19.08.1942
Efri deild: 10. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í B-deild Alþingistíðinda. (128)

7. mál, dómnefnd í verðlagsmálum

Hermann Jónasson:

Ég vil aðeins standa upp til þess að benda hæstv. forseta á það, að þegar hv. 5. þm. Reykv. (BBen) stendur upp til þess að tala um þingsköp, bólgnar hann út af ofsa og sleppir sér og fer að tala um stjórnarfar undanfarinna ára. Er þetta að tala um þingsköp? Og mega aðrir, sem sæti eiga í þessari hv. d., svara því? Á hann að hafa einkarétt til þess að tala um stjórnarfar undanfarinna ára, þegar á að ræða um þingsköp? Sá hluti þingsins, sem hefur 3/5 hluta af tölu þm., ásakar minni hl., sem engu getur ráðið hér á Alþ., um það, að andstaða þessa minni hl. gegn málum standi í vegi fyrir því, að stjórnarfarið geti verið eins og það á að vera. Geta þessir 29 þm. yfirleitt ekki ráðið málunum til lykta hér á hæstv. Alþ. eins og þeim þóknast, þar sem stjórnarandstaðan er þannig, að hún er búin að bjóða það fram, að greiða svo fyrir afgreiðslu mála, að þetta mál geti orðið afgreitt frá þinginu í dag og stjórnarskrárbreyt. líka? Höfum við framsóknarmenn stofnað til verkfalla? Hvar eru þau verk, sem við framsóknarmenn, sem erum í minni hl., höfum unnið, sem gera stjórnarflokkunum erfitt fyrir. (Atvmrh.: Er þetta um þingsköp?) Þetta eru svör við því, sem einn hv. þm. sagði, þegar hann þóttist vera að tala um þingsköp. Við hljótum að hafa gaman af því sem stjórnarandstæðingar að sjá þessa 29 þm. eða hluta af þeim eyða tíma þingsins til þess að tala um gerðardóminn, þó að við framsóknarmenn höfum þó nokkuð stytt þann tíma hjá þeim með því að skrifa upp ræðutíma þann, sem þeir taka til þess, og við höfum skrifað hann, til þess að vitað sé, hverjir verða sér til skammar fyrir vaðalinn.