17.08.1942
Sameinað þing: 5. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 144 í D-deild Alþingistíðinda. (1173)

15. mál, vegagerð á Snæfellsnesi

Flm. (Bjarni Bjarnason) :

Herra forseti. Í þessari till. á 15. þskj. er farið fram á nokkra fjárveitingu til tveggja vega á Snæfellsnesi. Þeir eru báðir í vegal. frá 1933, en að því er mér virðist, hefur lítið verið gert að framkvæmdum þarna, einkum að því er snertir það að koma Skógarströndinni í vegarsamband við Stykkishólm. Skógarströndin er mjög blómleg sveit, en hún er útilokuð frá bílvegasambandi við önnur héruð. Væri um tvær leiðir að ræða til að bæta úr því, annaðhvort að koma henni í vegarsamband við Miðdalina eða flýta fyrir vegi þaðan til Stykkishólms fyrir Álftafjörð. Til Stykkishólms er nokkuð löng leið, en þarna er hins vegar gott vegarstæði. Ég get ekki sætt mig við það, að látið sé lengur sitja við þetta framkvæmdaleysi, og fer ég því fram á það við hv. Alþ., að það veiti nokkurt fé til þess, að hægt sé að byrja á þessum vegi, eins og gert er ráð fyrir í vegal., og um það er b-liður till. En a-liðurinn er um veg frá Hellissandi til Bervíkur. Var einnig gert ráð fyrir honum í vegal. frá 1933, en við hann hefur ekki verið unnið síðan nema frá öðrum endanum. Að vísu hefur verið lagður vegarspotti, sem er nokkur hundruð metra að lengd, frá Hellissandi til vesturs, en síðan var hætt við allt saman. Ég fer nú fram á nokkurt fé til þess að halda þessu verki áfram. Ég þykist vita, að margir þm. séu kunnugir því, hvernig aðstaða er þarna, að heilar sveitir eru algerlega útilokaðar frá því að draga að sér björg öðruvísi en á klökkum eða á bátum, þegar bezt lætur. Ég vona því, að hv. þm. muni verða fúsir til að bæta úr þessu.