19.08.1942
Efri deild: 10. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í B-deild Alþingistíðinda. (117)

7. mál, dómnefnd í verðlagsmálum

Atvmrh. (Magnús Jónsson) :

Herra forseti! Ég skal fúslega verða við tilmælum hæstv. forseta. Ég vil byrja með að þakka hv. meiri hl. allshn. fyrir skjóta og góða afgreiðslu þessa máls og vona, að það fái sem fljótasta afgreiðslu hér í hv. d.

Ég hef nú raunar litlu við ræðu hv. frsm. meiri hl. að bæta. Ég vil þó aðeins svara því í ræðu hv. frsm. minni hl., að í samningum þeim, er stj. gerði við setuliðið, hafi verið ákvarðaðar takmarkanir á framkvæmdum í landinu. Ég svara því, að ég veit ekki til, að í þessum efnum hafi orðið hin minnsta breyt. Þeim hefur verið haldið í sama horfinu og fráfarandi stj. skildi við þau í. Annars vil ég ekki vera að rekja hér neinar óviðkunnanlegar sögur úr stj. (HermJ: Það er enginn söguburður, það eru staðreyndir.) Svo mikið er víst, að fráfarandi stj. bar mest skylda til að halda þessa samninga. Hv. frsm. minni hl. var þá stj. form., og hann verður að standa við það vald, sem hann hafði í þeirri stj. Hann gat beygt vilja hinna ráðh. Og hafi samningarnir við setuliðið verið jafn þverbrotnir og hann lætur í veðri vaka, þá bar honum skylda til að standa gegn því. En sannleikurinn var sá, að ákvæði um þetta efni munu hafa verið óákveðin. En er hv. þm. er að sakast um, að samningarnir hafi ekki verið haldnir, þá er hann með því að bera mestar sakir á sjálfan sig. (HermJ: Þetta er 100% jesúítamórall.) Það get ég sagt þessum hv. fyrrv. ráðh., að engin breyt. hefur hér orðið á, síðan hans styrka hönd var með í leiknum. Annars vil ég segja, að það sé næsta broslegt að bera fram, að mestu erfiðleikarnir stafi af því, að ekki var fækkað í setuliðsvinnunni. Það er alkunnugt, að síðasta vor var starfrækt ráðningaskrifstofa landbúnaðarins, sem réð menn í sveit fyrir svo hátt kaup, að fæstir þeirra voru ráðnir l. samkvæmt, ef miðað er við gerðardómsl. Þó fékkst fólkið ekki til að fara í sveit. Það sanna er, að alls staðar var nóg vinna, þótt fækkað hefði verið í setuliðsvinnunni, en menn hefðu ekki að heldur farið í sveit. Ekkert gat stöðvað strauminn nema einna helzt atvinnuleysi. En það er kynlegt að sjá í nál. minni hl. minnzt á atvinnuleysi. Vinnuskylda eða hörgull á vinnu var það, sem gat breytt þessu.

Ég verð að segja, að mér þykir einkennilegt, að ekkert skuli hafa komið fram um skyldusparnaðinn. Við Eysteinn Jónsson ræddum mest um það mál, en enginn vissi í rauninni, hvernig ætti að framkvæma það. Ég get nú sagt, að það er til athugunar, hvort ekki er hægt að binda þetta fjármagn með frjálsri leið, svo að það spenni ekki upp allt verðlag og rýri gildi peninganna. Ég vil annars ekki fara hér út í neinar deilur um þetta mál. Mér þykir aðeins kynlegt að heyra hv. fyrrv. forsrh. segja, að hann hafi ekki viljað fara hina frjálsu leið. Hann myndaði beinlínis stj. upp á hina frjálsu leið og náttúrlega upp á að framkvæma stefnu meiri hl. Alþ.

Já, það er dauðasiglingin, sem hann minntist á, og hin dauða hönd, sem hann talaði nm. Ekki held ég þó, að menn hafi trú á hans hönd í þessum málum. Sannast að segja held ég, að flokkur hans hafi firrt sig öllu áliti og trausti, næstum bæði til ills og góðs.

Framsfl. er oft að henda gys að hinum litlu flokksskrípum. En nú er hann sjálfur svo rúinn fylgi í höfuðstaðnum, að við síðustu bæjarstjórnarkosningar komst hann ekki einu sinni upp í að vera svo lítið flokksskrípi, að fá einn fulltrúa af 15, kjörnum hlutfallskosningu. Nei, menn muna vel, að hv. fyrrv. forsrh., er nú talar um dauðasiglingu, hafði forustu sjálfur í dauðasiglingu 1937–39, og hafa menn fyrir satt, að mjög lítið lið hafi verið í honum.

Ég nenni nú varla að tala um sigur þann, er hann telur, að Framsfl. hafi unnið í síðustu kosningum. Það má segja þar um, að litlu verður Vöggur feginn. Ég var nú á tveimur þingmálafundum með hv. þm. fyrir kosningarnar og las þá flokksblað hans, sem ég geri ekki nema um kosningar og þá með gasgrímu. Og það, sem þeir kepptust eftir og þóttust eiga víst að fá, var stöðvunarvald í kjördæmamálinu, og töldu það jafn örlagaríkt og þegar Ólafi helga var synjað um Grímsey forðum. Hvar er svo þetta stöðvunarvald og sigurinn? Nei, sannleikurinn er sá, að Framsfl. beið ósigur, mikinn ósigur. Hitt er annað mál, að hann fékk nokkrum atkvæðum fleira en við næstu kosningar á undan. Einu kjördæmi töpuðu þeir alveg, og kemur það svo illa við hv. þm. Str., að hann má ekki til þess hugsa. Ég vil leiða athygli hv. þdm. að því, að þeir þurfa ekki annað en hugsa til þess, hvernig hv. þm. Str. hefur ausið sér út yfir hv. þm. Barð., til þess að sjá, hversu mikið honum hefur orðið um tap þessa kjördæmis.

Annars held ég næstum, að ég megi þakka minni hl. n. fyrir hans afgreiðslu á þessu máli, því að ég held, að ég hafi aldrei séð svo lítinn gaur í jafnlítilli grýtu eins og nál. hans er. Þrátt fyrir þetta mikla lesmál er enn leyndarmál, hvort hann ætlar að vera með eða móti afnámi l. Mér sýnist þó skína í gegn, að hv. minni hl. ætli nú að vera með afnáminu.

Ég vil svo að lokum endurtaka, að ég vildi mega óska, að málið fengi sem fljótasta afgreiðslu.