14.08.1942
Neðri deild: 7. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 130 í B-deild Alþingistíðinda. (259)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. minni hl. (Sveinbjörn Högnason) :

Ég veit ekki, hvað stutt hún verður. Ég neita að vera nokkuð réttminni en frsm. meiri hl.

Frsm. meiri hl. heldur því enn fram, að þetta sé lokaþáttur málsins, hvernig sem kosningar fara samkv. þeim nýju stjórnskipunarlögum, sem hér á að samþykkja, og læzt ekki skilja það, að ef tvímenningskjördæmin við komandi kosningar standa fast saman um að hrinda árásinni, þá verður breyt. því nær tilgangslaus eftir því, sem til var ætlazt af flm.

Því hefur verið lýst hér úr ræðustól, hver væri höfuðtilgangur þessa máls, sem sé að ríða Framsfl. að fullu. Þetta er það, sem hefur verið lýst, að væri höfuðtilgangur kjördæmabreyt., og ef svo færi, að Framsfl. yrði jafnsterkur eða sterkari eftir breyt., sé ég ekki, hver ástæða er til að framkvæma þetta eða hvað andstæðingar Framsfl. græða á því. En það er alveg augljóst mál, hvað barizt er um, og sérstaklega ætti það að vera ljóst þessum frsm. meiri hl., að þetta getur farið þannig, að það nái ekki þeim tilgangi, sem því var ætlað af honum að ná í upphafi.

Annars er það furðulegt að hlusta á þessar umr., þar sem verið er að ráðast á Framsfl fyrir það, að hann vill ekki taka þátt í stjórnarframkvæmdum, sem hann telur hættulegar. Okkur er það ljóst, að hvort sem hér væri um myndun nýrrar stj. að ræða eða það að styrkja þá, sem fyrir er, til að halda áfram á þeirri braut, sem nú er farin, — með áframhaldandi ófriði innan lands, nýjum kosningum og upplausn á öllum sviðum —, að það er voði og hætta fyrir þjóðfélagið, og það væri undarlegt að deila á Framsfl. fyrir það að vilja ekki hjálpa til að mynda þá stjórn eða styðja stjórn, sem hann telur þjóðhættulega. (Forseti: Aðeins stutt aths.: Það er ekki komið langt mál enn þá. Ég get vel skilið, að það komi ekki forseta eða öðrum fylgismönnum málsins vel, að dregnar séu skýrar línur í því, en þeir skulu gæta að því, að þótt þingið láti blekkjast í þessu efni, er óhugsandi, að kjósendur almennt láti blekkjast, þegar málið er lagt skýrt fyrir þá. Þess vegna er nauðsynlegt að gera þjóðinni og þinginu eins ljóst og mögulegt er, hvar hún stendur og hvað það er, sem við verðum að snúa okkur að, ef afstýra á einhverju af þeim voða, sem nú er yfir þjóðinni, ef stöðva á upplausnina, kveða niður tilgangslausan innanlandsófrið og verjast áföllum þeim, sem nú steðja sjáanlega að úr öllum áttum.