04.09.1942
Sameinað þing: 14. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 132 í D-deild Alþingistíðinda. (1143)

33. mál, drykkjumannahæli

Jónas Jónsson:

Það er alveg rétt,. sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að mál þetta hefur oft verið til umr. hér í þinginu, og raunverulega á það fylgi, eins og rétt er samkv. eðli þess. En þegar það kom til fjvn., kom það í ljós, að meðal áhugamanna í n., og þeir eru margir, voru mismunandi skoðanir á málinu, þannig að það kom fram, að þrátt fyrir þennan langa tíma er það algerlega óundirbúið. Það er svo óundirbúið, að áhugamenn kalla þetta drykkjumannahæli. Þetta nafn er ákaflega vanhugsað. Setjum okkur í spor þeirra manna, sem væru sendir á hæli með þessu nafni. Segjum, að það fréttist, að Eiríkur Einarsson og Jónas Jónsson hefðu verið sendir á drykkjumannahælið í Sólheimum. Það sýnir bara það undirbúningsleysi, sem er í meðferð þessa máls, að geta hugsað sér heitið drykkjumannahæli í opinberum skjölum. Þetta sýnir, hve skammt málið er komið.

Það er rétt, að það á að líta á þetta eins og sjúkrahús, og það má ekki heldur vera eitt sér, heldur deild af öðru stærra sjúkrahúsi, einmitt til þess, að það skoðist sem sjúkrahús. Ég ætla ekki að tala meira um þetta núna. Ég tel, að það eigi að fá betri undirbúning, enda er ekki langur tími til næsta þings.

Ég álít, að það eigi að afgreiða málið með meiri velvild en kemur fram í dagskrá hv. 1. þm. N.-M., og vil bera fram þá munnlegu ósk, að málinu sé vísað til stjórnarinnar, svo að hún geti áttað sig á því og lagt það fram með þeim upplýsingum, sem fást.