14.08.1942
Neðri deild: 7. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 108 í B-deild Alþingistíðinda. (240)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. meiri hl. (Ásgeir Ásgeirsson) :

Eins og ég sagði áðan, mun meiri hl. stjskr.n. fylgja frv. óbreyttu, þar til það er orðið að lögum

Síðasti ræðumaður var með það sama og hann hefur svo oft áður sagt í þessu máli. Hann endaði ræðu sína á því að segja, að það væri ekki nema um tvennt að velja í þessu máli. Annaðhvort væri að hafna stjskrbreyt. eða, að mér skildist, að fá allan háska styrjaldarinnar yfir sig. En öllum fylgismönnum þessa frv. er það vel ljóst, að hægt er að sinna fleiri málum en þessu í einu. Hvernig ætli svo framsóknarmenn tækju því, ef stjskrbreyt. yrði lögð á hilluna og næði ekki fram að ganga nú? Ætli þeir mundu ekki segja sem svo við kjósendur: Þarna sjáið þið innræti þessara manna, er svíkja málstað ykkar þannig í tryggðum. — Nei, okkur, sem að frv. þessu stöndum, hefur ekki dottið það í hug, að ófriðarblikan yfir höfði okkar yxi eða yrði erfiðari viðfangs, þó að jafnað sé atkvæðisréttinum í landinu milli íbúa þess. Það er og annað, sem ómögulegt er að skilja hjá andstæðingum frv., hvers vegna þeir þurfa sífellt að vera að þyrla upp moldviðri efasemda og óvissu inn í þetta mál, eins og af því stæði einhver ógnun og með því væri verið að stefna út í þjóðhættulegan voða.

Eins og hv. þm. er kunnugt orðið, skrifaði Framsfl. bréf til Alþfl., Sjálfstfl. og Sósfl., þar sem hann fór fram á samstarf við þá flokka, ef látið yrði af stjskrbreyt. Eins og Framsfl. hefði eins getað sagt sér sjálfur, var honum svarað af 3 flokkunum á þá leið, að ekki kæmi til neinna mála, að hætt yrði við stjskrbreyt. þá, er í frv. felst.

Ég skal svo ekki lengja umr. um þetta mál, enda er það óþarfi, þar sem 3 þingflokkar standa hér saman um að hrinda málinu í framkvæmd og hér er um að ræða svo einfalda mannréttinda-kröfu, að hvert mannsbarn skilur réttmæti hennar, nema Framsfl., sem vill fyrir engan mun sleppa sérréttindum sínum í þjóðfélaginu, og þessi sérréttindi setja þeir að skilyrði fyrir því að geta unnið saman að vandamálum þjóðarinnar. Það hefði mátt ætla, að íslenzkur stjórn málaflokkur hefði í þessu efni sýnt meiri þjóðhollustu en Framsfl. nú gerir.