14.08.1942
Neðri deild: 7. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 123 í B-deild Alþingistíðinda. (249)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Sigfús Sigurhjartarson:

Ég skal vera stuttorður, en vil aðeins svara nokkrum orðum þessari virðulegu ræðu hv. þm. V.-Sk. — Áður en ég byrja á því, þá get ég samt ekki stillt mig um, þegar ég sé hv. þm. Str. bregða fyrir, að segja, hvað hann minnir mig ávallt á einn frægan stjórnmálamann, álfunnar bæði í orðum og gerðum. Rétt fyrir kosningarnar talaði hann mikið um, að auðvaldsskipulagið væri dauðadæmt, en hafði skömmu áður komið fram með þrælalög gegn verkalýðnum, og nú talar hann og flokksmenn hans þannig, að ræður þeirra gætu vel verið klipptar út úr ítölskum og þýzkum fasista- og nazistablöðum, rétt áður en þeir flokkar tóku völdin á Ítalíu og Þýzkalandi. Þessi stjórnmálamaður, sem hv. þm. Str. minnir mig á, er Mússólini, þegar hann var að berjast til valda á Ítalíu. Þá lék Mússólíni það hlutverk, réttara sagt þau hlutverk, að ýmist gekk hann yfir í hóp verkamannanna eða til hinna stærri iðjuhölda og þeirra málstaðar. — Þennan sama leik eru framsóknarmenn að leika nú. — Þótt ég segi þetta, er ég þess samt fullvís, að innan Framsfl., bæði utan þings og innan, eru menn, sem eru andvígir þessum leik.

Hv. þm. V.-Sk. hyggst að sanna, að við lútum yfirráðum erlends valds. Rök hans eru þau, að fyrst hafi Þjóðviljinn tekið hinum erlenda her illa, sem leiddi svo til þess, eða svo hefur þessi hv. þm. sjálfsagt hugsað, að þrír okkar blaðamanna, þar á meðal ég, hafi verið fluttir út sem fangar. Svo líða tímar, og þá á okkar viðhorf allt að hafa breytzt svo, að við nú blessum setuliðsvinnuna og teljum, að hún eigi að ganga fyrir annarri vinnu.

Það, sem við höfum alltaf viljað, er að skipuleggja vinnuaflið fyrst og vinna síðan að landvörnum. Hvers vegna snýr þessi hv. þm. staðreyndum við?

Viðvíkjandi því, hvort viðhorf okkar Íslendinga hafi breytzt síðan Ísland var hernumið, þá tel ég það fullvíst, af þeirri ástæðu, að nú er Chamberlain-stefnan liðin undir lok í Englandi, hvað hún ekki var þá. Þessi hv. þm. veit, að sú stefna var fólgin í því að vinna með fasistum og nazistum, sbr. bæði Abessínu- og Spánarstyrjöldina o. fl., en rás viðburðanna knúði Chamberlain í stríð við Þýzkaland. Það, sem því næst vakti fyrir honum, var að komast að friðsamlegum samningum, til þess að skipta heiminum upp milli tveggja ræningja. Þetta hefur breytzt í Englandi, svo að við Íslendingar getum nú vænzt góðs af sigri bandamanna, sem við gátum ekki í stríðsbyrjun.

Hv. þm. V.-Sk. talar nú með mikilli fyrirlitningu um Kommúnistaflokkinn á Íslandi, en á Hafnarárum sínum var hann mikið við þennan flokk riðinn, enda þótt hann sé nú orðinn meðlimur í mútukerfi Framsfl.

Ég veit vel, að í þessum flokki, bæði utan þings og innan, eru margir ágætir menn, sem hafa andstyggð á þessu einræðisbrölti, og ég treysti því, að þeir menn styðji þessi tvö mál, sem Alþ. á nú að leysa og ég hef áður minnzt á.

Ég skora á alla hv. þm. að ræða um þessi mál, en vera ekki með sífelld brigzlyrði, eins og einkennt hefur ræður hv. þm. V.-Sk.