24.08.1942
Neðri deild: 13. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 209 í B-deild Alþingistíðinda. (318)

28. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. (Garðar Þorsteinsson) :

Síðan þetta mál var til 2. umr. í þessari d., hefur stjskrn. haldið fundi um málið og samið brtt. á þskj. 109. Ég skal með fáum orðum lýsa þessum brtt. Brtt. við 11. gr. er á þá leið, að sá, sem á sæti í yfirkjörstjórn eða undirkjörstjórn, skuli víkja sæti strax, ef hann er í kjöri til Alþ. Við töldum ekkert því til fyrirstöðu, að þessi regla yrði tekin upp. Þá er 27. gr. a-liður. Það er aðeins leiðrétting á misprentun, þar stendur „hlutbundnum“ í stað „óhlutbundnum“. Þá er b-liður sömu gr. Það er tala þeirra manna, sem þurfa að vera meðmælendur frambjóðanda, og er í brtt. gert ráð fyrir, að þeir séu eigi færri en 18 og eigi fleiri en 36. Einstakir nm. hafa óbundnar hendur við atkvgr. um þetta atriði. — Næsta brtt. er við 29. gr., og er það aðeins leiðrétting. Þá er brtt. við 33. gr. Í l. segir : „Hver frambjóðandi, þar sem kosið er óhlutbundnum kosningum, á rétt á að gefa einum manni eða tveimur í hverri kjördeild umboð sitt til þess að gæta hagsmuna sinna við kosninguna á hinum einstöku kjörstöðum, sé hann eigi sjálfur viðstaddur.“ N. var sammála um að fella þessa setningu niður, vegna þess að það er engin ástæða til þess að meina frambjóðanda að hafa umboðsmann fyrir sig, þó að ham komi sjálfur á kjörstað. — Þá er brtt. við 53. gr. Í þeirri gr. er gert ráð fyrir, að aukakosning í kjördæmum, þar sem kosið er hlutbundnum kosningum, geti fallið niður, ef ekki er nema einn listi þar í kjöri, eða ef ekki standa fleiri nöfn samtals á listum þar en kjósa á þm. og varaþm. Þessi ákvæði taldi n. rétt að fella niður.

Við 57. gr. er brtt., sem er þannig, að við gr. bætist ný málsgr., svo hljóðandi:

„Seðlum, sem eigi eru afgreiddir til undirkjörstjórnar, gerir yfirkjörstjórn grein fyrir, þegar atkv. eru talin.“ Ég hef að vísu ekki heyrt dæmi þess, að þetta hafi komið að sök, en það var hins vegar talið rétt að setja þetta ákvæði.

Þá er brtt. við 67. gr., að orðin „með ritblýi“ falli burt. Þegar þetta ákvæði var sett inn í l. hefur það verið vegna þess, að gert var ráð fyrir því, að hægt væri að sjá á þerripappírnum, sem notaður væri, hvern kjósandi hefði kosið. Mér er ekki kunnugt um, að þetta hafi komið að sök, og virðist þetta því dauður bókstafur, sem sjálfsagt er að nema burt.

Þá er brtt. við 118. gr. Hún er til samræmis við brtt. við 53. gr., og þarf ekki að lýsa henni nánar. Þá er ákvæði til bráðabirgða, og er það samhljóða bráðabirgðaákvæði því, sem sett var, þegar kosningal. síðustu voru sett, sem sé um það, að það skuli sinna kröfum um stofnun nýrra kjördeilda, þótt þær komi ekki fram fyrr en 3 vikum á undan kosningum, enda skuli þá nota staðfest eftirrit af kjörskrá hreppa eða hreppshluta, sem skipt hefur verið.

Á þskj. 112 hafa komið fram nokkrar brtt. N. hefur ekki fjallað um þessar .till., og get ég þess vegna ekki sem frsm. n. sagt neitt um þær fyrir n. hönd. En ég vil aðeins fara um þær nokkrum orðum og skýra mína afstöðu til þeirra persónulega. [Frh.]