02.09.1942
Sameinað þing: 12. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 147 í D-deild Alþingistíðinda. (1192)

18. mál, undanþága frá greiðslu á benzínskatti

Sveinbjörn Högnason:

Mér kom það ekki á óvart, þó að einn flm. í viðbót félli frá till. sinni, þegar hann athugaði málið nánar. Það er alveg rétt hjá hv. 5. landsk. þm., að ég flutti einhvern tíma till. um það að undanþiggja vissar vegalengdir, — ekki ákveðnar vegalengdir —, benzínskattinum. Þetta var á þinginu 1932, þegar benzínskatturinn hækkaði úr 4 upp í 8 aura. Þá kom fram hið sama og nú við flutning þessarar þáltill., að það komu fram brtt. frá öllum hinum héruðunum um það, að benzínskattinum yrði einnig létt af þar. Þá varð það að samkomulagi milli mín og þeirra, sem fluttu þær brtt., að fjhn. flytti till. um beinan styrk til flutninga á þessum stöðum. Það voru 20 þús. kr., sem átti að veita í þessu skyni. En stjórnarskipti urðu þá á eftir, og sú stj., sem þá tók við, lét þetta ekki koma til framkvæmda, heldur felldi þetta burt úr fjárl. næsta ár á eftir.

Í byrjun þessa þings talaði hv. 5. landsk. um það við mig, að hann mundi bera fram till. um að fella niður benzínskattinn fyrir þessi héruð. Ég sagði honum, að sú leið mundi ófær, en ég teldi sjálfsagt að flytja till. um að styrkja flutninga á nauðsynjavörum fyrir hafnlausu héruðin. Þetta vissi hann fyrir fram. Þess vegna kom mér dálítið á óvart þessi till á þskj. 18. Í stað þess að leita samkomulags við mig, sem er kosinn fulltrúi fyrir eitt þessara héraða, þá fara þessir hv. þm. af stað, sem eru ekki þm. af Suðurlandi, heldur uppbótarþm. fyrir Sjálfstfl., til þess að fá þingið til að fallast á að veita styrk til þessara héraða. Mér finnst það alveg sjálfsagt að samþykkja till. á þskj. 32, en ekki till. á þskj. 18, vegna þess að sú leið, sem við viljum fara, er mörgum sinnum heppilegri og betri, eins og ég hef þegar sýnt fram á. Okkar till. tryggir öllum þeim, sem við hafnleysi búa, afnám þessa skatts, en í hinni till. er þetta aðeins takmarkað við viss héruð. Ég tel enga ástæðu til að ræða þetta mál frekar, en ég vildi aðeins láta það koma skýrt fram, hvað um hefur verið rætt í þessum efnum.