04.09.1942
Sameinað þing: 14. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 127 í D-deild Alþingistíðinda. (1140)

33. mál, drykkjumannahæli

Frsm. minni hl. (Finnur Jónsson) :

Meiri hl. fjvn. afgreiddi mál þetta þannig, að hann ritaði ríkisstj. og óskaði eftir því, að sett yrði löggjöf um drykkjumannahæli. En yfirleitt mun n. hafa verið á því, að nauðsyn bæri til þess, að slíkt yrði framkvæmt sem allra fyrst. En minni hl. n. hefur lagt fram nál. á þskj: 165 og óskað eftir því, að þetta mál verði afgr. á þessu þingi. Og síðan það nál. var gefið út, hef ég átt tal við landlækni, og telur hann óþarft að setja löggjöf um þetta efni, m. a. af því, að ýmsar stofnanir, eins og t. d. landsspítalinn, eru reknar án sérstakrar löggjafar. Landlæknir tjáði sig fúsan til þess að leggja till. um drykkjumannahæli fyrir ríkisstj. nú þegar. Og þær till. mundu vera þannig, að ekki þyrfti að ráðast í neinar nýbyggingar, en hús mundu vera til til þess að láta hælið byrja að starfa nú þegar. Hann taldi hælisins mikla þörf og lét þau orð falla, að fyrir löngu hefði átt að vera búið að setja slíka stofnun á fót. Ég vil geta þess, að landlæknir hefur staðfest þessi ummæli í bréfi til hv. 1. landsk. þm. Og þar sem svo brýna nauðsyn ber til að stofna þetta hæli sem raun ber vitni og gera má ráð fyrir því, að þingvilji sé fyrir því, að það verði sett á stofn, og ekki er eftir ummælum landlæknis þörf á að leggja í nýbyggingar að svo stöddu, til þess að hælið geti tekið til starfa, þá vænti ég þess, að hv. alþm. greiði atkv. með þáltill. með þeirri breyt., sem ég ásamt hv. 2. landsk. þm. hef lagt fram á þskj. 165, og að þáltill. verði vísað til 2. umr.