19.08.1942
Efri deild: 10. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 59 í B-deild Alþingistíðinda. (113)

7. mál, dómnefnd í verðlagsmálum

Frsm. meiri hl. (Bjarni Benediktsson) :

Meiri hl. allshn. hefur orðið sammála um að leggja til, að frv. þetta verði samþ., en hún hefur þó til athugunar fram til 3. umr. brtt., sem til greina hefur komið að bera fram. Þó get ég lýst yfir því nú þegar, að ég get ekki fallizt á það, sem hér hefur verið rætt um, að ákvörðun verðs á landbúnaðarafurðum verði lögð undir dómnefndina. Hitt er til athugunar, hvort fært þykir að heimta niðurfall gerðra samninga, og er ég ekki reiðubúinn að taka afstöðu til þess máls að svo stöddu.

En meiri hl. n. hefur orðið ásáttur um að mæla með frv., þó að ég geri ráð fyrir, að það hafi nokkuð ólíkar forsendur komið til greina. Það er vitað, að form. allshn., hv. 9. landsk., hefur alltaf verið þessari löggjöf andvígur og talið hana til ills eins. Hann hefur því aðeins framfylgt fyrra áliti sínu með því að greiða atkv. með frv.

Hins vegar taldi ég í fyrstu þessa löggjöf nauðsynlega. Ég var þeirrar skoðunar, að óhjákvæmilegt væri, að ríkisvaldið hefði íhlutun um þessi mál. Má því segja, að hér sé um afstöðubreyt. hjá mér að ræða, er ég vil nú samþ. þetta frv. En því er þó ekki að neita, að margt hefur breytzt, síðan l. voru sett, og er nú svo komið, að ég tel ekki hægt annað en fella þessi fyrirmæli úr gildi. Ég verð að vísu að telja, að almenningi sé nokkuð tvísýnn hagur að þeim kauphækkunum, sem nú eru allar líkur til, að hann fái, og fell ég ekki frá því, þó að ég sé því nú meðmæltur að láta l. niður falla. Játa ég þó, að atvinnuvegirnir eru nú færir um að greiða þetta kaup, a. m. k. höfuðatvinnuvegir landsmanna. Það er vitað, að sjávarútvegurinn er nú svo stæður, að hann getur staðizt við að greiða hækkað kaup, og vitanlega hlýtur landbúnaðurinn að fá hækkað afurðaverð sitt, eftir því sem kaup hækkar. Það eru aðrar ástæður, sem valda því, að ég og við sjálfstæðismenn teljum þessar kauphækkanir varhugaverðar. Í fyrsta lagi óttumst við, að allar kaupbætur muni éta sjálfar sig upp og verða frekar blekking en veruleiki, með því að allar innlendar afurðir muni hækka að sama skapi. Og í öðru lagi erum við minnugir þeirra vandræða, sem voru hér á landi fyrir styrjöldina. Þá sýndi reynslan, að atvinnuvegirnir voru ekki færir um að gjalda það kaup, sem þá tíðkaðist, og mundu þeir þá enn síður reynast þess megnugir að greiða það kaup, sem nú er goldið eða meira; ef sama ástand skapaðist á ný. Það er óttinn við það, að eftir styrjöldina kunni að sækja aftur í sama horf, sem veldur því, að við höfum viljað halda kaupgjaldi og verðlagi í sem föstustum skorðum. Við höfum því ekki talið æskilegt að taka til skipta meðal almennings allan þann stríðsgróða, sem safnazt hefur inn í landið. Við höfum talið, að nokkurn hluta hans bæri að nota til þess að tryggja atvinnureksturinn í framtíðinni, og yrði þá að vera svo vel um búið, að engin hætta væri á, að þeim fjármunum yrði varið til annars. Hins vegar töldum við ekki óeðlilegt, að ríkið tæki allverulegan hluta af þessum gróða og geymdi til erfiðu áranna, sem við óttumst, að koma muni. Það má reyndar segja, að óvíst hefði verið, hvernig slíkar ráðstafanir hefðu tekizt, því að framtíðin verði ekki að öllu leyti dæmd eftir fortíðinni. Tíminn eftir styrjöldina getur orðið allt annar en árin fyrir stríðið, og er ekki ólíklegt, að almenningur hér muni geta átt við betri lífskjör að búa eftir stríðið en áður, eða það skyldum við vona. Það er því engan veginn öruggt, að af kauphækkununum nú hljóti að leiða ófarnað, þó að við höfum óttazt það, og það er a. m. k. ljóst, að hvernig sem þessi stríðsgróði skiptist innan lands, þá fer hann ekki út úr landinu. Ef hann skiptist að miklu leyti milli almennings, þá getur hann eftir það geymzt í vasa almennings hér innan lands í stað þess að safnast í sjóði hjá atvinnufyrirtækjum og hinu opinbera, svo sem ætlað hafði verið. Á það hefur verið bent, að hæpið sé að gera of mikið úr gildi sjóðamyndana, reynslan hafi orðið sú, að fé hafi verið dregið út úr fyrirtækjum, þó að áætlunin hafi verið að koma í veg fyrir, að svo yrði, og erfitt muni að búa svo um með l., að séð verði við öllum leka. Og þá má benda á það, að fjármálastjórnin í tíð Framsfl. var ekki slík, að hún væri líkleg til að auka trú almennings á gildi fjársöfnunar, því að óneitanlega gætti þar allmikillar óráðsíu um meðferð opinbers fjár, og var yfirleitt meira hirt um flokkshagsmuni í því efni en alþjóðarhag.

Það var því ekki undarlegt, að gerðardómsl. mættu allmikilli andúð allt frá upphafi. Með þeim voru lögð höft á grunnkaupshækkun. Þrátt fyrir þau höft mátti samt hækka kaup til samræmis og lagfæringar og þess, sem ákveðið var, að kaupgjald skyldi hækka í samræmi við dýrtíðina. Þetta hvort tveggja hafði áunnizt fyrir atbeina Sjálfstfl., því að Framsfl. lagði til að festa kaupið algerlega með l. og banna alla kauphækkun þrátt fyrir vaxandi dýrtíð. Við sjálfstæðismenn sáum, að slík fyrirmæli væru allt of ströng, og töldum, að þau hlytu að falla um sjálf sig, enda hefði ekkert réttlæti verið í slíku. Við töldum, að frekar væri ratað rétt meðalhóf með brbl. um gerðardóm í kaupgjaldsmálum, sem gefin voru út eftir áramótin: Þó var auðvitað frá upphafi ljóst, að mikil vandkvæði mundu verða á framkvæmd þessara l., og að þau mundu ekki koma að gagni, nema það tækist að sannfæra almenning um, að þau mundu verða honum til góðs. Og auðvitað var það erfitt hlutverk að eiga að sannfæra menn um, að þeim bæri að leggja á sig þá fórn að afsala sér miklum grunnkaupshækkunum nú fyrir óvissa framtíðarhagsmuni. Þetta hlaut að verða því erfiðara sem sumir af forgöngumönnum þessara l. eins og t. d. fyrrv. forsrh., núverandi hv. þm. Str., gerðu sér leik að því að ögra landsmönnum og hleypa illu blóði í menn, eins og fram kom í hinni alkunnu nýársræðu hans, og var þó sú ræða ekkert einsdæmi, heldur eitt dæmi af mörgum um ofstopa þann og óbilgirni, sem ráðh. Framsfl. hafa sýnt og gert hefur það að verkum, að allur almenningur var farinn að telja fylgi þeirra við mál sönnun þess, að málið væri illt. Síðari framkoma þessara manna hefur fært sannanir fyrir því, að alþýða manna hefur ekki haft með öllu rangt fyrir sér í þessu. Þetta gerði andstæðingum málsins auðveldara að vekja þegar í upphafi sterka öldu gegn því, og nutu þeir til þess nokkurra forréttinda um blaðaútgáfu. Sú samvinna við launþegana um framkvæmd l., sem nauðsynleg hefði verið, fékkst því aldrei.

Það er auðvitað rétt, að sú mikla peningavelta, sem hér er nú, getur verið ærið varhugaverð. En það dugir ekki í því sambandi að vitna eingöngu til þess, hvernig stríðsþjóðirnar fari að og hvaða ráðum þær beiti til þess að ráða bót á vandkvæðunum, því að annað hlýtur að nokkru að gilda um okkar þjóðfélag, þó að það verði vitanlega fyrir miklum áhrifum af stríðinu. Þó að við höfum skaðazt um sumt á ófriðnum, hefur hann ekki valdið okkur fjárhagstjóni. Þær þjóðir, sem eiga í styrjöld, tapa daglega fjármunum og mönnum og verða sífellt fátækari.

Hið gagnstæða hefur átt sér stað hér. Enn hefur ófriðurinn haft í för með sér fjárhagslegan gróða fyrir okkur. Það er því augljóst mál, að sömu aðferðir eiga ekki að öllu leyti við hér á landi eins og með styrjaldarþjóðunum, og það er engan veginn víst, að úrræði þeirra þjóða henti okkur, þó að þau séu jafnvel óumflýjanleg nauðsyn styrjaldarþjóðanna.

Það var vitanlegt, en þó ekki tekið nóg tillit til þess, að dvöl hins erlenda setuliðs hlaut að hafa ósegjanleg áhrif í för með sér á fjármálakerfi þjóðarinnar, og á meðan slíkt uppboð var á vinnumarkaðnum, sem af setuliðsframkvæmdum hefur leitt, var ekki hægt að standa á móti kauphækkunum nema með samþykki verkalýðsins. Ég skal játa það, að það voru ekki einungis verkamenn, sem áttu þátt í því, hvernig fór, því að atvinnurekendurnir, margir hverjir, fóru ekki síður í kringum l., og gerðu þeir sitt til þess, að l. urðu að engu, með því að vera með yfirboð til verkamanna, sem tóku við þeim, sem vonlegt var.

Nú er það vitað mál og þarf ekki margt um það að segja, að einn helzti erfiðleiki löggjafans er, ef eigi næst samvinna við þá, sem við l. hans eiga að búa, svo að þeir vilja ekki þýðast þau, og er þá oft gripið til þess úrræðis að beita kúgun, einræði og ofbeldi, eins og við þekkjum mörg dæmi til. Því er ekki hægt að neita, að stj. gerði sér í þessu efni það ljóst strax í upphafi, að samvinnu þurfti við þá, er áttu við þessi l. að búa. Í 4. gr. l. eru verkföll og verkbönn bönnuð, og nær bannið einnig til þeirra, er hafin eru. Þetta segir þar berum orðum. Engu að síður vita allir, að verkföll stóðu yfir 8. jan., er l. voru gefin út, og það leið langur tími, þangað til þeim var af létt. Ég hygg, að það muni hafa verið um 30. jan. s. l., sem járniðnaðarmenn sömdu við vinnuveitendur um kaupið, sem gerðardómurinn 2–3 dögum síðar samþykkti með þeim áhrifum, að grunnkaup járniðnaðarmanna hækkaði a. m. k. um 8%. Nú halda Framsfl. og hæstv. fyrrv. forsrh. því fram í nál. allshn., að borið hefði að hækka ekki grunnkaupið, en á meðan hv. þm. Str. (HermJ) sat að völdum fyrir hönd síns flokks, þá lét hann það samt viðgangast, að grunnkaupið hækkaði um 8%, eins og ég gat um. En deilunni um kaupgjaldið var ekki þar með lokið. Ég hygg, að það hafi ekki verið fyrr en 10. febr., er prentarar sömdu við atvinnurekendur, og allan þann tíma sat að völdum sama stj., sem l. hafði sett, og hafði ekki í frammi neinar þær þvingunarráðstafanir gagnvart verkfallsmönnum, er l. heimiluðu, að gerðar væru, og beinlínis bar skylda til að gera, ef framfylgja átti l. út í yztu æsar, en ekki fara samkomulagsleiðina. Síðan tala þeir, sem þá stjórnuðu, um það sem það hefði ekki þurft að vera neinum vandkvæðum bundið að framfylgja l.! Eftir því sem hv. þm. Str. talar nú, hefði mátt ætla, að hann skirrðist ekki við að beita þeim viðurlögum, er l. heimiluðu. En hann hefur séð það þá, eins og allir aðrir voru sammála um, að með því móti hefði verið stefnt út í enn meira öngþveiti og beinan voða, þar sem það er vitað mál, að gerðardómsl, voru þverbrotin af verkamönnum og atvinnurekendum frá upphafi. Það er og kunnugt, að sú stj., er hv. þm. Str. veitti forustu, hækkaði verulega vegavinnukaupið með hæpinni heimild, og á vorþinginu gerðu framsóknarmenn ráð fyrir því, að næsta sumar yrði að greiða miklu hærra kaup í sveitunum en áður hafði verið. — Þannig má lengi telja, hvernig l. þessi voru brotin og látið niður falla að framfylgja þeim af þáverandi forsrh. Hví er svo þessi maður, hv. þm. Str., að segja, að svo og svo hefði átt að fara að til að framfylgja l.? Hvers vegna gerði hann það þá ekki sjálfur, á meðan hann sat í ráðherrastóli og hafði aðstöðu til að framkvæma það, er hann nú vill vera láta, að hefði þurft að gera? Ég get ekki betur séð en að með þessu háttalagi sé hann beinlínis að ásaka sjálfan sig í þessu máli.

Þrátt fyrir allt tel ég, að gerðardómsl. hafi gert visst gagn um skeið og haldið dýrtíðinni niðri og séu því ekki að ófyrirsynju sett og hafi verið nauðsynleg tilraun til þess að sporna við dýrtíðinni, en lífið sjálft hafi brotið af sér og gert að engu, því að í lýðræðisþjóðfélagi er ekki hægt að fylgja þeim l., sem fólkið vill ekki þýðast, og nægir í því sambandi að minna á bannl. til frekari skýringar. Hæstv. núv. ríkisstj. hefur því ekki gert annað en að draga ályktun af reynslunni með frv. þessu. Hún horfist í augu við sannleikann í þessu máli, að l. gátu ekki orðið til þess, er ætlazt var til, hefur karlmennsku til að viðurkenna það og nema þau burtu og taka til annarra ráða, er almenningur sættir sig við. Hér verður fyrst og fremst að stöðva verðhækkunarölduna með samtakamætti almennings í landinu, og því verður að ryðja hindrunum, er standa í vegi, burtu og afnema þessi l. Það verður að koma á frjálsu samkomulagi við aðilana, er við l. eiga að búa, um að kaupgjaldinu verði komið á fastan grundvöll.

Hv. þm. Str. var í gær að kenna okkur nýju þm. rétta þingsiðu. Það kom að vísu upp úr kafinu, að þetta áttu að vera einhverjir nýir siðalærdómar hjá þessum hv. þm., en ég verð að segja það, að mér finnst það koma úr hörðustu átt, að slíkt komi frá honum. Ef honum er alvara með siðabótina, hefði honum verið nær að beita sér fyrir henni, á meðan völd hans voru meiri en nú. Það er þá líklega einn þáttur hans í nýju siðabótinni á þingi; að ekki er hægt af nál. hans um frv. að sjá, hvort hann er með eða móti frv. Af því nál. má helzt ráða, að hann sé að ásaka fyrrv. samstarfsmenn sína en að þvo sjálfan sig, sem þó allt lendir öfugt í höndunum á honum. Í byrjun nál. segir hann: „Með frv. þessu, ef að l. verður, eru allar skorður burtu teknar, er reistar hafa verið gegn vaxandi dýrtíð.“ En í niðurlagi nál. segir: „ gerðardómsl. eru í höndum núverandi ríkisstjórnar gagnslaus með öllu, og sízt til bóta að halda þeim í gildi að nafninu til, svo sem stjórnarfarinu og framkvæmd l. er nú háttað“. Ef niðurlagið er rétt, þá sjá allir, að það stangast við byrjunina og hvort tveggja fær ekki staðizt. Eftir þessu er allt þar á milli. Allt stangast hjá hv. þm. Str. Hann gerir sér leik að því að skella skuldinni á fyrrv. samstarfsmenn sína í ríkisstj., en ég hef sýnt fram á það með rökum, að hann átti sinn þátt í því að brjóta niður l., m. a. með því að framfylgja þeim ekki til hins ýtrasta, sem ég get þó alls ekki láð honum né ætlazt til, að hann gerði annað en að beygja sig fyrir því almenningsáliti, er braut l. niður. En seinna, þegar hann er farinn frá völdum, ræðst hann á fyrri samstarfsmenn sína fyrir að framfylgja ekki þeim lögum, sem hann sjálfur sá og í framkvæmd sýndi, að var ekki hægt að framfylgja.

Annars er dálítið gaman að athuga þetta nál. hv. þm. Str. Hann segir, að þrennt hafi þurft að gera í sambandi við gerðardómsl.: Í fyrsta lagi að semja við hinn erlenda her um fækkun manna í setuliðsvinnunni. Í öðru lagi að takmarka sem mest, að stríðsgróðinn léki laus og margfaldaði peningaveltuna, og í þriðja lagi, að ríkisstj. aflaði sér heimildar til þess að takmarka óþarfar framkvæmdir. Ég skal koma að því, að hverju leyti þetta er rétt, en mér er spurn: Hví framkvæmdi hann ekki þetta, á meðan hann hafði aðstöðu til þess? Hvern er hv. þm. Str. að ásaki hér, ef ekki sjálfan sig fyrst og fremst? Sannleikurinn er sá, að málið var ekki nógu glöggt séð fyrir, en það er hreinskilnara og karlmannlegra að játa, að sér hafi skjátlazt, en segjast á eftir hafa séð ófarnaðinn fyrir án þess að hafast að til þess að hindra hann.

Hitt er og einnig rétt, að menn hugleiði, hverjar þær ráðstafanir eru, sem hann telur, að þurft hefði að framkvæma samhliða gerðardómsl. Um leið og átti að takmarka óþarfa framkvæmdir og viðhafa kaupbindingu, átti að koma á vinnuskyldu eða þvingun. Ef menn vildu ekki sætta sig við þetta, hvað átti þá að gera? Átti þá að beita valdi? Hæstv. fyrrv. forsrh. minnist reyndar ekki á það, hvað þá ætti til bragðs að taka, en öll rökfærsla hans nú leiðir óhjákvæmilega til þess, að svo hefði orðið að fara að.

Það væri dálítið fróðlegt að vita, hverjar þær framkvæmdir eru, sem takmarka átti að ráði hv. þm. Str. Jú, hann mun svara því til, að takmarka hefði átt eitthvað að húsabyggingum.

En það vill svo til, að ég get fullyrt, hvað sem þessum villubyggingum í Rvík líður, þótt hætt hefði verið við þær, þá hefði það engin áhrif haft á vinnuspursmálið, því að það hefði einungis leitt til þess, að því byggingarefni, sem þangað fór, hefði verið varið á annan og ég vil segja skynsamlegri hátt. Segja má, að það hafi verið yfirsjón að taka ekki til opinberrar ráðstöfunar allt byggingarefni, sem til landsins hefur flutzt, frá því að styrjöldin hófst. En ef svo er, þá er það yfirsjón, sem við getum allir ásakað okkur jafnt um.

Það er vitað, að það hefði verið byggt úr öllu byggingarefni, sem til landsins hefur flutzt ef ekki hefði átt að banna allra nauðsynlegustu byggingar. Ég held, að ég fari ekki með neitt launungarmál, þó að ég segi frá, að eftir þessi samtöl við setuliðið í vor, sem vitnað hefur verið í, áttu sér stað, var sérstaklega talað um, að vissar byggingar yrðu bannaðar, og það voru engar óþarfa byggingar. Það var snúið sér til borgarstjóra og sagt, að það væri óþolandi á slíkum tímum að ráðast í þær íbúðabyggingar, sem bærinn hafði fyrirhugað úti á Melum og Laugarnesbarnaskólann. Þetta voru þær óþarfa framkvæmdir, sem átti að koma í veg fyrir. Það var þegar hægt að benda á, að Laugarnesbarnaskólinn var sú bygging, sem sízt sat á setuliðinu að banna, vegna þess að bygging hans er ekki sízt nauðsynleg vegna þeirra aðgerða, sem setuliðið hefur haft í frammi, þar sem það hefur látið rífa mikinn hluta bæjarhverfisins í Skerjafirði og þær byggingar hafa verið fluttar inn í Laugarnes, en auðvitað er þýðingarlaust að koma upp íbúðarhúsum, ef skólahús fylgir ekki þar með. Um íbúðarhús bæjarins er það að segja, að vegna utanaðkomandi atvika verður þar hægt miklu minna að gera en við vildum og nauðsynlegt væri. Ég vil segja það hreinskilnislega, að ég geri ráð fyrir, að það reynist fullerfitt að ráða fram úr þeim geigvænlegu húsnæðisvandræðum, sem við verðum nú að berjast við og erum varnarlausir gegn, þó að ekki hafi verið stöðvaðar þær húsbyggingar í bænum, sem hafa þó átt sér stað síðasta sumar.

Ég veit ekki, hvort ég á að fara að eltast mikið við það, sem hv. þm. Str. hefur sagt, en ég tel þó rétt að láta það ekki með öllu ómótmælt, sem hann hefur sagt um sögulegan aðdraganda þessa máls í nál. sínu. Hann segir þar t. d., með leyfi hæstv. forseta :

„Seint á árinu 1940 voru stjórnmálamenn almennt þeirrar skoðunar, að okkur Íslendingum bæri að haga fjármálum okkar þannig, líkt og aðrar þjóðir, að kaupgjald og föst laun ættu tæpast að hækka í samræmi við dýrtíðarvísitöluna.“ Hann hefur sjálfur áður lýst yfir, að hann hati talið þetta. En ef hann áleit þetta þá, hvers vegna lét hann engan heyra þetta þá? Hvers vegna gerði hann þá þvert á móti því, sem hann áleit, að hafi verið rétt? Hann var sjálfur forseti ríkisstj., sem beitti sér fyrir, að kaupbindingarákvæði gengisl. var fellt úr gildi í árslok 1940, en það var öllum ljóst, sem til þekktu þá, að það hlaut að leiða til þess, að full dýrtíðaruppbót yrði greidd. Ég tel sanngjarnt, að full dýrtíðaruppbót sé greidd, en ég tel, að maðurinn, sem hefur átt mest allra þátt í því, að full dýrtíðaruppbót hefur verið greidd, eigi ekki að koma á eftir sem yfirspekingur og segja, að rangt hafi verið að fara þá leið, sem hann hafði forustu fyrir, að farin var. Það verður að vera eitthvert samræmi milli þeirra gerða, sem menn hafi framkvæmt, og þess, sem menn segjast hafa séð fyrir, meðan þeir voru að framkvæma verkið.

Hann segir enn fremur: „En um áramótin 1940–l941 tekur þessi hugsunarháttur að láta undan síga fyrir áróðri, sem ekki studdist við neina fjármálaþekkingu.“ Hver beitti sér fyrir, að látið væri undan síga nema hæstv. forsrh., sem lét fella þetta ákvæði úr gildi? Ég tel, að rétt hafi verið að fella þessi ákvæði úr gildi, og vafasamt, hvort þau hefðu staðizt, þó að þau hefðu verið í gildi, en maðurinn, sem beitti sér fyrir, að þetta væri gert, getur ekki verið þekktur fyrir að segja annað eins og hv. þm. Str. hefur gert í þessu nál.

Saga dýrtíðarmálanna er að öðru leyti svo kunn og hefur svo oft verið rædd, að ég tel ekki þörf á að rekja hana hér, en fyrrv. forsrh. mætti ósköp vel minna á, hvernig hann kom frvm á haustþinginu síðast, þegar hann fyrst ber fram frv. um algera kaupbindingu í stj., síðan fellst hann á í stj. að falla frá því, að þetta frv. verði borið fram, og samþykkir, að hin svokallaða frjálsa leið verði farin, en leggur þar á eftir svo mikið kapp á, að kaupbindingarleiðin verði farin, að hann segir af sér hiklaust, ekki af því að stj. vilji ekki taka leiðina til athugunar, heldur af því, að menn vilja ekki fallast á hana umsvifalaust og bera hana fram sem stjórnarfrv. Forustumaður þingsins hleypur frá öllu, meðan stríðið stendur, ekki af því að hann sjái sitt óvænna, heldur af því, að hann hefur rekið sig á, ekki í fyrsta og ekki í síðasta skiptið, að ráðið til að koma málum fram er ekki að koma með hnefann að mönnum og hóta mönnum öllu illu, ef ekki er undan látið. Og þegar þingið hefur þannig orðið sér til vafasams sóma, hæstv. stj. enn þá minni og hæstv. forsrh. þó minnsts, þá tekur hann aftur við völdum, en lýsir yfir um leið, að hann sé ábyrgðarlaus, — einstæð yfirlýsing —, óheimil yfirlýsing eftir okkar stjórnskipunarlögum og ósamboðin manni, sem hefur að baki sér svo langan stjórnarferil sem þessi maður hefur. Hann segist samt ætla að framfylgja því að verðlag standi í stað þangað til á vetrarþinginu, en beitir sér svo næsta dag fyrir því, að verð á nokkrum hluta landbúnaðarafurða hækki, ef til vill með réttu, en hann gerði það með þeim hætti og því offorsi, að það hlaut að mæta andúð og óþarfa ágreiningi, því að formaður mjólkurverðlagsnefndar var látinn ganga svo langt í ofstopa sínum, að nm. í mjólkurverðlagsnefnd er neitað um einnar klukkustundar frest til að lesa þau gögn, sem lágu frammi um málið.

Þá er eitt atriði, sem gaman væri að fá vitueskju um. Hann er í nál. sínu með aðdróttanir um, að skattal. séu nú ekki heiðarlega framkvæmd. Það er ómögulegt að skilja orð hans öðruvísi en sem beinar aðdróttanir til þeirra embættismanna, sem hér eiga hlut að máli, um að nú eigi sér stað óheiðarleg framkvæmd skattamálanna. Maður mundi ekki láta sér bregða við, þó að slíkt kæmi í Tímanum eða öðru pólitísku blaði, en maður, sem í sjö ár hefur gegnt dómsmálaráðherraembætti, er ekki þekktur fyrir að láta sér slík orð um munn fara, nema hann láti koma fram, hvað það er, sem hann á við og gefur honum tilefni til að segja, að skattal. séu óheiðarlegar framkvæmd en þegar hann var við völd, og liggur þá næst að spyrja, en honum næst að svara, þar sem vitað er, að allur þorri, ef ekki hver einasti embættismaður, sem framkvæmir nú skattal., er skipaður af honum sjálfum eða þeirri stj., sem hann veitti forstöðu, eða a. m. k. menn, sem hafa haft með þessi mál að gera í þessi sjö ár, sem hann hefur verið við völd, hvort þar séu einhverjir, sem hann hefur reynt að óheiðarleik í framkvæmd, eða þessu er kastað fram til að vekja tortryggni og úlfúð. Ég tel alveg ósæmilegt að segja svona lagað, ef engar staðreyndir eru á bak við, en þingið og þjóðin öll heimtar að fá að vita það.

Að lokum vil ég segja, að það er vissulega erfitt að ráða fram úr þessari dýrtíð í verðlags- og kaupgjaldsmálum, og hefur fleirum en okkur Íslendingum orðið hált á því, og hafa þó þar verið allt aðrar og betri ástæður en við höfum nú við að etja, þar sem nú er hér í landi fjölmennt setulið frá miklu ríkari og mannfleiri löndum, sem velta hér inn, miðað við okkar mælikvarða, óstöðvandi gullstraumi, auk þess sem afurðir landsmanna seljast háu verði. Það er von, að taki nokkurn tíma að átta sig á þeim viðfangsefnum og brautin verði ekki alveg bein, sem farin er til þess að ráða fram úr vandræðunum. Það er rétt, að við sjáum, að svona er það og svona hlýtur það að vera. En reynslan er nægilega búin að kenna okkur, að fram úr þessu verður ekki ráðið nema með góðri samvinnu þeirra, sem við þessi l. eiga að búa, bæði atvinnurekenda og verkalýðs, og einnig ekki vanþörf á, að stjórnmálaflokkarnir gætu sameinazt um það betur og meir en verið hefur fram til þessa. Ég vil mega gera það að ósk minni, og í þeirri ósk er þá ekki hvað sízt fólgið, að þvílíkur málflutningur og frásögn af því, sem gerzt hefur, sem hv. þm. Str. hefur látið sér úr penna detta, að slíkt hætti, hverfi úr sögunni, svo að ekki sé verið að magna fjandskap í erfiðleikunum, svo að hann verði meiri en þarf að vera, eins og þessi hv. þm. og flokksmenn hans óneitanlega virðast nú gera sér leik að.