02.09.1942
Sameinað þing: 12. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í D-deild Alþingistíðinda. (1230)

31. mál, flutningastyrkur til hafnleysishéraða

Eiríkur Einarsson:

Ég get að mörgu leyti tekið undir það, sem sanngjarnlega var mælt í síðustu ræðu hv. þm. V.-Sk. Hann sýndi réttilega fram á, hversu mikið erfiði og kostnað þeir hafa við að búa, sem verða að nota þá erfiðu bílflutninga, og sýnir þetta, að hann skilur málið rétt. Hann nefndi það að níðast á þessum mönnum að skattleggja þá svo mjög með benzínskatti, sem þeir verða að greiða, og þeim mun meiri sem þeir hafa verri og erfiðari samgöngur. Um þetta er ég honum sammála, og þess vegna á að taka málið fyrir í samræmi við það og afnema þessa óréttlátu skattlagningu. Er þetta stuðningsatriði við till. mína, en ekki til að fella hana. Hann talaði um, að ég vildi grípa í eitthvert hálmstrá, þegar ég mótmælti till. hans, en ég vil benda honum á, þegar hann telur eðlilegast, að kaupmenn og kaupfélög semji reglugerð um þetta, og segir, að ráðuneytið eigi að samþykkja reglugerðina, þá veit ég ekki betur en tilætlunin sé, að ráðuneytið samþykki hana eins og hún kemur frá þessum aðilum. Mér finnst, að sýslunefnd væri miklu eðlilegri aðili í þessu efni en kaupmenn og kaupfélög, og það er miklu venjulegra að nota hana til slíkra hluta. En bezta ráðið hlýtur að vera að létta benzínskattinum af. Hann „kontrollerar“ þetta sjálfur. Hann er nú þyngstur á þeim, sem erfiðast eiga, en með afnámi hans yrði mestu af þeim létt.

Ég vil leyfa mér að óska nánari skýringar á því, hverjir eigi að verða aðnjótandi þessa 200 þús. kr. flutningastyrks samkv. till. á þskj. 32. Mér skildist á hv. flm., að styrkurinn ætti að vera bundinn við Vestur-Skaftafellssýslu og Rangárvallasýslu. Mér finnst næsta ósanngjarnt að einskorða flutningastyrkinn við íbúa þeirra sýslna, því að fleiri eiga við flutningaörðugleika að etja. Ég vil nefna stórframleiðendur, eins og mjólkurbú Flóamanna, og aðra framleiðendur, sem daglega þurfa að koma frá sér afurðum sínum til Rvíkur. Allir vita, við hvílíka erfiðleika þeir eiga að stríða, einkum að vetri til, þegar snjóþyngsli hamla samgöngum. Þó að fyrir komi einn og einn vetur, að lítið kveði að slíkum samgönguteppum, má alltaf við þeim búast, og enginn veit, hvort næsti vetur verður snjóléttur eða erfiður. Til þess bæði að létta undir með framleiðendum um vörukaup þeirra með því að gera flutningskostnaðinn minni, eiga þeir þá ekki að geta orðið aðnjótandi þessara 200 þúsunda? Það eru rúmir 60 km frá mjólkurbúi Flóamanna til Rvíkur. Ég álít óskaplega óréttlátt og óeðlilegt, að flutningar þá leið verði ekki þessa styrks aðnjótandi. Eftir orðanna hljóðan í till. sýnist þetta ekki. En ég fullyrði ekki, hvað flm. meina, og þess vegna vil ég gjarnan fá skýringu.

Það hefur verið blandað ýmsu inn í þetta, sem kemur málinu tæplega við, þar á meðal skætingi, sem ég vil algerlega leiða hjá mér. En ekki get ég á mér setið að minnast á það sérstaka málefni, sem lýtur að rækt eða vanrækt á samgöngubótum á Suðurlandssvæðinu, sem hér hefur verið talað töluvert um. Leiddir hafa verið inn í umr. látnir ágætismenn, sem létu sig þetta mál miklu skipta og gerðu á sínum tíma aðsópsmiklar till., sem alþjóð hlustaði á. Ég á bæði við Jón Þorláksson og Björn Kristjánsson. Þeir voru ekki sammála, en báðir vildu vel. Það var Jón Þorláksson, sem vildi járnbraut og gerði hana að áhugamáli sínu, skrifaði m. a. bækling þar um. En Björn Kristjánsson vildi vegagerð, sem sumir hæddust þá að og töluðu um „þjóðgatið“, af því að hann vildi hafa veginn yfirbyggðan á kafla, ef nauðsynlegt væri vegna snjóþyngsla. En nú, þegar báðir eru látnir og ekki lengur fyrir neinum í veröldinni, hafa báðir fengið sína viðurkenningu fyrir áhuga sinn á þessu stóra hugsjóna- og framfaramáli.

En viðvíkjandi niðurstöðunni, sem hv. þm. Barð. deildi sérstaklega á, nefnilega Krýsuvíkurleiðinni, vil ég segja: Hvernig stendur á því, að ekkert hefur verið gert í samræmi við samþykkt á till., sem ég bar hér fram fyrir 2–3 árum um rannsókn á því, hvar fyndist öruggust leið milli Rvíkur og Suðurlands á öllum árstíðum? (Rödd: Er það ekki vegamálaráðherrans?) Það er nú á seinni árum svo oft farið að skipta um stj., og þá ýmsir, — ef leyfilegt er að segja, — sökudólgar. Ég skal ekki fullyrða, hver var ráðh., þegar till. var samþ., en svo mikið er víst, að þetta mál var þagað í hel, þó að Alþ. samþykkti það. Og ekkert blað með öllum þeirra áhugamálum, hefur sinnt þessu máli. Bæði Morgunblaðið og Tíminn hafa haft ágæt samtök í þessu. (JJ: Þm. ætti að „kvikka“ Moggann upp!) — Hv. þm. S.-Þ. hefur haft enn betri blaðaaðstöðu til að „kvikka“ málið upp, enda er hann svo mikill „skribent“, en ekki ég. En ég vildi nota tækifærið til að minna á, að ég hef oft reynt að koma af stað rannsókn á því, hvort ekki skyldi önnur úrlausn reynd heldur en sú, sem nú er talin liggja beinast við. Ég var á þingmálafundi fyrir síðustu kosningar beittur þeirri sök, að ég hefði spillt þýðingarmesta málefni Sunnlendinga, þ. e. a. s. samgöngumálunum, af því að ég hef verið á móti Krýsuvíkurleiðinni. Það er rétt, að ég tel engu fullnægt með þeirri leið, en hún getur verið rétt sem sportleið í viðlögum. Það eru fleiri en ég á þessari skoðun. Vegamálastjóri landsins hefur aldrei verið með þessu. Ég hef oft haldið því fram áður, að úr því að lagt er út í svona dýra vegagerð, sem átti að vera til framtíðargagns fyrir Sunnlendingafjórðung og höfuðstaðinn, þá átti annaðhvort tillaga vegamálastjóra landsins, sem er trúnaðarmaður í þessu málefni, að vera gildandi, eða vegamálastjóri, sem setti sig á móti þessu, átti að víkja. Til þess eru trúnaðarmenn, að þeir séu teknir alvarlega. Ég skal ekki fara lengra út í þetta, og bið að því leyti afsökunar, að þetta kemur ekki við till. á dagskrá, en aðrir leiddu asnann inn í herbúðirnar.

(JJ: Asninn hefur nú nóg með sig!) En það er þessi asni, sem mest hefur talað um þjóðgatið. (Forseti: Ekki samtal.) Ég held það þýði ekki að tala vísindalega um þetta þjóðgat og hverf algerlega frá því. (JJ: Bara inn í það!) Ég vildi það væri komið að vetrarlagi í miklum fannalögum, og mundi þá hv. þm. S.-Þ. feginn að skríða inn í það. Hann er svo kunnugur samgöngum annarra landa, að hann á að viðurkenna möguleikann á slíku mannvirki sem samgöngubót. Hann hefur kannske farið erlendis um slík „þjóðgöt“, sem hann fordæmir svo hér.

Ég skal svo láta þessu máli lokið með þeim tilmælum, að þessu máli verði vísað til fjvn.