18.08.1942
Neðri deild: 8. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í B-deild Alþingistíðinda. (264)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Áki Jakobsson:

Herra forseti! Góðir tilheyrendur! Útvarpsumr. þær, sem nú eiga að fara fram, eru haldnar samkvæmt kröfu Framsfl. Málið, sem hér á að ræða, kjördæmamálið, hefur verið rætt við þrennar útvarpsumr. áður, auk þess, sem það var aðalumræðuefni flokkanna á öllum kosningafundum fyrir kosningar. Ég býst því við, að fáir telji, að nokkuð nýtt geti komið fram í málinu við þessar umr., sem ekki hefur komið fram áður. Satt að segja á ég erfitt með að skilja, hvað fyrir Framsfl. vakir, er hann heimtar þessar umr. Kjördæmamálið er útrætt og raunverulega afgreitt mál. Þjóðin hefur búizt við, að þetta þing yrði sem allra stytzt, til þess að hægt væri að kjósa sem fyrst eftir hinni nýju kjördæmaskipun. Í kosningunum 5. júlí fengu flokkar þeir, sem stóðu að kjördæmabreyt., um 40 þús. atkv., en Framsfl. 16 þús. Vilji þjóðarinnar er ótvíræður. Rösk 70% hennar vilja láta lagfæra kjördæmaskipunina, vilja leiðrétta það ranglæti, að kjósandi á einum stað hafi tvöfaldan og jafnvel þrefaldan atkvæðisrétt á við kjósendur annars staðar á landinu. En Framsfl. vill. ekki enn þá sætta sig við þennan úrskurð kjósendanna. Hann er ekki enn þá búinn að gefa upp von sína um að geta hindrað framgang kjördæmamálsins. Nú í byrjun þessa þings sendi hann hinum þingflokkunum þremur bréf út af kjördæmamálinu. Þetta bréf er vafalaust alveg einstakt í þingsögunni. Í upphafi þess er lýst með mjög sterkum litum, hvílíkur voði vofi yfir þjóðinni. Þá er sagt, að Framsfl. telji nauðsynlegt, að þjóðin sameinist um að bægja frá sér þessum voða. En í enda bréfsins kemur svo aðalefni þess: Ef þið viljið falla frá kjördæmabreytingunni, þá skulum við vera með í að bægja frá hættunum, en ef ekki, þá er okkur alveg sama, hvernig fer. Þetta bréf er hámark ábyrgðarleysis og stráksskapar í opinberu lífi. Framsfl. býðst til þess að taka þátt í lausn þeirra vandamála, sem nú steðja að þjóðinni, því aðeins að hinir flokkarnir þrír svíki ótvíræð loforð sín í kjördæmamálinu og yfirlýstan vilja rösklega 70% kjósenda í landinu.

Afstaða Framsfl. er í stuttu máli þessi : Ef við fáum að hafa 4–6 þm. fleiri en þjóðin vill, að við höfum, þá skulum við rækja skyldur okkar við þjóðina, en ef ekki, þá stendur okkur alveg á sama um, hvernig allt fer. Upp á þessi kjör vildi enginn flokkanna þriggja semja við Framsfl. Þeir tjáðu sig allir fúsa til þess að ræða við hann um lausn vandamálanna, en ekki með þessu skilyrði, að bregðast í kjördæmamálinu. Síðan þetta bréf kom fram, virðist Framsfl. leggja á það höfuðáherzlu að tefja störf þessa þings. Flokkurinn virðist ganga út frá því, að því lengur sem hann tefur þetta mál, því meiri líkur séu fyrir því, að honum leggist eitthvað til, er gæti hindrað endanlega lausn kjördæmamálsins. Hér í þinginu heldur Framsfl. uppi málþófi og heimtar að kjördæmamálið sé sett í n., þó að fyrir fram sé vitað, að ekki er hægt að breyta því án þess að fella það þar með. Jafnhliða þessum skipulögðu töfum á störfum þingsins fárast svo blöð Framsfl. yfir því, að þeir flokkar, sem að kjördæmabreyt. standa, ætti sér að hafa vetrarkosningar til baga fyrir kjósendur í sveitunum. Fari svo, að kosningar dragist fram á vetur, þá er það fyrst og fremst sök Framsfl.

En Framsfl. lætur sér ekki nægja að tefja afgreiðslu kjördæmamálsins eftir getu. Nei, nú er hann farinn að beita öðrum aðferðum. Forustamönnum Framsfl. er eins og öðrum orðið það ljóst, að mikill órói hefur skapazt í atvinnulífinu, og hefur þetta leitt til vinnustöðvana hingað og þangað. Það er hins vegar ljóst, að þeir hernaðaraðilar, sem aðsetur hafa hér á landi, krefjast þess, að atvinnulífinu sé haldið gangandi. Verði einhver alvarleg vinnustöðvun, er hugsanlegt, að til þess geti komið, að herstjórnin telji sig knúða til þess að grípa inn í. Slík afskipti eru í alla staði óæskileg fyrir sjálfstæði okkar, og því er það nauðsynlegt, að þjóðin taki höndum saman um að koma í veg fyrir, að til þess geti komið.

Það er nauðsynlegt í þessu sambandi að rekja að nokkru orsakir þess ófremdarástands, sem skapazt hefur. Skömmu áður en stríðið hófst, var mynduð þjóðstjórnin sáluga. Sú ríkisstj., en að henni stóðu Framsfl., Sjálfstfl. og Alþfl., var beinlínis stofnuð til þess að bjarga atvinnuvegunum, eins og það var svo fagurlega kallað. Þessi björgun atvinnuveganna fór fram með þeim hætti, að gengi íslenzku krónunnar var lækkað, jafnframt því sem kauphækkanir voru bannaðar og verkalýðsfélögin þar með svipt samningsréttinum. Þetta kauplækkunarbann gilti með smávægilegum undantekningum til ársins 1940. Jafnframt þessum ráðstöfunum gegn verkafólkinu voru opnaðar allar gáttir fyrir þá, sem vildu græða á einhvers konar atvinnurekstri.

Þegar svo stríðið skall á byrjaði stríðsgróðinn þegar að renna um landið í stríðum straumum. Félög og einstaklingar, sem áður höfðu verið skuldum vafin, veltu sér í milljónum. Hvers konar brask og spákaupmennska blómstraði, allt verðlag færðist úr skorðum vegna hinnar gífurlegu kaupgetu stríðsgróðamannanna. Auður, sem engin dæmi eru til áður, færðist á hendur nokkurra manna, sem þar með urðu margfalt voldugri í þjóðfélaginu en áður hafði verið. Fyrirsjáanlegt var, að stríðsgróðinn mundi gersamlega umturna öllu, sem talizt gat eðlilegt í þjóðfélaginu. Verð lífsnauðsynja steig stórkostlega, hús margfölduðust í verði og þar með húsaleigan, þó að nokkrar skorður væru þó reistar við takmarkalausri hækkun hennar. Það eina, sem samkvæmt lögum stóð í stað, var kaup verkafólksins. Kauphækkunarbann gengisskráningarlaganna gilti út árið 1940. Dýrtíðaruppbótin samkv. hinni opinberu vísitölu nam alls ekki hinni raunverulegu hækkun, enda hefur það verið viðurkennt opinberlega, að útreikningur vísitölunnar hafi verið rangur. Þegar ofan á þetta bætist svo, að kaup verkafólksins var fyrir stríð orðið óeðlilega lágt, þá sér hver maður, hver útkoman hlaut að verða, þegar eftirspurnin eftir vinnuaflinu óx eins gífurlega og raun varð á.

Framsfl. var aðal frumkvöðull þjóðstj. og á fyllilega sinn þátt í þeirri pólitík, sem hún rak, og afleiðingu hennar. Þegar Framsfl. sá, út í hvert öngþveiti þessi þjóðstjórnarpólitík stefndi, sá hann engin önnur ráð en að banna tekjuhækkun þeirra manna, sem minnstan hlut fengu af stríðsgróðanum, verkamannanna og sjómannanna, sem þó framleiddu hann. Framsfl. lagði það til, að kauphækkun yrði bönnuð og dýrtíðarútreikningnum hætt. Þetta bar flokkurinn fram í hinu fræga Eysteinsfrv. á haustþinginu. Þetta frv. er mesta árás, sem gerð hefur verið á hagsmuni launafólks og verkamannastéttarinnar.

Loks kom Framsfl. fram kröfum sínum frá haustþinginu, er hann gat fengið Sjálfstfl. til þess að setja á gerðardóminn um áramótin, sem varð til þess, að Alþfl. yfirgaf þjóðstjórnina.

Stefna Framsfl. er alltaf hin sama, að banna hækkanir á kaupi verkafólks og launastéttanna yfirleitt, en hreyfa ekki við stríðsgróðanum, sem flaut inn í landið í milljónum og hækkaði allt verðlag upp úr öllu valdi.

Það er stefna þjóðstjórnarinnar og síðar gerðardómsins, sem á höfuðsökina á því, hvernig nú er komið í atvinnumálum þjóðarinnar. Framsfl. á fyllilega sinn skerf af þeirri pólitík. Það er ekki hvað sízt hann, sem hefur beinlínis lagt ráðin á og raunverulega fengið að ráða mestu um pólitík þjóðstjórnarinnar. Af gerðardóminum er það skemmst að segja, að hann hefur reynzt óframkvæmanlegur, og nú liggur fyrir þinginu frv. frá ríkisstj. um afnám kaupgjaldsákvæða hans.

Stefna þjóðstj. hefur leitt atvinnulíf okkar í öngþveiti. Í stað þess, að ríkisstj. átti að taka fullt tillit til hagsmuna verkafólksins og launastéttanna, gera hagstæða heildarsamninga við verkalýðsfélögin og gera jafnframt róttækar ráðstafanir til þess að taka stríðsgróðann úr umferð, þá komust engin sjónarmið að hjá þjóðstjórninni önnur en sjónarmið stríðsgróðamannanna, sem ekkert vildu láta annað gera en banna kauphækkanir verkafólksins. Stjórnin skildi aldrei einu sinni þá einföldu staðreynd, að eftirspurnin eftir vinnuaflinu var orðin svo mikil, að allur grundvöllur til þess að þvinga verkalýðinn undir kauphækkanabönn gerðardómsl. var horfinn, eins og nú hefur komið á daginn. Ekkert innlent afl getur haldið uppi gerðardóminum. Þetta er Ólafi Thors, hæstv. forsrh., orðið ljóst, og hann hefur tekið þann kost að afnema hann fremur en að gera tilraun til þess að fá erlent afl til að keyra kauphækkunarbannsstakkinn á verkalýðinn. En Framsfl. virðist á annarri skoðun. Við 1. umr. um afnám kaupgjaldsákvæða gerðardómsins í Ed. lýsti hv. þm. Str. yfir því, að hann hefði aldrei, ef hann hefði verið við stj., afnumið gerðardóminn. Ég hefði látið hart mæta hörðu, sagði hann. Hér hótar Framsókn því beinlínis að fá hið ameríska hervald til þess að beygja landsmenn til hlýðni, því að ekkert annað afl er til í landinu, sem eins og nú standa sakir, getur slíkt. Forustumenn Framsfl. horfa til þess með velþóknun, ef hér væri komið á hernaðareinræði gegn réttlátum kaupkröfum launastéttanna. Þessar bollaleggingar Framsfl.foringjanna í sambandi við hið útlenda herlið koma líka fram í baráttu þeirra gegn kjördæmabreyt. Þeir sjá nú glundroðann, sem hefur skapazt í atvinnulífi þjóðarinnar, þeir sjá hættuna, sem yfir vofir, ef ekki verður kleift að halda atvinnulífinu gangandi, og því hóta þeir nú, að þeir muni ekki leggja hönd á plóginn til þess að bægja frá hættunum, ef kjördæmamálið verði látið ná fram að ganga. Þeir ganga meira að segja svo langt, að þeir reyna eftir getu að auka á glundroðann, og því sérstaklega að gera meira úr honum en efni standa til. Jafnframt hafa svo forustumenn Framsfl. í hótunum við fylgjendur kjördæmamálsins og tala opinskátt um útlenda íhlutun um mál Íslands, eins og hún hafi þegar verið ákveðin. Á fundum á Alþ., á nefndafundum og í einkasamtölum kveða við sömu hótanirnar. Ef þið stofnið til kosninga á ný, er ekkert líklegra en ekki verði þörf fyrir Alþ. upp frá því, segja þeir. Hótanir þessar minna einna helzt á hótanir þær, sem 5. herdeildir Hitlers í hinum ýmsu löndum höfðu í frammi, og voru þær þá venjulega, undanfari árásar.

Ég vil taka það fram hér, að ég tel mjög ósennilegt, að ameríska herstjórnin vilji hafa nokkur afskipti af málum landsins umfram það, sem hún telur brýna þörf á með tilliti til hervarna þess. En hótanir forustumanna Framsfl. eru jafnósæmilegar fyrir það. Ég tel, að aldrei hafi nokkur hópur Íslendinga komið jafnábyrgðarlaust fram gagnvart sjálfstæði landsins og forustumenn Framsfl. nú undanfarið, síðan á Sturlungaöld. Draumur forustumanna Framsfl. virðist vera að komast í stj. og geta, í krafti erlends hervalds, drottnað yfir þjóðinni með harðri hendi. Lýðræði, frjálslyndi, umbætur, vinstri pólitík og hin fallega ræða Hermanns Jónassonar, hv. þm. Str., í útvarpinu fyrir kosningarnar eru ekkert annað en sjónhverfingar til þess gerðar að breiða yfir einræðisbrölt flokksins frammi fyrir hinum mörgu frjálslyndu fylgjendum hans.

Nú mun margur spyrja : Hvernig stendur á því, að Framsfl., sem einu sinni var frjálslyndur umbótaflokkur, skuli nú vera kominn út á þá refilstigu, sem hér hefur verið lýst? Til þess að skilja það fyrirbrigði, er nauðsynlegt að renna augunum ofurlítið yfir sögu þessa flokks.

Framsfl. komst í stjórnaraðstöðu þegar árið 1927 og hefur að meira og minna leyti verið stj.flokkur síðan. Hann var ekki fyrr kominn í þessa aðstöðu en hann fór að nota sér þau yfirráð, sem ríkisstj. hlýtur óhjákvæmilega að hafa yfir úthlutun ýmissa gagna og gæða milli þjóðfélagsþegnanna. Það, sem einstakir ráðh. höfðu áður freistazt til að gera, varð nú kerfisbundið og talinn sjálfsagður hlutur. Embættaveitingavaldið var eingöngu notað til þess að koma framsóknarmönnum í hin ýmsu embætti, eða þá mönnum, sem gengu til fylgis við Framsfl. fyrir að fá embættið. Það var ekki hikað við að veita mönnum embætti, sem, lagalega séð, höfðu ekki skilyrði, ef aðrir voru ekki til á biðlista Framsfl. Gjaldeyrisvandræði þjóðarinnar notaði Framsfl. sér út í yztu æsar til pólitísks framdráttar. Fylgjendur flokksins sátu í fyrirrúmi, er gjaldeyri var úthlutað, og hafa margir orðið stórauðugir menn einmitt fyrir þá aðstöðu, sem flokkurinn hafði. Bæjarfélögum og einstaklingum var á hinn ósvífnasta hátt neitað um gjaldeyri til þjóðþrifafyrirtækja á sama tíma og verið var að hjálpa einhverjum skjólstæðingum Framsfl. til þess að reisa ný fyrirtæki.

Gjaldeyrisvandræðin voru slíkt vald í höndum Framsfl., að full ástæða er til að ætla, að flokkurinn hafi ekki haft mikinn áhuga á því að þjóðin gæti yfirunnið þau. Enda kom það greinilega fram í stefnu flokksins. Með yfirráðunum yfir gjaldeyrinum gat Framsfl. gefið ýmsum þýðingarmiklum flokksmönnum tækifæri til að auðga sig, enda var svo komið hér í Reykjavík, að varla var svo stofnað nýtt fyrirtæki, að ekki væri reynt að hafa framsóknarmann með, til þess að láta hann útvega gjaldeyrinn. Framsfl. hafði það líka á valdi sínu oft og tíðum að koma fyrirtækjum á kné, ef hann af pólitískum ástæðum taldi það heppilegt, með því að neita þeim um gjaldeyrisleyfi. Framkvæmd Framsfl. á gjaldeyrismálunum er eitt reginhneyksli og er full ástæða til að hefja ýtarlega rannsókn á þeirri botnlausu spillingu, sem þróaðist í þessum málum undir handleiðslu og stjórn Eysteins Jónssonar, hv. 1. þm. S.-M.

Þá er ekki ástæða til að gleyma bílunum. Þar fengu góðir flokksmenn Framsfl. að sitja á hlut annarra landsmanna ekki síður en á öðrum sviðum.

Svona var það í öllum stjórnarframkvæmdum. Og þessar starfsaðferðir forustumanna flokksins í Reykjavík tóku smáforingjarnir úti um landið upp eftir þeim. Hver embættismaður, hver kaupfélagsstjóri og útibússtjóri taldi það skyldu sína að fylgja þeirri reglu að láta aldrei svo nokkur hlunnindi í té við nokkurn mann, að spyrja ekki fyrst um það, hvaða pólitískan hag Framsfl. hefði af því. Ef einhver verkamaður var grunaður um að hafa frjálsar skoðanir og sjálfstæðar, þá var hann útilokaður frá því að geta fengið handtak að gera, þar sem Framsfl. kom höndum undir. Með þessum aðferðum hefur Framsfl. í sumum sjávarplássum tekizt að hindra, að þar gæti skapazt verkalýðshreyfing.

Með aðferðum eins og þeim, sem nú hefur verið lýst, hefur Framsfl. skapað sér nokkuð sterk ítök í ýmsum kauptúnum úti um landið. Það er ekki láandi verkamönnum á smákauptúnunum, þótt þeir bogni fyrir yfirgangi og kúgun, sem kaupfélagsstjórar og embættismenn Framsfl. hafa beitt þá. Það er í smákauptúnunum aðallega, sem Framsfl. hefur nokkur áhrif á verkalýðshreyfinguna. Þeim áhrifum beitir hann til þess að viðhalda sundrungu innan hennar. Það er því mjög nauðsynlegt nú, að verkafólkið í smáþorpunum geri sér ljóst afturhaldseðli Framsfl. og þurrki áhrif hans þar út.

Þá er og landfræg skoðanakúgun Framsfl. í skólunum. Skólaforustumenn hans hafa ekki hikað við að reka unga námsmenn úr skólunum fyrir það eitt að þora að hafa ákveðnar skoðanir í þjóðfélagsmálum.

Í fám orðum sagt, strax er Framsfl. komst í stjórnaraðstöðu 1927, byrjaði, einkum fyrir tilstuðlan hans, spillingin að grípa um sig. Skoðanakúgun og misbeiting hins opinbera valds voru einkenni stjórnarframkvæmdanna. Þetta skapaði flokknum tiltölulega sterkt skipulag, því að embættismennirnir og aðrir flokksmenn, sem nutu góðs af stjórnaraðstöðu flokksins, sneru bökum saman. Þeir skildu, að þeir áttu allir mikið undir því komið, að Framsfl, væri sem stærstur og sterkastur. Einkanlega var þýðingarmikið að eiga stóran þingflokk.

Hinir óbreyttu fylgismenn hafa ekkert haft um stefnu flokksins að segja og eru yfirleitt aldrei spurðir ráða um neitt.

Flokkur, sem hefur sokkið niður í jafntaumlausa spillingu og Framsfl. síðast liðin 12–15 ár, hlýtur að segja skilið við öll góð stefnumál, sem hann kann að hafa ætlað að beita sér fyrir í upphafi. Þetta hefur líka komið á daginn. Framsfl., sem 1927 var frjálslyndur umbótaflokkur, sem vildi starfa í samvinnu við alþýðu bæjanna, er nú orðinn afturhaldsflokkur og hefur verið í nánu samstarfi vð óbilgjörnustu stríðsgróðamenn landsins. Það er ekki einasta, að hann hafi látið teyma sig til þessa samstarfs, heldur hefur hann stöðugt hvatt til hvers konar ofbeldisráðstafana gegn launastéttunum, og í fjandskapnum hefur hann gengið feti framar en flokkur atvinnurekendanna treysti sér til að ganga. Framsfl. er nú orðinn afturhaldssamur embættismannaflokkur, sem einkum styður sig við stórbændurna. Smábændur og miðlungsbændur eiga ekki heima hjá Framsfl., þó að honum hafi tekizt að blekkja yfirgnæfandi meiri hl. þeirra til fylgis við sig.

Öll bændapólitík Framsfl. er miðuð við hagsmuni stórbændanna. Í smærri bændur er kastað smávægilegum molum, svona rétt til þess að halda þeim góðum. Þegar stórbóndinn fær þúsundir króna fyrir einhverjar aðgerðir Framsfl., svo sem mjólkurhækkun og þ. u. l., þá fær smábóndinn nokkra tugi, kannske nokkur hundruð.

Þó að allri þjóðinni sé ljóst, að stórfelldar ráðstafanir þurfi að gera til þess að stöðva strauminn úr sveitunum, bókstaflega að breyta skipulagi landbúnaðarins, þá er Framsfl. sinnulaus og viljalaus, vegna þess, að slíkar ráðstafanir gætu hæglega komið illa við ýmsa stórbændur og embættismenn. Pólitík Framsfl. rekur smábændurna frá búum sínum. Lífsafkoma þeirra er þannig, að ekki er nema eðlilegt, að þeir flýi sveitirnar. Smábóndinn þarf að fá meira fyrir hvern lítra mjólkur og hvert kíló kjöts, sem hann framleiðir, en stórbóndinn, af þeirri einföldu ástæðu, að ef hann fær það ekki, þá getur hann ekki lifað af búskap sínum og flosnar upp. En þjóðinni er það lífsspursmál, að landbúnaðarframleiðslan dragist ekki saman. Þessi hækkun á afurðaverði smábændanna er framkvæmanleg án þess að hækka söluverð mjólkur og kjöts frá því, sem nú er, með því annað hvort að lækka gróða stórbændanna eða taka til þess fé úr ríkissjóði. Þetta er fullkomlega sanngjarnt, þegar það er athugað, að smábóndinn þarf, vegna skorts á vélum, að leggja meira vinnuafl í hvern lítra mjólkur og kíló kjöts en stórbóndinn. Og á meðan smábóndinn á ekki kost á sömu vélanotkun og stórbóndinn, þá á hann rétt á að fá meira fyrir afurðir sínar hlutfallslega.

Framsfl, mun aldrei hjálpa smábændunum með þeim ráðum, sem duga þeim, þ. e. að greiða þeim hlutfallslega hærra verð fyrir afurðir þeirra. Hann getur það ekki vegna þess, að embættismennirnir og stórbændurnir, sem öllu ráða í flokknum, vilja það ekki. Þeim er sama um það, þótt smábændurnir flosni upp. Í hinni hörðu baráttu, sem smábændurnir heyja, til þess að flosna ekki upp af búum sínum, eiga þeir ekki nema einn bandamann. Sá bandamaður er verkalýður bæjanna. Framsfl. hefur reynt að skella skuldinni af erfiðleikum smábænda á verkafólkið í bæjunum. En þetta er vísvitandi gert í þeim tilgangi að hrinda smábændum frá því eina afli, sem vill og getur hjálpað þeim til þess að hafa meira upp úr því þrotlausa striti, sem þeir verða að leggja á sig. Smábóndinn hefur aldrei hag af því, að kaup verkamanna sé lágt og samtök þeirra veik. Hann hefur hag af því, að verkalýðshreyfingin sé sterk og kjör verkafólksins góð. Smábóndinn þarf oft að bjóða sig í vinnu, og sér hver maður í hendi sinni, hvaða áhrif hátt kaupgjald í bæjum hefur á vegavinnukaupið, sem smábóndinn tekur. Framsfl., sem flestir bændur þessa lands fylgja eins og stendur, hefur nú upp á síðkastið talið það skyldu sína að hafa samstarf við auðmennina. Nú er þeirri samvinnu lokið í bili, og nú standa því bændur einangraðir og hafa erfiða aðstöðu til þess að hafa áhrif á gang mála. Afturhaldspólitík Framsfl. og samstarf hans við auðmennina hafa leitt bændurna út í mjög erfiða einangrun.

Það var ekki barátta Framsfl. fyrir hagsmunamálum bændanna, sem leiddi þessa einangrun yfir fylgjendur hans. Nei, það var barátta embættismannanna innan flokksins gegn auknu lýðræði og mannréttindum, sem varð þess valdandi.

Það var barátta Framsfl. fyrir því, að embættismenn hans fengju áfram að sitja á rétti almennings í þessu landi. Það er beinlínis orðið hættulegt fyrir bændur, hve einhlítt tillit Framsfl. tekur til hagsmuna embættismannanna, sem öllu ráða í flokknum. Bændur stórskaðast á því að fylgja þessari embættismannaklíku út á þær brautir, sem hún er komin á.

Afstaða Framsfl. til kjördæmamálsins hefur sýnt, að hann er nú orðinn þröngur sérhagsmunaflokkur nokkurra embættismanna, sem eru til í hvað sem er, bara ef hann fær að vera áfram í völdum. Þessi flokkur getur gengið í lið með hvaða öflum sem er, nema heiðarlegri vinstri-pólitík. Hann er sneyddur allri ábyrgðartilfinningu gagnvart þjóðinni. Hann er meira að segja sneyddur öllum áhuga fyrir velferðarmálum bændastéttarinnar, sem þó helzt skipar sér undir merki hans.

Framsfl. beitir lýðskrumi í ríkari mæli en áður hefur þekkzt hér á landi. Á kjósendaveiðum er allt leyfilegt að áliti þessa flokks.

Kommúnistískar ræður og nazistískar ræður eru haldnar jöfnum höndum og auðvitað allt þar á milli. Framsfl. er ljóst dæmi þessi, hve mikil spilling getur sprottið upp af úreltri kjördæmaskipan. Það eru mörg dæmi til slíkrar spillingar erlendis. Sem dæmi slíks flokks vil ég nefna flokk Daladier í Frakklandi. Saga hans í Frakklandi og viðhorf var svipað og Framsfl. hér. Reynslan hefur sýnt, að jafn gjörspilltur flokkur og Framsfl. er orðinn, er lýðræðinu hinn mesti háski. Þjóðin þarf að læra af því, hvernig fór fyrir frönsku þjóðinni undir forustu flokks Daladier, og svipta Framsfl. fylgi hans.

Sú breyting kjördæmaskipunarinnar, sem hér liggur fyrir, mun og að nokkru leyti e. t. v. kippa fótunum undan flokki, sem kominn er út á aðrar eins brautir og Framsfl.