02.09.1942
Sameinað þing: 12. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 152 í D-deild Alþingistíðinda. (1199)

18. mál, undanþága frá greiðslu á benzínskatti

Bjarni Benediktsson:

Það er aðeins af því að ég er nýr þm., að ég ætla að bera fram fyrirspurn. En það er af því, að tveir hv. þm. hafa hér tekið sér eins konar vald sem siðameistarar í þinginu, annar í hv. Ed., en hinn hér í Sþ., um það, hvernig þingsköpum væri beitt. En þannig vill til, að þeir eru báðir úr sama flokki, þeim flokki, sem mestu hefur ráðið hér á Alþ. um 15 ára skeið. Annar er, eins og geta má nærri, hv. þm. V.-Sk. (SvbH) og hinn hv. 1. þm. Eyf. (BSt). Nú er það þannig, að hv. 1. þm. Eyf. hefur haldið margar ræður um það, bæði í gær og í dag, að þessir uppbótarþm. væru í raun og veru þm. þeirra kjördæma, þar sem þeir hefðu boðið sig fram, þó að þeir að forminu til væru ekki þm. þeirra, heldur landsk. þm. Og hv. þm. bar fram brtt., sem varð þess valdandi, að breyt. var gerð á kosningal. í hv. Ed., sem ekki aðeins allur hans flokkur stóð að, heldur féllst hv. þd. í heild á hana að nokkru leyti, þar sem það sem sagt lá til grundvallar, að þessir þm. væru í raun og veru þm. þeirra kjördæma, þar sem þeir hefðu boðið sig fram, hvað sem forminu liði. Þess vegna hélt ég nú, að þetta væri skoðun þeirrar þingmannasamkundu. En svo, þegar ég kem í sameinað Alþ., hefur annar hv. þm. þessa sama flokks aðra skoðun á þessu en hv. 1. þm. Eyf. hafði í gær og í dag verið að leitast við að sannfæra okkur um, að væri rétt. Vil ég því beina því til þessarar þingmannasamkundu, hvorum aðilanum maður eigi nú að trúa, þeim klerklærða hér í sameinuðu Alþ. eða hv. 1. þm. Eyf., sem er eldri og betur trúandi, að ég hygg, í þessum efnum. Enda hafði hann sér til stuðnings þá hv. fyrrv. forseta Ed. (EÁrna) og hv. þm. S.-Þ. (JJ ), formann Framsfl.