04.08.1942
Sameinað þing: 1. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 10 í B-deild Alþingistíðinda. (15)

Kosning til efri deildar

Jörundur Brynjólfsson:

Fyrirspurn mín laut ekki að því að leita eftir samkomulagi um kjör til Ed. Það gæti vitanlega komið til mála, en slíkt liggur ekki fyrir. Og mér finnst hæstv. forseti Sþ. með engu móti geta skotið sér á bak við það, að ekki eru allir þm. á fundi, þegar kosið er til Ed., því að samkvæmt þeirri gr. þingskapa, sem ég vitnaði til áðan, er til þess ætlazt, að annað ráði en tala viðstaddra þm. Styrkur Framsfl. á þingi nemur 20 atkv., ef allir þm. eru við staddir. Og er ekki um það að ræða, að einn þm. flokksins hafi skorizt úr leik án þess að hafa til þess gildar ástæður. Ég þykist vita, að hv. þm. sé kunnugt um það, að hann hafði gildar ástæður sér til afsökunar. Og hefði hann getað verið við staddur, þá hefði kjörið til Ed. fallið annan veg en nú er orðið, því að Framsfl. hefði þá fengið 7 þm. kjörna, svo sem hann hefur rétt til samkv. fyrr nefndri gr. Það er ljóst af orðalagi gr., að til þess er ætlazt, að raunverulegt styrkleikahlutfall flokkanna skuli ráða. Það má meðal annars sjá af því, að í gr. stendur : „Ef tveir eða fleiri þingflokkar hafa með sér bandalag um kjör til efri deildar, eða þingflokkur (eða flokkar) og menn utan flokka, skal talan á listanum miðast við sameiginlegt atkvæðamagn bandalagsins: Hér er því auðsjáanlega ekki um það að ræða, hve margir þm. eru við staddir, heldur styrkleika flokkanna sjálfra á þingi. Þá er líka ákveðið í gr., að hlutkesti skuli ráða, þegar svo er ástatt, að flokkar eða flokkasambönd hafa jöfn atkvæði. Mér skilst því, að þetta gerist með öðrum hætti hér vegna fjarveru eins hv. þm., og vil ég fá að heyra frekari rök hæstv. forseta fyrir réttmæti þessarar aðferðar. Því að ef kjör til Ed. má gerast svo, að hv. þm. þurfi ekki að koma til fundar, þá fer það að gerast þýðingarlítið. En ef þetta verður látið gilda, fer ekki hjá því, að unnt verður að hafa þessa aðferð einnig síðar meir, og gæti það orðið til þess að raska skipun Ed. þannig, að ekki væri að öllu leyti réttlátt.