19.08.1942
Efri deild: 10. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í B-deild Alþingistíðinda. (133)

7. mál, dómnefnd í verðlagsmálum

Atvmrh. (Magnús Jónsson) :

Hv. þm. Str. sagði, að í grg. frv. stæði, að gerðardómsl. mundu ekki vera einhlít í því að koma í veg fyrir vöxt dýrtíðar í landinu, og hann telur, að í þessu liggi einhver játning í þá átt, að þurft hefði að gera eitthvað af því, sem þessi hv. þm. er alltaf að tala um. Það er alls ekki við það átt með því, þó að sagt sé, að l. mundu ekki vera einhlít, heldur hitt, að lagabókstafurinn væri ekki nægilegur. Það er augljóst mál, að til þess að l. gætu náð tilgangi sínum, þá þurftu þau að vera viðurkennd af þjóðinni.

Þó að það hefði spurzt, að einhver einn maður hefði ráðið til sín vinnufólk fyrir hærra kaup en leyfilegt var, þá hefði verið hægt að halda l. uppi fyrir það. En þegar l. voru algerlega holgrafin, þá var ómögulegt að loka augunum fyrir þeirri staðreynd, að l. væru fallin. Ég veit bezt um það, þar sem ég er nýr í ríkisstj., að l. voru úr sögunni þegar í tíð hv. þm. Str.

Hv. þm. Str. telur öllu stefnt í öngþveiti með þessu frv. Ég hygg, að enginn viti, hvert stefnir nú, því að þetta er fjármálaástand, sem hefur skapazt smátt og smátt og allt er á huldu með. Ég sé ekki aðra leið en þessa til þess að stöðva það hrun, sem hefur haldið áfram nú undanfarið, jafnt í tíð fyrrverandi ríkisstj. og núv. Bezta leiðin er, að samningar geti tekizt milli deiluaðilanna, og ég treysti því, að þeir, sem voru móti gerðadómsl. og töldu þau rót alls meinsins, geri allt sitt til, að samningar takist nú á næstu dögum.

Það hlakkaði í hv. þm. Str., þegar hann var að tala um fjármálahrunið, sem væri framundan. Ef til vill vonar hann, að það verði komið fyrir kosningarnar í haust. Ég vona, að allir flokkar taki höndum saman um, að samningar takist sem fyrst.