04.08.1942
Sameinað þing: 1. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 14 í B-deild Alþingistíðinda. (26)

Kosning til efri deildar

Sveinbjörn Högnason:

Ég verð að segja, að mig furðar á, að hv. þm. Hafnf., sem hefur hugsað í hlutfallskosningum upp á síðkastið og þótt þar töluverður forvígismaður, skuli nú ruglast i, hvað hlutfallskosning er. Eða vill hann mótmæla því, að með þeirri hlutfallskosningu, sem við höfum í þessum þingsköpum, ætti Framsfl. að hafa 7 menn í Ed., ef kosning hefði farið fram? Eða meinar hann, að til sé eitthvert annað fyrirkomulag, sem sé þarflegt að grípa til í svipinn fyrir þá, sem hann lætur sér nú annast um í þessu efni. Ég hefði gaman af að heyra, hvaða merkingu hann leggur í orðið hlutfallskosningu. Ég vil leggja áherzlu á það, sem hv. þm. S.-M. sagði, að vitanlega eru í 6. gr. ákvæði um það, að deildir skal skipa eftir niðurstöðu kosninga. Ef ætti að fara eftir því, sem hæstv. forseti hefur látið koma fram, — en ég veit, að hann meinar ekki —, hve margir eru á fundi, vill hæstv. forseti þá halda fram, ef framsóknarmenn mættu 6 á þingfundi þessum, hefðu þeir losnað við að kjósa nema tvo í Ed., til þess að hafa hreinan meiri hl. í Nd., sem náttúrlega væri æskilegt. Það er greinilegt, ef því sjónarmiði þingskapanna er sleppt, að skipa deildir eftir styrkleika flokkanna, en tekið að verzla eftir því, sem ástatt er í hvert sinn, þá er út í miklar ógöngur komið. Þá er búið að raska deildaskipuninni og leikur fyrir hvern flokk að skjóta sér undan skyldunni og ná í réttindin þar, sem hann heldur sig hafa mestan hagnað af og geti sér bezt við komið með stöðvunarvald í annarri deildinni. Hver einasti þm., sem man, í hvaða tilefni þetta ákvæði var sett í þingsköpin, hann veit, að það var sett til þess, að þingdeildir væru skipaðar samkv. styrkleika flokkanna.

Þá kemur ekki til greina, hvort hægt sé að skjóta sér undan skyldunni með fjarveru frá fundi. Og ég er sannfærður um, ef forsetaúrskurður fellur þannig, að þessi kosning verði dæmd gild, þá er það eitt háskalegasta fordæmi, sem skapast í þinginu til alls konar undanbragða um það að raska jafnvægi í þingdeildum. Enda trúi ég ekki fyrr en ég heyri, að forsetaúrskurður falli á þá leið, að aðeins atkvæðamagn á þingfundi ráði skipun deildanna.