14.08.1942
Neðri deild: 7. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 131 í B-deild Alþingistíðinda. (260)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Garðar Þorsteinsson:

Herra forseti! Ég skal ekki halda hér langa ræðu og mun gæta mín að gefa ekki tilefni til þess, að umr. lengist.

Ég vil þó láta það koma fram, að það, sem mér skilst vera höfuðatriðið í þessu máli, er það, sem framsóknarmenn voru með í að setja inn í stjskr. landsins. Í 26. gr. stjskr., að mig minnir, stendur, að þingflokkarnir eigi að fá þingmannatölu í sem fyllstu samræmi við atkvæðatölu þeirra við almennar kosningar. Ég hef eins og flestir þm. skilið þetta ákvæði bókstaflega þannig, að það sé ætlazt til, að þessu ákvæði kosningal. sé fylgt. En við framkvæmd þessa ákvæðis, sem sett var inn í stjórnarskrána, hefur þessu ekki verið náð. Þingflokkarnir hafa alls ekki fengið þingmannatölu í sem mestu samræmi við kjósendatölu sína. Mér skilst, að Framsfl., sem samþykkti þetta á sínum tíma, hafi þá ætlazt til, að þessu ákvæði væri fylgt. Eins og hv. þm. muna, urðu nokkrar deilur um það innan þings og utan, hvort þessu yrði náð með því kjördæmaskipulagi, sem þá var samþ., og með þeim uppbótarþingsætum, sem þá voru veitt, og það hefur sýnt sig, að þessu ákvæði er ekki fullnægt. Ég hygg, að það, sem vakir fyrir flm. þessa máls og þm. yfirleitt, sé að ráða nokkra bót á því ósamræmi, sem er á milli þessarar greinar stjskr. og þess, sem reynslan hefur sýnt, og fyrir mér hefur þetta eitt vakað. Ég er ekki að segja, að Framsfl. hafi samkvæmt stjskr. neina sérstöðu, en það hefur skapazt það ástand í sambandi við kjördæmaskipunina, að einn flokkur hefur fengið miklu hærri tölu þm. heldur en hann hefur rétt á, ef þessu ákvæði væri náð. Þetta er það, sem er aðalatriðið í þessu máli.

Ég ætla ekki að fara inn á einstök atriði í þeim umr., sem hér hafa farið fram, af því að það mundi vekja meiri deilur, en ég vil taka undir það, sem áður hefur verið sagt, að ég skil ekki þá fullyrðingu hv. þm. V.-Sk., þegar hann segir, að þetta sé hættulegasta málið, sem fyrir hafi komið, um leið og hann þó lýsir yfir því, að það sé bezt fyrir hans flokk, ef þetta mál nái fram að ganga. Mér finnst mótsögn í þessu. Það er þá það eina, sem hann gæti átt við með því að segja, að þetta sé hættulegt mál, ef hann meinti, að það væri þjóðhættulegt, að kosningar fari fram. Ég held, að það megi deila um það, hvenær segja megi, að atvinnuvegir okkar og afkoma sé í hættu, þ. e. a. s. að upplausn sé byrjuð og hrun fyrirsjáanlegt. Ég hef ekki komið auga á þetta og fæ ekki séð, að það ástand, sem nú er, sé þeim mun hættulegra fyrir afkomu okkar en verið hefur, að orð sé á því gerandi. Hitt vita allir og ber saman um, að ástandið hafi verið hættulegt fyrir okkur af ýmsum ástæðum, síðan stríðið brauzt út, og ég hygg, að þau rök, sem færð voru fram fyrir almennri kosningafrestun, sanni mitt mál, og rökin, sem þá voru borin fram, voru þau, að ástandið væri svo hættulegt, að ekki væri rétt að láta kosningar fara fram. Ég hygg, að þetta komi fram í þeirri grg., sem málinu fylgdi, og einnig í yfirlýsingu ríkisstj. þá. Hvað var það, sem kom fram, frá því að sú þál. var samþ. og þangað til þáv. forsrh., Hermann Jónasson, lýsti yfir því, að kosningar skyldu fara fram? Hvað. var það, sem kom fram? Ég get ekki séð það. Það má sjálfsagt um það deila, hvort nokkrar kosningar hafi átt að fara fram, en mér virðist ekki, að neinn maður úr Framsfl. geti staðið upp og sagt, að þetta sé hættulegt mál, þegar sá sami flokkur hefur gert samþykkt um það að ekki batnandi ástandi, að kosningar skuli fara fram.

Hitt er svo ekki heldur rétt hjá hv. 1. þm. S.-M, að það vaki fyrir hinum flokkum þingsins að kjósa að vetrinum til þess að rýra gengi Framsfl. Ég veit ekki betur en að fyrir nokkrum árum hafi kosningar farið fram 1. vetrardag, eftir miðjan október. Ég held, að að öllu forfallalausu fari kosningar fram eftir 1. október. Ég get ekki séð, að mikill munur verði á aðstöðu þessa flokks, hvort heldur kosningarnar fara fram 11., 18. eða 25. október, en það er sá kosningadagur, sem fram á síðustu ár var talinn heppilegur og það þótt kjósendafjöldinn væri þá miklu meiri prósentvís í sveitum en í kaupstöðum.

Ég vil að lokum segja, að það er undarlegur skilningur hjá hv. 1. þm. S.-M. og hv. þm. V.-Sk., þegar þeir halda því fram, að þessu máli sé ekki lokið með endanlegri samþykkt þess hér á þingi. Það eru þá bara einn eða tveir þættir eftir: að ríkisstjóri samþykki lögin og að þau verði birt í stjórnartíðindunum. Eins og þessi stjskrbreyt. sé ekki fullgerð, þegar búið er að samþ. hana á tveimur þingum með kosningum á milli. Hitt er annað atriði, að breyt. fær fyrst gildi, þegar kosningar hafa farið fram, en þessari breyt. er að sjálfsögðu lokið, þegar búið er að samþ. hana hér, ríkisstjóri hefur staðfest hana og hún hefur verið birt í stjórnartíðindunum.