19.08.1942
Efri deild: 10. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í B-deild Alþingistíðinda. (131)

7. mál, dómnefnd í verðlagsmálum

Frsm. meiri hl. (Bjarni Benediktsson) :

Það eru aðeins fá orð, sem ég þarf að svara.

Hv. þm. Str. (HermJ) var að leitast við að hrekja rök mín í þessu máli. Hans ræða snerist algerlega upp í vörn fyrir hann og hans flokk, eins og von var, og hann hvarf frá þeirri sókn, sem hann hafði stofnað til með nál. sínu. Það eru því aðeins fá atriði, sem ég vildi benda á. Hv. þm. Str. var fyrst að tala um óheiðarlega framkvæmd skattal. Nú talar hann um ósæmilega framkvæmd þeirra. Hann hefur þar með komið með orðalag, sem dregur úr óhróðursorðum í garð eftirmanns hans, sem engan stað eiga sér.

Þessi hv. þm. hvarf einnig frá frá því að ræða það, sem er kjarni þessa máls, hvenær gerðardómsl. biluðu, hvort þau voru óframkvæmanleg strax, þegar þau voru sett, eða hvort sú löggjöf hefur orðið það, eftir að núverandi stjórn tók við völdum, Þetta hefur mikla þýðingu, eins og málið hefur verið upp tekið af Framsfl. en um það verður ekki deilt, að á meðan hv. þm. Str. var forsrh., þá var svo sáð sem nú verður að upp skera af. Málið var strax svo meðhöndlað af ríkisstjórninni, að l. urðu ekki framkvæmd nema að nokkru leyti. Og það var ekkert fengizt um það, þó að l. væru brotin. T. d. var vitað, að kaupavinnukaup — og um það var rætt í hans stjórnartíð — mundi stórhækka. Hann varð þá að játa, að þetta væri óumflýjanlegt. Þá var auðséð, að af þessu hlaut að leiða aukinn tilkostnað bænda og þar með hækkað verð á landbúnaðarafurðum og þar með aftur hækkaða vísitölu og svo þar með þetta kapphlaup, sem hv. þm. Str. hefur verið að leggja áherzlu á, að þyrfti að koma í veg fyrir. Þetta óumflýjanlega kapphlaup var orðið ljóst, áður en hann lét af völdum, og með þessu var einum meginþætti þessarar löggjafar og framkvæmdar hennar kippt í burt.

Hv. þm. Str. gat ekki heldur annað en viðurkennt um þær ráðstafanir, sem hann sagði, að óhjákvæmileg nauðsyn væri að gera, til þess að l. gætu haft þýðingu, að hann lét undan fallast að gera þær ráðstafanir, meðan hann var við völd. Ef þær voru nauðsynlegar, átti hann að gera þær ráðstafanir að skilyrði, þegar l. voru sett. En hann hafði það á allt annan hátt. Hann segir nú, að þessi samningur við setuliðið um vinnuaflið hafi verið um það að draga úr opinberum framkvæmdum. Ég hygg, að hv. þm. Str. hafi mjög rangt og villandi skýrt frá þessu hér, og ég álít mjög óviðeigandi að vitna þannig í leynd skjöl. En hvað, sem um það er, þá er ljóst, að þessi samningur var ekki gerður og kom ekki til tals fyrr en rétt um það leyti, ef ekki eftir, að hv. þm. Str. var að hverfa frá völdum. Og þannig staðfesti hann einmitt það, sem ég hélt fram, að þær þvingunarráðstafanir, sem hann telur, að hafi verð nauðsynlegar, þær þorði hann ekki að leggja út í, meðan hann var forsrh. En úr því að þannig er, er það óviðeigandi af honum sem fyrrv. forsrh. og ekki samboðið að vera að víta samstarfsmenn sína fyrir að gera ekki það, sem hann lét sjálfur undan fallast, meðan hann hafði völdin og möguleikana til þess.

Það var ýmislegt fleira í ræðu hv. þm. Str., sem gaf tilefni til andsvara. Hann var að tala um, eins og það væri eitthvað sérstakt hjá mér og furðulegt, að ég héldi fram, að l. kæmu ekki að gagni, ef þau væru brotin. Ég hef haldið því fram, að l. þessi mundu því aðeins koma að gagni, að þeir, sem við þau eiga að búa, vildu halda þeim við og halda þau. Þetta er ekki sérstakt hjá mér. Þetta er frumatriði löggjafar. Svona hlýtur það að vera, jafnvel hjá einræðisþjóðum, hvað þá hjá lýðræðisþjóðum. Ég álít, að það hafi verið rétt og nauðsynlegt að gera þá tilraun, sem gerð var með gerðardómsl. En það mistókst að skapa þá samvinnu, sem nauðsynleg var til þess, að þau gætu gert nokkurt gagn. Það má deila um það, hverjum það er að kenna, að það mistókst. Ég hygg, að sökin á því liggi ekki sízt hjá fyrrv. forsrh., hv. þm. Str. En úr því að það mistókst, ber að leita að ástæðunum og lausn á því vandamáli, sem þarf að ráða bót á.