14.08.1942
Neðri deild: 7. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 129 í B-deild Alþingistíðinda. (255)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. meiri hl. (Ásgeir Ásgeirsson) :

Ég skal láta óútrætt um þann þátt, sem meðferðin á launamönnum á í núverandi ástandi. En ljóst er þetta meginatriði málsins: Framsfl. vill ekki bera ábyrgð á neinu, ef kjördæmamálið, sem er þjóðarvilji, gengur fram. Annað er jafnljóst: Það eykur upplausn og vandræði, en getur engan veg fyrirbyggt þau, ef þingið svíkist um að framfylgja þeim þjóðarvilja. Það skilja framsóknarmenn, og í fullri vitund þess bera þeir neitun sína fram. Ef þjóðin væri svikin um kosningar í haust eftir kröfu þeirra, spryttu af því mikil vandræði, sem þeir eru ekki menn til að bæta fyrir.

Lokaþáttur stjórnarskrármálsins er úti, þegar það frv. hefur verið samþ. á þinginu og l. undirskrifuð af ríkisstjóra, svo að næstu kosningar geta enginn lokaþáttur orðið, nema hv. þm. (EystJ) hugsi sér að koma fram gagnstæðum breyt. á stjórnarskránni og láta fara fram þriðju kosningarnar um þær, eftir að búið væri að fá þeim þingfylgis einu sinni. Það mátti ekki seinna vera, að sú hernaðaráætlun væri lögð fram.