02.09.1942
Sameinað þing: 12. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 167 í D-deild Alþingistíðinda. (1233)

31. mál, flutningastyrkur til hafnleysishéraða

Eiríkur Einarsson:

Ég tók eftir því, að þegar leið á ræðuna hjá hv. þm. S.-Þ., var eins og vegurinn væri þegar fullgerður og allt fullkomnað. Hann sagði : Það þarf ekki annað en að ég komi til skjalanna. Ég hef útskrifað mann til vegagerða, og allt er í tagi. — En það þarf meira en orðfimi til að byggja upp vegakerfi. Þegar hann gat um Jón Þorláksson og Björn Kristjánsson vegna áhuga þeirra, sagði ég bara, að þeir hefðu verið stórhuga og ætlað þessu máli meiri framgang en orðið gat. Ég verð þess oft var, að hv. þm. kann að meta slíkan áhuga, og er það vel farið.

Hv. þm. lýtti það mjög, hvað ég, með því að vera á móti Krýsuvíkurveginum, hefði gerzt brotlegur við rétt sjónarmið. Ég get ekki fundið það. Þeir, sem ekki etja ofurkappi, viðurkenna, að það er vafamál mikið, hvað réttast er. Það er vitað, að Krýsuvíkurvegurinn liggur í bugðum suðureftir, svo að skiptir tugum km. Og úr því að vegamálastjóri með fræðimönnum sínum komst að annarri niðurstöðu en hv. þm., þarf ekki að taka munninn svo fullan um, hvílík heimska og synd og ógæfa það sé að hallast á sveif með þeim. Það er meira að segja svo um málgagn hv. þm., Tímann, að síðan þessi mál komust á prjónana, hefur þar verið talað jöfnum höndum um úrræði annarrar hliðarbrautar, sem sé Þingvallaleiðina. Þetta sýnir, að málið er ekki komið í þær skorður, að menn séu á eitt sáttir, og ég er sannfærður um, að framtíðarlausnin verður eitthvað á þá leið, sem felst í till. minni.

Um ódugnað manna ætla ég sem minnst að tala. Ég er ekki að hrósa mér af dugnaði. Ég hef í till. mínum farið eftir beztu vitund, og það hefur hv. þm. S.-Þ. eflaust gert líka. Við þurfum ekki að brigzla hvor öðrum. Hans hugsjónaeðli bendir honum á hátind Hengilsins. En ég hygg, að spámennirnir þeysi ekki yfir Hengil með geislabaug um andlitið á ungum ösnufola.

Það hefur verið minna gert til framdráttar þessu máli en æskilegt hefði verið, og ætti ekki að hafa sérstaka menn þar fyrir sök. Ýmsir koma þar við sögu. Ef þeir reikningar yrðu gerðir upp, er ekki gott að segja, hvers syndir yrðu mestar. Hans eiginn flokkur hefur í mörg herrans ár haft mikla íhlutun um gang þjóðmálanna og hefur haft góða aðstöðu, einnig á meðan ekkert var gert.