20.08.1942
Neðri deild: 10. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 207 í B-deild Alþingistíðinda. (314)

28. mál, kosningar til Alþingis

Sigurður Bjarnason:

Hv. 1. þm. N.-M. og fleiri framsóknarmenn hafa látið mjög hátt yfir því, að talning atkv. í ýmsum kjördæmum hafi verið látin fram fara svo seint, að allmjög hafi þurft að dragast starf landkjörstjórnar og þar með setning Alþ., og hafi þetta orðið til þess, að kosningar fari fram í haust síðar en ella. Ég vil benda á, af því að ég er fulltrúi fyrir það hérað, þar sem síðast mun hafa verið talið í, að svo kann að vísu að hafa verið, að þar hefði mátt telja degi fyrr með ærnum tilkostnaði. En ég vil benda á annað í þessu sambandi, að í kjördæmi form. Framsfl. er talið daginn áður en talið er í N.-Ísafjarðarsýslu. Ég vil enn fremur benda á annað, sem sýnir, hversu fjarri lagi þessar ásakanir framsóknarmanna eru, að hv. 1. þm. S.-M. segir, að talningu hafi verið lokið viku síðar en þurft hefði. N.-Ísafjarðarsýsla og S.-Þingeyjarsýsla voru síðustu kjördæmin, sem talið var í. Þar var talið á fyrsta föstudegi eftir kosningarnar, og ef staðhæfing hv. þm. væri rétt, hefði átt að telja þar tveimur dögum fyrir kjördag! Það er því með öllu órétt að vera með árásir út af því, að talning atkv. hafi dregizt úr hófi fram, og að sá dráttur hafi seinkað kosningunum í haust. Og það situr a. m. k. sízt á þeim mönnum, sem eru nú að gera sér leik að því að tefja störf þingsins.