20.08.1942
Neðri deild: 10. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 206 í B-deild Alþingistíðinda. (312)

28. mál, kosningar til Alþingis

Bjarni Bjarnason:

Það er mjög mikils virði, ef hægt væri að ganga þannig frá kosningal., að það væri tryggt, að kjörstjórnir litu nokkuð sömu augum yfirleitt á vafakjörseðla. En ég hygg, að mjög mikill munur sé á því, hversu strangar kjörstjórnir eru um þetta atriði. Það mun standa í kosningal., að rétt sé að taka kjörseðil gildan, sem gefur skýlaust til kynna, hvað kjósandinn vill. Hins vegar mun það einnig vera tekið fram í þeim l., að ef nokkur aukamerki séu á kjörseðli, sé ástæða til að gera hann ógildan. T. d. ef merkt er með tveimur krossum við nafn eins framljóðandans á kjörseðlinum, þá er það skýlaust, hvað kjósandinn vill. En nú á þar að vera aðeins einn kross, og get ég hugsað mér, að kjörstjórn gæti gert kjörseðilinn ónýtan, þar sem annar krossinn má skoðast sem aukamerki á kjörseðlinum. Ég veit dæmi þessa. Ég veit líka dæmi þess um kjörseðil við atkvgr. utan kjörfundar, þar sem auk nafns mannsins var skrifað nafn sýslunnar. Þessi kjörseðill var gerður ógildur, þó að það væri skýlaust, hvað kjósandinn vildi. Ég veit líka til þess, að kjósandi hefur gert eitt strik við nafn manns, sem hann vildi ekki kjósa, nuddað það svo út með fingrinum og gert skýran kross við nafn þess manns, sem hann ætlaði sér að kjósa. Þessi seðill var gerður ónýtur. Einnig hef ég vitað til þess, að fornafn frambjóðandans var skrifað rétt en föðurnafn rangt, og atkv. var samt tekið gilt. Ég veit líka, að í slíkum tilfellum hefur atkvæði verið gert ógilt.

Væri ekki hægt að koma svo fyrir ákvæðum kosningal., að kjörstjórnir dæmi ekki svona einstaklega ólíkt, þegar um atkvgr. er að ræða, sem að einhverju leyti er ófullkomlega af hendi leyst? Því að annars vegar stendur í l., að rétt sé að taka kjörseðil gildan, ef það er skýlaust, hvað kjósandinn vill, en auk þess tekið fram í l., að ekkert aukamerki skuli vera á kjörseðlinum.

Þá dettur mér í hug, hvort ekki sé rétt að athuga, þar sem eru mjög afskekkt heimili, sérstaklega eyjar, hvort þeir, sem þar byggju, gætu ekki fengið að kjósa hjá hreppstjóra fyrir kjördag, ef góður dagur kæmi fyrir þá. Ég tel mjög ósanngjarnt, að menn, sem búa í eyjum og hafa ekki bátakost nema í góðu veðri, megi ekki kjósa fyrir kjördag, ef færi gefur.

Þá er þriðja atriðið, en það er með blekið. Það er svo fyrir mælt, að kjósandi skuli skrifa nöfnin með ritblýi, og mun það gert vegna þess, að annars kynni að sjást, hvernig hann hefði kosið, ef hann notaði þerripappír. En hvað á að gera, þegar svo stendur á, ef það er skýlaust, hvað kjósandinn vill. Þetta tel ég, að einnig þurfi að athuga.