14.08.1942
Neðri deild: 7. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 105 í B-deild Alþingistíðinda. (239)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. minni hl. (Sveinbjörn Högnason) :

Ég get skilið þau ummæli hv. frsm. meiri hl., að hann kæri sig ekki um að ræða málið á þessu stigi. Það er að vísu rétt, að mikið hefur verið rætt um málið í blöðunum og á þingfundum, en ég held ekki, að þær umr. hafi verið fylgjendum þessa máls til sóma né heldur hitt, hvernig stofnað er til þessara umr. hér á Alþ. að þessu sinni. Verð ég að lýsa yfir furðu minni á framkomu hv. meiri hl. n. og því, hve hann virðist vera starblindur á allar aðstæður í þjóðfélagi voru um þessar mundir, svo að hann sér þar ekkert nema þetta eina mál, sem hann hefur tekið upp. Hv. frsm. meiri hl. var fáorður, og hefði verið gott, að þessi fáu orð hans hefðu verið sannleikanum samkvæm, en því var ekki að heilsa. Hann sagði, að rúmlega 40 þúsundir kjósenda hefðu lýst stuðningi við málið, en þetta er ekki rétt. Og vitanlegt er, að þeir flokkar, sem að málinu stóðu, stórtöpuðu fylgi í síðustu kosningum, þó að ekki væri nóg til að stöðva málið. Það er vitað, að fjöldi kjósenda kaus þessa flokka, þrátt fyrir fylgi þeirra við málið, en ekki vegna þess. Í tveimur kjördæmum, þar sem ég þekki til, var það svo að segja undantekningarlaust, að fylgismenn þessara flokka lýstu yfir því, ef talað var við þá einslega, að þeim væri illa við breytingu. Það er því ekki rétt, að þjóðin hafi krafizt hennar, heldur eru það ímyndaðir flokkshagsmunir á Alþ., sem hér standa á bak við. Ég verð að segja það, að það er vissulega sorglegt að horfa upp á það, að Alþ., sem á vissulega að ganga á undan öðrum í því að hvetja menn til ábyrgðar, skuli fara lengra en allir aðrir í ábyrgðarleysi. Ég sé ekki betur en hér sé að endurtakast sama sagan og hjá frönsku stjórnmálamönnunum, sem voru að metast um það árum saman, hverjir ættu að hafa mest völd, þangað til sá aðilinn kom, sem tók landið að fullu. Þannig hlýtur að fara fyrir hverri þeirri þjóð, sem gleymir hinum raunverulegu úrlausnarefnum, en lætur blekkjast af ímynduðum flokkshagsmunum. Ég skil ekki, að til sé nokkur maður svo blindaður með þjóðinni, að hann sjái ekki, að hér eru að gerast svo alvarlegir hlutir, að vel getur farið þannig, að við missum tök á því, hvar við lendum með stjórnarfar okkar, ef þessu heldur áfram. Styrjaldarátök eru allt í kringum okkur, atvinnuvegirnir dragast saman, og sjáanlegt er, að við munum ekki geta flutt inn á næstunni nema helming þess, sem áður var. Kapphlaup er að verða svo mikið um allar greiðslur, að ekki er annað sýnna en fjárhagskerfi okkar muni springa. Og svona er ástandið á öllum sviðum. Og svo á að efna til nýrra kosninga og forðast að taka á nokkru máli fyrr en um áramót, — og hver veit, hvort þá verður nokkur þörf á Alþ. Það hefur því áreiðanlega aldrei verið slík þörf ábyrgðartilfinningar sem nú, en þó hefur aldrei setið hér ábyrgðarlausari stjórn en á þessum tímum. Og þeir, sem hana styðja, hæla sér jafnvel af því, að þeir styðji hana einmitt af því, að hún sé ofær um að taka á sig nokkra ábyrgð.

Ég verð að segja, að ég skil ekki þennan hugsunarhátt. Sumir segja, að hér eigi að koma á jafnrétti milli flokkanna, en ráðh. viðurkenna, að höfuðtilgangurinn sé sá að ríða Framsfl. að fullu. Finnst mönnum ekki, að þetta séu mikilvægustu úrlausnarefnin um þessar mundir og ástæða sé til að eyða heilu ári í þetta? Ég get vel skilið það, að hæstv. ráðh. flýi nú úr þingsalnum, er ég fer að tala um þetta. Þessir tómu stólar þarna eru skýr mynd af því, hvernig stjórnarfarið er á Íslandi um þessar mundir. En ég vil spyrja hv. þingd., hvort hún telji, að þetta séu þær starfsaðferðir, sem kjósendur hafa ætlazt til af okkur, umboðsmönnum sínum? Ég veit a. m. k. um þá kjósendur, sem mig hafa kosið, að þeir bera í brjósti fullkominn ugg vegna þess, hvernig nú er komið. Við erum að áfellast ýmsa af þegnum þjóðfélagsins fyrir ábyrgðarleysi bæði í blöðunum og annars staðar. En hvað á að segja um þessa þrjá tómu stóla? Hvar er ábyrgðartilfinningin þar?

Okkur, sem erum í minni hl. stjskr n. og höfum gefið út nál. á 52. þskj., var ljóst, að voði væri fyrir dyrum, ef þessari stefnu yrði haldið. Þess vegna skrifuðum við öðrum flokkum þingsins og spurðumst fyrir um það, hvort mönnum þætti ekki ástæða til, að Alþ. staldraði við og endurskoðaði vinnubrögð sín. Þessu var svarað í blöðum andstæðinganna með einhverjum þeim versta skætingi, sem ég hef séð viðhafðan um nokkurt stórmál, eins og ekkert skipti máli annað en þröngir flokkshagsmunir. En ég spyr: Ætli flokkshagsmunirnir verði ekki jafnlítils virði hjá öllum flokkunum, ef þessu verður haldið áfram til lengdar? Það, sem flokkar andstæðinganna fá upp skorið, verður áreiðanlega ekki nema lítið af því, sem þeir ætluðu sér. Þessi breyt., sem hér ræðir um, raskar mjög litlu um hlutföllin milli flokkanna. Það sýna síðustu kosningar. Og margir þeir, sem málinu fylgja, munu eflaust verða því fegnastir að geta hætt við þetta flan. Samt á að halda áfram að fara eftir þessu villuljósi, þó að sjáanlegt sé, að með því er stefnt út á háskabrautir.

Hvort sem um er að ræða framkvæmd þessa máls eða hugsunina á bak við það, þá ber allt sama keiminn. Frv. er vanhugsað, og vinnubrögð við framkvæmd þess af hálfu hæstv. stj. eru sama eðlis. Allir vita, að kosningar verða að fara fram strax, ef þær eiga yfirleitt að fara fram á þessu hausti. Og ef látið verður líða lengra fram á haustið, þá verður fjöldi fólks útilokaður frá því að geta kosið, a. m. k. á Norðurlandi og Austurlandi. Þetta veit hæstv. ríkisstj., en samt dregur hún það í heilan mánuð að kalla saman þingið.

Sá dráttur, sem orðinn er á máli þessu, getur því ekki orsakazt nema af tvennu : annaðhvort af slóðaskap stj. eða að hún sé vitandi vits að draga haustkosningarnar á langinn og þar með að gera vissum landshlutum, sem hún veit, að eru henni ekki hliðhollir, erfiðara en ella að taka þátt í kosningum. Og það út af fyrir sig gefur tilefni til að halda, að allt sé nú ekki með felldu í stjórnarháttum þeirrar háttv. ríkisstj., er nú situr.

Ég vil svo mega vænta þess, að einhver þeirra fylgismanna stj., er hér eru inni, komi á framfæri til stj. fyrirspurn, er ég vildi beina til hennar, þar sem enginn úr stj. er hér mættur til þess að ljá henni eyra. Mig langar til að fá skýr svör við því, hvers vegna dregið var a. m. k. um hálfan mánuð að kalla Alþ. saman, því að ég get ekki séð annað en það hafi verið gert vitandi vits eða þá sé frámunalegum slóðaskap í stjórnarháttum að kenna, sem í báðum tilfellum er alveg óafsakanlegt athæfi.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta frv. Ég ætla mér ekki þá ofraun að geta talið flm. þess hughvarf úr því, sem komið er, en þeir verða óafneitanlega sjálfir að gera það upp við sig og bera ábyrgðina á því, hvort sé betra, stjórnarskrárbreytingin eða samvinna um mest aðkallandi vandamál þjóðarinnar þegar í stað.