08.09.1942
Sameinað þing: 18. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 117 í D-deild Alþingistíðinda. (1088)

81. mál, stjórnarskrárnefnd

Jónas Jónsson:

Mér er sérstök ánægja að mæla með þessari þáltill. hæstv. ríkisstj. En um leið get ég ekki komizt hjá að benda á það, að það hefði sjálfsagt verið miklu betra fyrir alla aðila, ef sú till., sem borin var fram á vetrarþinginu í v or um slíka n., hefði þá verið samþ. og látið ógert það samkomulag, sem hefur leitt til eyðileggingar atvinnulífsins og fjármálalífsins í landinu og skapað hér þá upplausn, sem hefur orðið svo gífurleg, þannig að þeir, sem báðust eftir þeim ófagnaði, standa nú agndofa yfir þessari upplausn og óska eftir, að hún verði stöðvuð, og er það mála sannast.

Með því að það hafa þrisvar verið gerðar breyt. á stjórnarskránni, — en ég tel þó ekki að neinu þetta síðasta, — en fyrir utan þetta, sem samþ. var í hv. Ed. nú alveg nýverið, hefur tvisvar verið breytt stjórnarskránni, 1933 og 1942, og í bæði þau skipti hafa þær aðferðir verið við þær stjórnarskrárbreyt., sem ósamboðnar eru stjórnarskránni. Það hefur verið hlaupið í þær breyt. undirbúningslaust og rannsóknarlaust og ekki tekið tillit til neins nema augnablikshagsmuna þeirra flokka, sem að þeim breyt. stóðu. Þess vegna er nú viðurkennt af mörgum, kannske öllum, að fyrir þá spillingu, sem stjórnarskráin hefur orðið fyrir við tvær óundirbúnar breyt., sem voru í eðli sínu árásir, þá er stjórnarskráin þannig, að það þarf að laga hana mikið. Og það er bezt að búast við því, þar sem nú sennilega er tækifæri til þess, að þessi n. geti starfað nokkuð ýtarlega, að þá verði hægt að bæta fyrir nokkrar af þeim misfellum, sem eru komnar á í þessu efni, og ber þess vegna að fagna því, að hér er stofnað til þess.