, Vilmundi Jónssyni, Stefáni Jóh. Stefánssyni og Jóni Baldvinssyni. Þetta er ef til vill ofmælt, en flestir munu þó telja, að meira sé að marka ummæli þessara manna en hv. þm. Ísaf.

Hv. þm. áfelldist mig fyrir að hafa haft rangt fyrir mér í Kveldúlfsmálinu. Alþfl. vildi láta eyðileggja Kveldúlf. Ef það hefði verið gert, hefðu skip og aðrar eignir félagsins verið seldar, og landið hefði tapað stórfé. Ég gagnrýndi að vísu Kveldúlf, en ég sá, að hægt mundi að fá skuldirnar greiddar. Ég átti þess vegna þátt í því, að settir voru nýir menn inn í fyrirtækið. Það var að vísu nokkurt vantraust á fyrirtækinu, en þetta blessaðist, og eftir skamma stund var það búið að greiða skuldir sinar.

Hv. þm. sagði, að Alþfl. hefði farið illa, ef hann hefði verið í vinskap við mig. Hamingjan góða, er nokkur ástæða til þess, að þeir lifi á mér? Ef þeir geta ekki lifað á sjálfum sér, ber mér ekki minnsta skylda til að halda þeim uppi, enda mundi ekki vilja gera það.