04.08.1942
Sameinað þing: 1. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 11 í B-deild Alþingistíðinda. (17)

Kosning til efri deildar

Jörundur Brynjólfsson:

Mér finnst hæstv. forseti binda sig fullmikið við þessar atkvæðatölur, en ganga um of á snið við ákvæði gr. þeirrar, er ég nefndi, en þar er tekið allnákvæmlega fram, með hverjum hætti skipa skuli Ed. Gr. var, eins og kunnugt er, eitt sinn breytt svo, að flokkur gæti ekki skotið sér undan því að, tilnefna menn til Ed. Í gr. er einnig ákveðið, hvernig að skuli fara, ef flokkar hafa samstarf um kosningu til Ed., þá skuli leggja saman atkvæðatölu flokkanna. Og í síðustu málsgr. segir : „Nú skýtur einhver kjöraðili sér undan skyldu um tilnefningu til efri deildar, og tilnefnir forseti þá þingmann eða þingmenn úr þeim flokki eða bandalagi í réttu hlutfalli við atkvæðamagn.“ Þetta ákvæði ber það með sér, að forseti skal sjá um, að lagfært sé, ef eitthvað skortir á, að tilnefning fari fram samkvæmt því, sem ákveðið er. Okkur framsóknarmönnum bar nú skylda til að tilnefna 7 menn. En svo er þetta látið fara eftir því, hve margir eru hér á fundi. Þó er augljóst, að hér er um að ræða allt annað en það, sem gildir, þegar venjuleg þingmál eru afgreidd. Ég vil því vænta þess, að hæstv. forseti athugi þetta gaumgæfilega. Eftir það gæti þá komið að því, sem hann minntist á, að samkomulag yrði um kjörið til d., en það er í rauninni allt annað mál.