04.09.1942
Sameinað þing: 14. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 111 í D-deild Alþingistíðinda. (1067)

19. mál, raforkumál

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. — Hér liggur fyrir til umr. till. til þál. um undirbúning á víðtækum rafveituframkvæmdum í þessu landi. Satt að segja er það eðlilegt, að í sambandi við þáltill. þessa fari fram almennar umr. um viðhorfið til sveita almennt og hvers konar pólitík það er, sem við höfum rekið undanfarið, og hvort ekki sé hægt að vinna skipulegar en gert hefur verið.

Fyrir 15 árum var byrjað að vinna að málum sveitanna með nýbýlasjóði o. fl., en það kom brátt í ljós, að það dugði ekki til að halda fólkinu í sveitinni. Sveitirnar tæmdust samt. Og enn var haldið áfram að framkvæma fyrir sveitirnar. Nýbýli voru reist, vegir voru lagðir um héruðin, sími var lagður inn á heimilin. Bændum var og hjálpað á ýmsan veg við byggingu skepnuhúsa og annars, er þeir nauðsynlega þurftu við búskapinn. En það fór enn á sömu leið. Fólkið fór úr sveitinni í kaupstaðina, og mörg nýbýli stóðu auð og ónotuð eftir. Þetta er veruleiki, sem við verðum að horfast í augu við, og það einmitt nú, þegar um þetta stórmál sveitarinnar, rafveitumálið, er að ræða. Það er sem sagt engin vissa fyrir því, að fólkið flýi ekki sveitirnar, þó að það fái þangað bæði þægindi og rafmagn. Þetta kemur til af einu, sem mönnum hefur sézt yfir eða þeir ekki viljað viðurkenna, að fólkið vill búa í þéttbýli. Með það fyrir augum hefði þurft að haga framkvæmdum til sveita seinustu árin, því að það er staðreynd, sem ekki verður gengið fram hjá, að fólkið vill búa í þéttbýli og það vill fá félagsskap. Það er engin tilviljun, að fólkið í Mývatnssveit skuli ekki flytja úr sveitinni, heldur una þar vel hag sínum, því að sú sveit er þéttbýlli en almennt gerist til sveita. Því er það, þegar landbúnaðarmál eru rædd, þá verður fyrst og fremst að sjá um það, að þessari grundvallarþörf sveitanna sé fullnægt, og við getum séð um það með því að hjálpa fólkinu til að færa byggðina saman. Satt að segja er ég hissa á, að það skuli ekki hafa farið fram neinar heildarrannsóknir á því, hvernig byggingum í sveit verði bezt fyrir komið með tilliti til þessarar grundvallarþarfar sveitafólksins. En það gengur svo til hjá okkur, að við erum að veita fé til húsabygginga svo að segja í blindni án nokkurs skipulags. Svo er það einnig á öðrum sviðum. T. d. fer höfn og síldarbræðslustöð ekki saman hjá okkur. Við samþykkjum höfn á Skagaströnd, en kemur ekki til hugar að setja þar síldarbræðslustöð. Þannig er það tilviljun, sem ræður, hvað ofan á verður, og ötulir þm., er hafa vinnuþörf í einu kjördæmi til hliðsjónar.

Ég var oft að hugsa um það, þegar frv. um síldarbræðslustöðvar var til umr., hvort það hefði nú ekki verið betra að láta fara fram rannsókn, hvar þeim væri bezt fyrir komið miðað við hagsmuni alþjóðar, en ekki láta þær detta niður hér og hvar af handahófi.

Ég veit nú, hvað sem hv. þm. kunna að segja um þetta eða hugsa, að þeir viðurkenna þetta undir niðri með sjálfum sér, að það hefði jafnvel verið betra frá upphafi að færa til fólkið, þó að það sé viðkvæmt mál að vísu, þá væri því það áreiðanlegra betra, að slíkt hefði verið gert.

Þegar verið er að ræða um að veita rafmagni inn á hvern einasta bæ, þá verður jafnframt að reikna út þróun næstu 100 ára, hvert fólksstraumurinn muni liggja, og haga framkvæmdum í samræmi við hann. Það væri svo sem ekkert skemmtilegt til afspurnar um forsjálni manna að sjá býlin standa auð, er stundir líða fram, með dýrum vegum, síma og öðrum þægindum, af því að löggjafinn hafði ekki vit á því að hjálpa fólkinu til að flytja sig saman, þar sem því vegnaði bezt, — þar sem því fannst skemmtilegast og þægilegast að lifa.

Ég held því, að það sé ekki úr vegi, að þetta atriði sé rætt í sambandi við þáltill. þessa, og ég sé ekki, að brtt. hv. l. landsk. dragi neitt úr tilgangi flm. með þáltill., nema hann gangi út frá eilífu ástandi í sveitunum, sem nú er. Ég held því, að nokkrar umr. um þetta mál séu heppilegar.

Af ýmsu hefur mátt ráða, eins og ég hef þegar drepið á, að menn vildu færa byggðir sínar saman, en með þáltill. þessari er gert ráð fyrir og miðað við, að viðhalda eigi afskekktum býlum í landinu. Vil ég því eindregið mælast til þess, að brtt. hv. 7. landsk. verði samþ.