04.09.1942
Sameinað þing: 14. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 114 í D-deild Alþingistíðinda. (1069)

19. mál, raforkumál

Pétur Ottesen:

Ég álít, að þeir menn hafi nokkuð til síns máls, er segja, að eðlilegt sé, að þessi þáltill. fari til n. og athugunar þar, en mér þykir rétt að geta þess, af hverju ég þó greiddi atkv. gegn því.

Mál þetta kom fyrst fyrir í fyrrinótt, og af því hve langt er nú liðið á þetta þing, er ekki nema um tvennt að gera í þessu máli. Annaðhvort er að afgreiða málið til n. og stöðva þar með framgang þess á þessu þingi eða afgreiða það án nefndar.

Nú er það um þetta þing að segja, að það mun fá eins og önnur þing, er setið hafa, æðimisjafna dóma. En um það er þó hægt að segja, að það hefur tekið fastari tökum á rafmagnsmálum sveitanna en gert hefur verið á undanförnum þingum, því að í dag hefur það afgreitt sem lög stofnun 10 millj. kr. sjóðs og auk þess tryggt sjóðnum drjúgar tekjur árlega eftirleiðis. Þetta er því mjög stórt spor, er stigið hefur verið í þessu máli á yfirstandandi þingi. Það er og vitað, að framkvæmd eða notkun þess fjár, er þar er og verður í sjóði, getur ekki orðið fyrr en heildarlöggjöf er samin, þar sem mörkuð er stefna í framkvæmdum þessara mála.

Einn aðalþátturinn í þessari till. er sá, að hafin sé þegar rannsókn í þessu máli og undirbúningur rafveituframkvæmda sé gerður. Einmitt sá þáttur þáltill. er eðlilegt framhald af stofnun rafveitusjóðsins og því rétt, að till. nái fram að ganga nú, svo að hafizt verði handa í þessu máli. Þessi aðstaða getur að mínum dómi réttlætt það, að frá þeirri sjálfsögðu reglu sé nú vikið, að málið fái athugun í n., áður en það er afgreitt frá þinginu. Og hvað sem annars er um efni og orðalag till. að öðru leyti að segja, þá finnst mér þetta atriði í henni,; sem fjallar um athugun á málinu, svo' þýðingarmikið og aðkallandi, að ég mæli eindregið með því, að till sé afgr. nú.

Að því leyti sem efni till. lýtur að tekjuöflun, þá er það mál út af fyrir sig og á að taka fyrir á öðrum vettvangi. Meðmæli mín og stuðningur við till. mótast af því efni hennar, sem ræðir um undirbúning og tillögur um framkvæmd rafmagnsmálanna.

Brtt. hafa komið fram við þáltill., orðalagsbrtt., er hafa enga afgerandi þýðingu, og brtt., er felur í sér stórt og mikið verkefni, að hið opinbera beiti sér fyrir rannsókn á byggðum þessa lands. Fyrir flm. vakir það að leggja niður hið afskekkta byggða ból í landinu. Í tilefni af þessu vil ég láta það koma fram sem mína skoðun, að ég er andvígur þeirri stefnu, að farið sé að vinna að því að leggja niður byggð á þeim svæðum, þó að afskekkt séu, þar sem vel er lífvænlegt þrátt fyrir strjálbýlið. Stefna mín er sú, að með býlafjölgun í sveitunum, sem er eitt af mikilsverðustu viðfangsefnum þjóðarinnar, eigi að keppa að því að fylla í eyðurnar og gera byggðina samfellda með þeim hætti. Trú mín á framtíð íslenzku þjóðarinnar og hið nýja landnám í sveitunum, er við það tengd, að landnámið verði í aðalatriðum framkvæmt með þeim hætti. Ég vænti þess, að framtíðin sé ekki að leggja neitt af landi okkar í auðn, heldur að starfsorka þjóðarinnar fari í það að fylla í eyðurnar.

Menn tala um það, sem hér er stefnt að, að hagnýta raforkuna, og verður þá að athuga það og gera sér það ljóst, að það tekur marga áratugi eða meira að fullnægja þörfum sveitanna að þessu leyti. En menn mega ekki láta sér vaxa það í augum eða láta sér blöskra það fjármagn, sem þarf til þeirra hluta.

Ég geri ráð fyrir, að mörgum hafi hrosið hugur við þeim framkvæmdum, er þjóðin réðst í, er byrjað var á vegaframkvæmdum hér á landi, brúargerðum og símalagningum, og að jafnvel hinir bjartsýnustu menn hafi þá ekki gert sér vonir um svo góðan árangur af þeim framkvæmdum sem raun ber vitni um. Ég hygg því, að sú barátta fyrir verklegum framkvæmdum, er allt til þessa hefur verið háð í landinu, hafi náð það góðum árangri, að sízt af öllu ætti að fæla okkur frá því að horfast í augu við það verkefni, sem fram undan er í máli þessu, og að þjóðin beiti bolmagni sínu til þess að hrinda því í framkvæmd og að sú hugsjón geti rætzt, að rafmagn lýsi og vermi hvern bæ á landinu.