20.08.1942
Neðri deild: 10. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 203 í B-deild Alþingistíðinda. (309)

28. mál, kosningar til Alþingis

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti! Það er aðeins eitt atriði hér í þessu frv., sem ég teldi rétt, að hv. n. tæki til athugunar, fram yfir það, sem hv. frsm. drap á. Það er um fyrirkomulag utankjörfundargagna. Eins og vitað er, gilda mjög ströng ákvæði um atkvæðagreiðslu á kjörfundi og allt, sem þar að lýtur. Hins vegar sýnist í raun og veru varúðin ekki ná eins langt um atkvæðagreiðsluna utan kjörfundar, því að í 67. gr. þessa frv. er gert ráð fyrir því eins og áður, að ritað sé með ritblýi nafn þess, er kjósandi vill kjósa, á kjörseðilinn. Enn fremur er ekki gert ráð fyrir því fremur en áður, að frá umslögum utan um kjörseðlana, sem notaðir eru við utankjörfundarkosningar, sé gengið neitt tryggilegar heldur en með því að líma umslögin aftur. Ég hygg, að á því sé nokkur nauðsyn, að öllu tryggilegar sé gengið frá þessum umbúnaði. Umslög, sem límd eru aftur, er hægt að opna þannig og líma aftur á ný, að ekki sé hægt að sjá eftir á, að þau hafi verið opnuð. Og líkur eru til, að þannig megi opna þá límrönd, sem gert er ráð fyrir á utankjörfundar kjörseðlum. Ég hygg, að það væri rétt, að gerðar væru á þessu nokkrar breyt. Og ég vil benda hv. allshn. á það, að mér virðist rétt, að sú breyt. væri gerð á ákvæðum þessa frv., að innsigla skuli umslög utan um utankjörfundarkjörseðla, til þess að komið væri í veg fyrir, að hægt sé að opna þau, án þess að tekið verði eftir, og jafnvel gera breyt. á kosningu. Það getur vel verið, að þetta, sem ég nú hef bent hv. allshn. á, hafi borið á góma í n. En ég tel nauðsynlegt, að öllu tryggilegar sé gengið frá þessum utankjörfundargögnum en gert hefur verið ráð fyrir áður. Ég mun, ef n. sér sér ekki fært að taka þessar ábendingar mínar til greina, bera fram brtt. við frv. um þetta.