21.08.1942
Neðri deild: 11. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 99 í B-deild Alþingistíðinda. (207)

29. mál, hafnarlög fyrir Grundarfjörð

Gísli Guðmundsson :

Ég geri ráð fyrir, að hér sé um gott mál að ræða. Mér er kunnugt um, að menn hafa alllengi haft áhuga á, að gerðar yrðu hafnarbætur við Grundarfjörð. — Mér finnst óþarfi að geta ekki þolað það, að nafn Hannesar Jónssonar sé nefnt réttilega í sambandi við þetta mál. Það er rétt, að fyrir 10 árum beitti Hannes Jónsson sér fyrir því, að hafnarbætur gætu komið þarna, og þá var byrjað á bátabryggju við Grundarfjörð. Það er óvanaleg meðferð, að ríkisstj. flytji frv. um einstök hafnarl., en hæstv. atvmrh. gerði grein fyrir, hvernig á því stendur í þetta skipti, og í sambandi við það vil ég spyrja ráðh., hvernig hann mundi taka í það, ef hafnarstjórnir, sem staðið hefðu í framkvæmdum, færu fram á, að auknir væru tekjumöguleikar þeirra. Útgjöld hafnarsjóða hafa stóraukizt síðan stríðið hófst. Ég vil nota þetta tækifæri til að spyrja hæstv. ráðh., hvaða stefnu hann vilji fylgja í slíku og hvernig hann tæki í það, ef farið væri fram á hækkun hafnargjalda.

Ég vona, að frv. nái fram að ganga, en finnst, að það ætti að fara til sjútvn. til athugunar.