04.09.1942
Sameinað þing: 15. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 122 í D-deild Alþingistíðinda. (1096)

79. mál, ríkisstjórn

Forsrh. (Ólafur Thors) :

Ég veit, að það er ekki ætlazt til þess, að ég svari þessum hv. þm. Hann hefur haldið þessa sömu ræðu einu sinni til tvisvar á dag á þessu þingi, og ég held, að honum hafi aldrei tekizt verr en nú. Ég hef stundum lent í sennu við hann, og ég held, að það sé ekki ofmælt, þó að ég segi, að ég hafi aldrei borið skarðan hlut frá borði í þeim viðskiptum. Ég vil vekja athygli þingsins á því, að þessi hv. þm. veit hvorki, hvað er þingræðisstjórn, né heldur skilur þá till., sem hann hefur hér borið fram. En ég skal lofa honum því, að ég skal vera búinn að koma honum í skilning um það, hvað þessi till. þýðir, áður en langt líður. Það mun einnig í þessu tilfelli sýna sig, hver ber skarðan hlut frá borði.