04.08.1942
Sameinað þing: 1. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 12 í B-deild Alþingistíðinda. (21)

Kosning til efri deildar

Emil Jónsson:

Ég lýsti yfir í upphafi ræðu minnar, að þetta eina atkv., sem Framsfl. vantaði við þessa kosningu, hefði ráðið úrslitum kosningarinnar. En hv. 1. þm. Árn. undirstrikaði margoft í ræðu sinni, að það sé ekki atkvæðafjöldinn, sem eigi að koma til með að ráða úrslitum, enda býst ég við, að það sé rétt. Því að það er ekki hægt að þvinga menn til að mæta á þingfundum út af fyrir sig, en það er hægt samkv. þingsköpum að þvinga flokka til að leggja fram þingmenn að réttri tiltölu við styrkleika þeirra í sameinuðu þingi, eftir því sem til næst og réttast er hægt að gera. Og það eina, sem ég hef haldið fram, er það, að það er með alveg jöfnum rétti uppfyllt 6. gr. þingskapa með því að setja 6. sjálfstæðismanninn eins og 7. framsóknarmanninn í Ed. En hvort tveggja er ónákvæmt.

Hvað viðvíkur spurningu hv. þm. Mýr. (BÁ), ef 6 framsóknarmenn mættu, hvort flokkurinn ætti þá aðeins að kjósa tvo menn til Ed., þá er slíkt tilraun til að skjóta sér undan skyldunni. En um þessa atkvgr. lít ég svo á, að enginn flokkur sé að skjóta sér undan skyldu sinni. Framsfl. og Sjálfstfl. getur hvorum um sig borið þetta vafasæti í Ed., en atkv. verða að skera úr, hvor þeirra fær það.