26.08.1942
Neðri deild: 15. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 220 í B-deild Alþingistíðinda. (326)

28. mál, kosningar til Alþingis

Jón Pálmason:

Eins og hv. þm. hafa sjálfsagt veitt athygli, þá hef ég flutt brtt. á þskj. 111, þar sem lagt er til, að felld verði niður ein setning úr 100. gr. Í 96. gr. stendur, að ef kjósandi, sem greitt hefur atkv. utan kjörfundar, er staddur í kjördeildinni, þar sem hann á heima, á kjördegi, sé hann skyldur að tilkynna það kjörstjórn, og geti hann þá greitt atkv. aftur og tekið sinn seðil, sem kjörstjórn hefur hjá sér. Í 147. gr., 9. lið, stendur, að ef kjósandi vanrækir þetta, varði það sektum frá 20–200 kr. Í 100. gr. stendur, að ef kjósandi þannig tilkynnir ekki komu sína í kjördeild, megi gera atkv. hans ógilt. Nú er augljóst mál, að margvísleg atvik geta komið fyrir, sem verða þess valdandi, að kjósandi, sem hefur greitt atkv. fyrir kjördag, kemur í kjördeild sína, áður en kjörfundi er lokið, t. d. kemur heim úr langferð kl. 10 að kvöldi kjördagsins, en kjörfundi er slitið kr. 12. Þá er ákaflega ósanngjarnt undir nálega öllum kringumstæðum að ekki aðeins sekta manninn, heldur líka ógilda atkv. hans. Takmark kosningal. á að vera að gera öllum kjósendum í landinu mögulegt að greiða atkv. með sem allra minnstri fyrirhöfn, og því er frá mínu sjónarmiði alrangt að ógilda atkv. undir þessum kringumstæðum. Hv. frsm., 6. landsk., tók fram, sem ég veit, að er alveg rétt, að það muni vera mjög á víxl, hvort þessi ákvæði eru tekin til greina eða ekki. Þeim mun vera fylgt strangt fram á sumum stöðum, annaðhvort, að menn séu sektaðir, eða atkv. þeirra gerð ógild. Annars staðar mun ekki vera við þessu hreyft, þó að vitað sé, að það eigi sér stað, og ég get fullyrt, að í ýmsum kjördæmum hafa atkv. ekki verið ógilt af þessum ástæðum, bæði við síðustu kosningar og eins áður. Ég held því, að alveg óhætt sé að afnema þetta ákvæði, en láta hitt standa, að skylda menn til að tilkynna komu sína í kjördeild og láta þá nægja að beita sektum, ef út af er brugðið.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um þetta, en víðvíkjandi því, sem hv. frsm. sagði, að ef þetta væri í burtu numið, væri hægt að misnota l. með því, að mikill hluti kjósenda greiddi atkv. utan kjörfundar, þá er hægt að setja inn í kosningal. ákvæði um, að það geti ekki gilt um aðra en þá, sem fara burt. Setjum svo, að menn hafi þannig lagaða atvinnu, að þeir verði hennar vegna að fara burt daglega. Slíkir menn kjósa eðlilega utan kjörfundar, og það er ekki dæmalaust, að þeir komi heim á kvöldin, ef til vill áður en kjörfundi er lokið, án þess að þeir viti um það fyrr en löngu eftir á.

Ég skal ekki fara mörgum orðum um aðrar brtt., sem hér liggja fyrir, en vil þó aðeins minnast á tvær, sem mér þykja nokkru máli skipta. Í fyrsta lagi er það brtt. um meðmælendatölu í tvímenningskjördæmum, eftir að hlutfallskosningar hafa þar verið lögleiddar. Ég kann illa við að fjölga meðmælendum frá því, sem verið hefur. Ég held, að nægilegt sé, að þar sé sama tala og verið hefur og er í þeim kjördæmum, þar sem einn maður er kosinn. Þá er önnur brtt., sem flutt er af 4 hv. þm., sem er allveigamikil, en það er heimild til að hafa tvo kjördaga um næstu kosningar. Ég get fallizt á, að til þess séu nokkrar ástæður, að sú brtt. verði samþ., en mér er ljóst, að þetta hlýtur að hafa í för með sér mjög mikinn kostnað víða um land, a. m. k. þar, sem sá siður hefur verið upp tekinn að hafa bíla í gangi til að flytja kjósendur, auk þess sem það er mikil fyrirhöfn fyrir kjörstjórnirnar að hafa kjörfund í tvo daga. Þrátt fyrir þetta sýnist mér vel geta komið til mála að samþ. þessa till., þó að hún geti orðið til þess, að menn hirði ekki um að kjósa fyrri daginn, þó að fært sé, til þess að hægt sé að nota síðari kjördaginn til að ganga betur fram í að fá menn til að kjósa. Það kann að vera, að 80% sé nokkuð há tala að miða við, því að við síðustu kosningar var kjörsókn sums staðar ekki nema 76% rúmlega, og var þó kosið um sumartímann. Ég skal ekki slá neinu föstu með brtt. um þetta, en vildi aðeins benda á helztu annmarkana, sem mér í fljótu bili virðast vera á þessari till. En ef svo vill til, sem alltaf getur komið fyrir, raunar á hvaða tíma árs sem er og ekki sízt, þegar líður að vetri, að illt veður verði á kjördaginn, þá er hér heimild til að bæta úr, ef hafa má kjörfund daginn eftir.

Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð að sinni.