21.08.1942
Neðri deild: 12. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 94 í B-deild Alþingistíðinda. (176)

7. mál, dómnefnd í verðlagsmálum

Pétur Ottesen:

Þessi rök, sem komið hafa fram gegn brtt. minni eru mjög léttvæg. Það er talað um, að verklýðsfélögin hafi ekki getað sagt upp samningum vegna gerðardómsl. Mér þykir það einkennilegt, þegar vitað er, að stærsta verklýðsfélag landsins hafði sagt upp samningum, áður en gerðardómsl. voru sett, svo að þau l. höfðu engin áhrif á þessa samninga. Þess vegna er það eintómur fyrirsláttur að setja þessa samninga í samband við gerðardómsl. Mér finnst einnig mjög undarlegt, að menn, sem vilja ekki nein afskipti l. af þessum málum, skuli vilja troða þessu ákvæði inn í l. Mér þykir seint séð af hæstv. ríkisstj. að setja þetta ákvæði í frv. svona seint, því að ekki var það þar fyrst.

Annars mun það, sem fram hefur komið móti minni till., ekki í neinu raska afstöðu minni til hennar.