21.08.1942
Neðri deild: 12. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 93 í B-deild Alþingistíðinda. (169)

7. mál, dómnefnd í verðlagsmálum

Pétur Ottesen:

Ég er með brtt. við þetta frv., sem er á þá leið, að síðari málsgr. í ákvæði til bráðabirgða falli burt, en þar er svo fyrir mælt, að verkalýðsfélögum og atvinnurekendum er heimilt að segja upp gildandi kaup- og kjarasamningum með minnst viku fyrirvara frá gildistöku laga þessara. Ég tel ekki ástæðu til að setja þetta ákvæði í frv., því að það verður að ráðast, hvernig tekst til milli vinnuþiggjenda og vinnuveitenda um þessa samninga, og ég vil ekki, að ýtt sé undir það með l., að óþarfa truflanir verði á þessum málum. Ég tel æskilegt, að samningar geti staðið sinn ákveðna tíma, en ef það getur ekki orðið, þá er það illt, en verður að taka því eins og það er. En að ýta undir það af hálfu löggjafans, að samningum sé sagt upp, álít ég ekki til bóta. Hið opinbera hefur viðurkennt, að gerðardómsl. séu brostin, og því er yfirlýst af hálfu löggjafans, að hann geti ekki átt við kaupgjaldsmálin. Þess vegna tel ég ósamræmi í því að halda eftir þessu ákvæði í l. Þetta ákvæði er þannig orðað, að vel mætti skilja það svo, að hér ætti við alla samninga. Ég legg þess vegna til, að síðari málsgr. í ákvæði til bráðabirgða verði felld niður. — Að sinni tel ég svo ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta frekar.