04.08.1942
Sameinað þing: 1. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 9 í B-deild Alþingistíðinda. (14)

Kosning til efri deildar

Forseti (GSv) :

Hv. 1. þm. Árn. vitnar til 6. gr. þingskapa, en þar segir um það, hversu tilnefna skuli menn til Ed.: „Skal velja til efri deildar þá tölu þingmanna, er þar skulu eiga sæti. Skal hverjum þingflokki skylt að tilnefna á lista þá tölu þingmanna sinna, er honum ber í hlutfalli við atkvæðamagn hans í sameinuðu þingi.“

Fram komið atkvæðamagn í Sþ. ber það með sér eftir útreikningi, sem hér hefur verið gerður, að 6. maður á C-lista er hærri en 7. maður á A-lista, og samkvæmt 48. gr. ber að raða niður eftir fram komnu atkvæðamagni. Þessu verður hér að hlíta sem við aðrar kosningar. Ég sé því ekki ástæðu til að breyta um skoðun á þessu af þeim rökum, sem hv. þm. hefur borið fram, og það er ekki heldur á mínu valdi að breyta um lista þá, er flokkarnir hafa lagt fram. Hitt er annað mál, hvort samkomulag muni geta orðið um val þm. til Ed.