20.08.1942
Efri deild: 11. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 89 í B-deild Alþingistíðinda. (148)

7. mál, dómnefnd í verðlagsmálum

Brynjólfur Bjarnason:

Ég vil eindregið mæla með því, að þessi till. hv. þm. Seyðf. og hv. 9, landsk. verði samþ., og get ekki skilið, hvað er í veginum fyrir því að samþ. hana nú strax. Ég hef litið svo á, að það væri raunverulega sameiginlegur vilji þingflokkanna, að þessu máli yrði hraðað eins og frekast er unnt, þannig, að ég gæti hugsað mér það, ef það færi til hv. Nd. nú í dag, gæti sú d. afgreitt málið á morgun, og er ljóst, að aðstaðan verður ekki orðin svo breytt á morgun, að Sjálfstfl. verði fremur tilbúinn að taka afstöðu til till. Ef á að hraða málinu, verður að reyna að komast hjá því, að það fari milli d., því að það tefur. Auk þess er það óviðkunnanlegt, ef till. er borin upp hér og felld, en yrði síðan send frá Nd. og samþ. á ný.

Mér heyrðist hæstv. atvmrh. finna það gegn þessari till., að hér væri ekki um gagnkvæman rétt að ræða, en ég held, að auðvelt sé að bæta úr því, og vildi beina þeirri fyrirspurn til flm., hvort þeir sæju sér ekki fært að breyta till. þannig, að þessi agnúi hverfi burtu.

Ég vil taka undir það, að ég tel þetta ákvæði nauðsynlegt, en ég skil, hvað fyrir sjálfstæðismönnum vakir, að þeir eru ekki tilbúnir að samþykkja það. Þeir munu líta svo á, að af því að samningar standa yfir milli verkamannafélagsins Dagsbrúnar og vinnuveitendafélagsins, þá gæti Dagsbrún sagt: — Nú getum við hafið verkfall eftir viku —, og þess vegna mundu þeir óska eftir að bíða, þangað til samkomulag er komið á. Hins vegar er það viðurkennt af þeim, að þetta ákvæði væri sett inn í, hefði samkomulag náðst. Annað væri líka hróplegt ranglæti gagnvart þeim félögum, sem ekki hafa þetta á valdi sínu, og jafnframt nauðsynlegt, þar sem félögin geta beitt skæruhernaði, til þess að koma í veg fyrir, að þau beiti honum.

Hins vegar hefur þetta ekki minnstu áhrif á þær samningaumleitanir, sem fara fram milli Dagsbrúnar og vinnuveitendafélagsins, vegna þess að það er sameiginlegt álit allra, að það verði að gera nýja samninga og þessir samningar hljóti að takast. Í öðru lagi hefur Dagsbrún það á valdi sínu, ef hún vildi, að stöðva alla vinnu hér í bænum. Í raun og veru þarf félagið ekki annað en styðja á hnapp, þá er öll vinna stoppuð. En félagið óskar ekki eftir því. Það vill gera allt, sem mögulegt er, til þess að framleiðslan geti gengið. Það er ekki um annað að ræða, svo að ég held, að þessi ástæða hafi ekki við neitt að styðjast og hún þurfi ekki að vera því til fyrirstöðu, að þm. Sjálfstfl. geti fallizt á þessa nauðsynlegu breyt.