14.08.1942
Neðri deild: 7. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 117 í B-deild Alþingistíðinda. (245)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. minni hl. (Sveinbjörn Högnason):

Það er gott að heyra, að hv. síðasti ræðumaður hefur þó eitthvað svolítið áttað sig á, á hvaða leið hann var, og reyndi að haga orðum sínum ofurlítið skynsamlegar.

Ég vil benda honum á, fyrst hann hefur getið tilefni til þess, að þegar hann segir, að það sé búið margsinnis að staglast á, að kommúnistar séu umboðmenn Rússa, þá veit ég ekki til, að þeir hafi neitt skammazt sín fyrir það, heldur viðurkennt, að svo væri. Hann segir, að árangurinn hafi orðið sá, að kommúnistar hafi síðan 1937 tvöfaldað atkvæðamagn sitt. En það sýnir einmitt bezt þá upplausn, sem er í þjóðfélaginu. Hinn hraðfara vöxtur þessa upplausnarflokks sýnir gleggst, hvar við erum komnir. Ég vil benda á, hvernig hefur farið í löndunum kringum okkur, þar sem þessi flokkur hefur náð fótfestu. Hvernig var það í Þýzkalandi, áður en byltingin varð þar? Þar voru kommúnistar einn sterkasti stjórnmálaflokkurinn. Það er enginn vafi, að þær starfsaðferðir, sem þeir notuðu, áttu mikinn þátt í þeirri byltingu, sem þar varð. Hvernig var það í Frakklandi? Ég man ekki betur en kommúnistar væru sterkur flokkur þar. Svona hefur þetta farið í öllum þeim löndum, þar sem kommúnistar hafa haft sterk samtök, en aftur eru það sterkustu þjóðirnar, þar sem tök þeirra hafa verið minnst. Þetta er líka ákaflega skiljanlegur hlutur, vegna þess að þeir játa, að þeir vilji leysa upp það þjóðskipulag, sem við lifum undir, vilji ekki káka við að laga það, heldar taka alla stjórnarhætti eftir rússneskri fyrirmynd, sem er alþjóðahreyfing, eins og kunnugt er, og stjórnað austan frá Moskva. Þetta veit hver hugsandi maður, og þess vegna er það síður en svo sönnun þess, að hér sé allt í lagi, heldur er það þvert á móti skýrasta sönnun þess, að hér er upplausn innan lands.

Þá segir hann, að þjóðin sé búin að greiða atkv. um þetta mál. Ég ætla að fullyrða, að ef látin hefði verið fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla um þetta mál og ekkert annað, og það hefði engin áhrif haft á styrkleika flokkanna eða áhrif þeirra á Alþ., þá hefði vissulega útkoman orðið allt önnur, því að það vita allir, að það var margt annað, sem hafði áhrif á alþingiskosningarnar, en fjölda mörgum mönnum í hinum flokkunum var mjög illa við kjördæmabreyt., þó að þeir vildu ekki yfirgefa sinn flokk. Það má því fullyrða, að ef þjóðaratkvgr. hefði verið látin fram fara um þetta mál eitt, án þess að það hefði nokkur áhrif á styrkleika flokkanna eða nokkurt annað mál hefði blandazt þar inn í, þá hefði útkoman orðið allt önnur en raun varð á um síðustu kosningar.

Þá talaði hann um, hvað mundi verða um Framsfl., ef hann lenti lengi í stjórnarandstöðu. Framsfl. hefur verið í stjórnarandstöðu. Og hvernig fór? Hann óx ákaflega ört, miklu örar en kommúnistum hefur tekizt. Það er vitað mál, að ef menn hafa þá aðstöðu að hafa bæði góð málefni, eins og Framsfl., og hafa líka þá aðstöðu að geta ásakað aðra, þá er ekkert, sem stenzt gegn því í þjóðfélaginu. Það er eðlilegt, að kommúnistar hafi allt fram til þessa verið í stjórnarandstöðu, af því að þeir hafa ekki haft góðan málstað um leið. En ef þeir hefðu haft góðan málstað, eins og Framsfl., og hefðu starfað á þjóðlegum grundvelli, um leið og þeir voru í stjórnarandstöðu, og gátu deilt á aðra fyrir það, sem miður fór, þá er ekki hægt að hugsa sér betri flokkslega aðstöðu. Við framsóknarmenn erum því ekki hræddir frá flokkslegu sjónarmiði við stjórnarandstöðu, enda höfum við séð, hvernig farið hefur fyrir Sjálfstfl. Hann var búinn að halda vel saman, meðan hann var í stjórnarandstöðu, en síðan hann kom í stj., hefur hann ekki haft manndóm eða vit á að stjórna svo, að þjóðinni hafi líkað. Hann hefur því misst fylgi, svo að ef þessu fer fram eins og nú um hríð, má búast við, að hann leysist upp innan stundar. (SK: Ætli það verði ekki Framsfl., sem fyrst leysist upp?) Það var gott, að þessi hv. þm. greip fram í og minnti á sig; hann er einmitt eitt ljósasta dæmið um upplausnina í þessum flokki, því að hann hótaði að sprengja flokkinn, ef hann fengi ekki að vera í framboði í Reykjavík í vor. Mér þótti vænt um, að hann minnti á sig, því að hann er ljósasta dæmið um veikleika flokksins. En það eru fleiri Sigurðar Kristjánssynir í Sjálfstfl., sem eru óþægir ljáir í þúfu fyrir þá, sem eiga að fara með stj. í flokknum, þegar hann ber ábyrgð.

Þá er það ekki rétt, sem hv. 4. landsk. hélt fram, að kjördæmamálið hafi verið það eina, sem ágreiningnum olli. Þetta hlýtur að stafa af því, að honum sé ekki kunnugt, hvað gerzt hefur á þingi. Það, sem helzt olli ágreiningnum í haust, voru dýrtíðarmálin, og Sjálfstfl. vildi ekki standa við gefin loforð um að stöðva öngþveitið. Hefðu þá verið sett skynsamleg dýrtíðarl., væru þau enn í gildi, og ekki væri komið í það öngþveiti, sem við erum nú í. Kjördæmamálið var upphaflega ekki nema fluga, sem var egnt fyrir Sjálfstfl. til þess að fá hann til að ganga úr stjórnarsamvinnunni og var til þess gerð að brjóta niður þær ráðstafanir, sem Sjálfstfl. gekk inn á að gera í dýrtíðarmálunum, sem var síðasta tilraunin, sem var hægt að fá gerða.

Hv. þm. V.-Ísf. segir, að það sé beinn flokkslegur hagnaður fyrir Framsfl. að fá þetta afgr. nú, því að annars mundu síðar koma till., sem gengju lengra. Þetta sýnir, að þeim er ljóst, að þessar till. ætla ekki að bera þann árangur, sem til var ætlazt, þegar frv. var flutt, og þeir sjá, að það er hreinn misskilningur, sem þeir hafa haldið fram. Það ætlar hvorki að bera þann persónulega eða flokkslega árangur, sem þeir ætluðust til, og það ætlar ekki heldur að koma á jöfnuði í þjóðfélaginu, eins og þeir kölluðu það. Þess vegna segir hv. þm. V.-Ísf., 1. flm. frv., að þeim mundi ekki detta í hug nú að bera fram till. svipaðar þeim, sem hér er um að ræða, ef þær væru nú látnar niður falla.

Þá taldi hann, að ég væri hræddur við að fara út í kosningar. Ég hef aldrei verið hræddur við kosningar persónulega. En hver þjóð, ekki sízt við Íslendingar, eins og ástatt er hjá okkur nú, ætti að geta séð, að það er ekki ráðlegt nú að ráðast út í kosningar, ekki einu sinni frá persónulegu eða flokkslegu sjónarmiði, og ég er viss um, að þeir flokkar, sem að slíkum vinnubrögðum standa, hljóta að tapa æ fleiri og fleiri kjördæmum, því að fólkið sér fyrr eða síðar, hvert stefnir og tekur í taumana til að hindra slík vinnubrögð.

Hann segir, að það eitt sýni, að málið standi fyrir utan flokkahagsmuni, að þrír flokkar standi saman um það. Ég hef ekki heyrt þessa röksemd fyrr í þinginu. Ég hafði hugsað mér, að það gæti vel verið, að tveir eða þrír flokkar gætu haft sameiginlega hagsmuni, og það er ekkert réttlátara, þó að það séu flokkasamsteypur, sem að því standa. Það er oft og einatt ranglátast, þegar þeir koma sér saman um hlutina, en getur verið miklu réttlátara, ef einn flokkur markar línuna. Það er vitað, að af þeim, sem að þessu máli standa, eru engir ánægðir með það nema kannske sjálfstæðismenn, jafnvel þeir, sem báru málið fram, telja, að það nái ekki nema litlu broti af því, sem þeir vildu. Ég tala nú ekki um kommúnista. Þannig er það með þessa flokka. Þeir eru ekki sammála um neina sameiginlega línu nema þar, sem þeir telja sig hafa einhverja flokkshagsmuni. Það er það eina, sem liggur til grundvallar, og fyrir það eitt er þeirra samkomulag.

Hv. frsm. meiri hl., sem jafnframt er aðalflm. frv., kvað árið eftir kosningafrestunina hafa verið það versta, sem yfir þjóðina hefur komið. Hver skyldi eiga sök á því? Það er þó ekki í sambandi við þetta mál og þennan mann? Ég hef satt að segja aldrei heyrt harðari dóm um þetta mál og framferðið í kringum það hjá neinum manni en hv. flm. og frsm. meir í hl. um sitt eigið afkvæmi. En ég er honum sammála. Ég er viss um, að talið verður, að aldrei í sögu landsins hafi verið vakið upp meira óhappamál og aldrei í Alþ. starfað meiri óhappamenn en þeir, sem hafa komið þessu máli af stað og vinnubrögðum í sambandi við það, og þar af leiðandi muni, af þeim árum, sem liðin eru síðan Alþ. var endurreist, þetta vera talið eitthvert versta og háskasamlegasta í íslenzkum stjórnmálum. En þá held ég, að niðurstaðan sé orðin nægilega skýr, þegar flm., sem einnig er frsm. meiri hl., er mér sammála um afleiðingarnar og uppskeruna af þessu frv., sem nú á að halda áfram dansinum í kringum og sleppa öllu öðru.