02.09.1942
Sameinað þing: 12. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 158 í D-deild Alþingistíðinda. (1227)

31. mál, flutningastyrkur til hafnleysishéraða

Jónas Jónsson:

Ég vænti, að með leyfi hæstv. forseta megi svara dálítið villandi aths., sem komið hefur hér fram frá manni, sem ekki er kunnugur því, sem gerzt hefur hér á þessu þingi, og líklega ekki kunnugur mörgu, sem þm. eiga að vita, nefnilega hv. þm. Barð. (GJ). Hann fór nokkrum orðum um, að það væri of dýrt að sjá fyrir vegi fyrir alla Sunnlendinga með þeirri byrjun, sem gerð hefur verið á snjólausa veginum. Ég býst við, að hann viti ekki um það, að maður eins og Jón Þorláksson hafði barizt fyrir því að leggja járnbraut frá Rvík til Suðurlandsundirlendisins. Af hverju? Af því að honum þóttu þeir vegir, sem til voru þangað, ekki nógu góðir. Hann taldi, að ekki væri hægt að halda uppi samgöngum milli Rvíkur og Suðurlandsundirlendisins í snjóavetrum eins og þar eru venjulega, eins og þá stóð á, nema með því að hafa þetta dýra tæki. Það voru ekki 400 þús. kr. — það voru 5 millj. kr., sem hann vildi láta leggja í það, sem kallað var öruggt samband á öllum tímum árs milli Ölfusárbrúar og Rvíkur. Það gekk nú einhvern veginn svoleiðis, að hjá þessum merka manni og núverandi vegamálastjóra, sem tók við stjórn vegamálanna af honum, hefur ekkert orðið úr þessu nema áætlanir. Ég held, að í 10 ár hafi svo vegamálastjóri verið að gera grein fyrir, hvernig hægt væri að leysa þetta spursmál.

Og einn af áhrifamönnum þeirrar tíðar, þegar þetta var rætt mest, Björn Kristjánsson, lagði til, að gert væri hús yfir veginn frá Kolviðarhóli austur á Kambabrún. Þetta hús var svo kallað „þjóðgatið“ af einum merkisbónda á Suðurlandi. Svo mikil þótti þessum fyrrv. hv. þm., Birni Kristjánssyni, — sem var merkari en þessi lítt þroskaði maður, hv. þm. Barð., sem komst inn á þing fyrir slysni, — nauðsynin á öruggum samgöngum milli Rvíkur og Suðurlandsundirlendisins, að hann vildi hafa steinsteypta veggi báðum megin við veginn og þak yfir, til þess að vegurinn yrði öruggur á þessari leið. Ég veit, að það er afsökun fyrir hv. þm. Barð., að hann er þessu ókunnugur. En eitt ætti þessi maður að temja sér, að tala ekki um það, sem hann veit ekkert um. Því að í hvert einasta skipti, sem þessi hv. þm. talar hér, þá fer eins fyrir honum og í þetta skipti. Hann veit ekki, að einmitt þeir menn, sem vilja gera honum þann vafasama heiður að telja sig í sama flokki og hann, eru einmitt mennirnir, sem börðust fyrir þessum dýru samgöngubótum á þessum leiðum til þess að ná öruggu samgöngukerfi milli Rvíkur og Suðurlandsundirlendisins. Björn Kristjánsson vildi láta byggja hús yfir veginn á þessari leið um 20 km langan veg. Svo kemur þessi maður og vill leyfa sér að „krítisera“ þá lausn, sem gerð hefur verið í þessu vegamáli.

Hvers vegna hefur verið gerður akvegur, en ekki járnbraut milli þessara staða? Vegna þess að þekkingin var hjá þeim, sem vildu leggja akveginn, en ekki hjá þeim, sem vildu leggja járnbrautina og þjóðgatið. Og ef ofurlítið meiri þekking væri hjá þessum manni, þá ætti hann að vita, að vegur liggur nú suður Reykjanes. Það er hægt að leggja veg til Grindavíkur. Ég held, að þessi maður, fyrst hann er hættur að vera vélstjóri á Esju, ætti að fara um landið og vita, hvar vegarspottarnir eru. Það er búið að leggja veg austur. En hann getur verið undir þriggja álna þykkum snjó að vetrinum. Maður, sem var betur gefinn og miklu menntaðri heldur en þessi maður, Jón Auðunn Jónsson, va1 einn að stuðningsmönnum þessa máls. Þessi hv. þm. (GJ) á eftir að þekkja forsögu þessa máls, hinar strönduðu áætlanir um þjóðgatið og járnbrautina. Og vegur, sem væri örugg leið milli Rvíkur og Suðurlandsundirlendisins, hefði líklega verið kominn nú, ef málið hefði verið látið ganga sína réttu leið.

En ég get ekki ráðlagt þessum hv. þm. annað betra en það að lesa fyrst og fremst, hvað Jón Þorláksson vildi láta leggja í það mál að gera á þessari leið vegabætur, sem gerðu samgöngurnar þar öruggar, og Björn Kristjánsson, og síðast það, sem Jón A. Jónsson sagði, þegar vegurinn var ákveðinn austur, — ef hann hugsar sér að vera öðruvísi en til minnkunar hér á þinginu.