26.08.1942
Neðri deild: 15. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 226 í B-deild Alþingistíðinda. (331)

28. mál, kosningar til Alþingis

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Ég flyt hér brtt. á þskj. 116. — Eins og hv. þm. sjá, er í frv. ekkert ákveðið um tölu meðmælenda í tvímenningskjördæmunum. Ég hélt því fram í n., að halda bæri sér við gömlu töluna, sem er 12–24. Ég sé enga ástæðu til að hafa fleiri meðmælendur í tvímenningskjördæmunum, því að þar eru víða færri kjósendur á hvorn þm. kjördæmisins en eru á þm. einmenningskjördæmanna. Tvímenningskjördæmin hafa ekkert breytzt, nema eitt þeirra hefur minnkað um ca. 1600 atkvæði. Mér finnst það sama eiga því að gilda um þetta og verið hefur, eða 12–24 meðmælendur. Það hefur verið fært til stuðnings þessari fjölgun meðmælenda, að með því móti væri hægt að útiloka smáflokka og flokksbrot frá þátttöku í kosningum. En ég held, að þetta sé veigalítil ástæða. Ég segi fyrir minn flokk, að ég álít þýðingarmikið, að þessu sé ekki breytt frá því, sem var. Ég vil benda á, að það er takmörkun á lýðræði, ef tala meðmælenda er ákveðin svo há, að flokkur, sem annars hefur mikið fylgi í landinu, getur af þeim orsökum orðið að hætta við framboð í kjördæmum, sem hann hefur þó eitthvert fylgi í.

Hér er fram komin skrifl. brtt. frá hv. 1. þm. N.-M. um þetta, og er eins og hann hafi miðað takmarkið við atkvæðatölur Alþfl. og Sósfl. við síðustu kosningar í kjördæmi hans, svo að þessir flokkar væru þar útilokaðir frá framboði cg hann hefði von um, að geta krækt í einhverja kjósendur Alþfl. Frambjóðendur Sósfl. í Norður-Múlasýslu munu hafa fengið 52 og 45 atkv., en frambjóðendur Alþfl. 44 og 42 við síðustu kosningar. Þetta sýnir, að þessir flokkar mundu vart geta stillt þar upp til kosninga, ef brtt. hv. 1. þm. N.-M. næði fram að ganga, og verð ég að telja þetta smásálarlega útreikninga hjá honum. Ef útfæra ætti þetta „prósentvís“ hlutfallslega jafnt í öllum kjördæmum, þá þyrfti 1100–1200 meðmælendur í Rvík, og þar með væri Framsfl. útilokaður frá að geta stillt þar upp. En vafalaust mun nú ekki hafa verið ætlunin, að þetta gengi jafnt yfir alla, en með því álít ég ráðizt á anda lýðræðisskipulags vors. Ég vonast fastlega til þess, að hv. þm. sjái, að með þessu er farið inn á hættulegar brautir, ef meiri hl. þingsins ætlaði sér að beita litlu flokkana ofbeldi á þennan hátt. Ef þetta á að verða sérstök aðferð til þess að hindra framboð, sjá allir, hversu athugavert það er. Hv. flm. skýrði þetta ofursakleysislega. En ég tel, að með þessu sé reynt að koma ákvæðum inn í kosningal. til framdráttar einum flokki á kostnað annarra, en það er einmitt það, sem allra helzt ber að varast við setningu þessara l. Ég vona því, að hv. þm. samþykki till. mína.

Það væri hugsanlegt í dæminu úr Norður-Múlasýslu, er ég tók áðan, að Alþfl. og Sósfl. gætu stillt upp við kosningar. En með því móti er komin fram nákvæm nafnaskrá yfir alla kjósendur flokkanna í kjördæminu og á þann hátt brotin höfuðregla leynilegra kosninga. Þessa skrá gæti kaupfélagsstj. látið liggja á borðinu hjá sér.

Ég vil vara þm. við þessu, þótt flokkar þeirra gætu virzt hagnast á þessu í svipinn. Þessum sömu brögðum má beita gegn öllum og þá einnig þeim sjálfum. Ég tel þetta algerlega ósæmandi.

Þá vil ég fara nokkrum orðum um hinar brtt. Það er þá um till. framsóknarmanna, að skipa aðra menn kjörstjóra en hreppstjóra. Þetta getur virzt þægilegra sums staðar, en ég álít það þó varhugavert. Hreppstjórar eru yfirleitt valdir með tilliti til margs, en þessir kjörstjórar aðeins vegna þessa eina starfs. Það væri því hugsanlegt, að sumir flokkar gætu komið þar að harðvítugum mönnum, er gætu haft áhrif á kjósendurna. Þar eð kosning fer fram án votta og því tiltölulega auðvelt með óbeina þvingun, ef kjósandinn er reikull í rásinni. Ég álít því rétt að halda sér við hreppstjórann, þar sem þetta er einn lítill liður í starfi hans.

Um kjörskrárvottorð er það að segja, að ég tel það ákvæði smávægilegt, en þó finnst mér brtt. ekki standa til bóta. Um lok kosninga í kaupstöðum kl. 12 er það svo, að kosning getur þar oft dregizt lengur, og tel ég lítilfjörlega þá mótbáru gegn því, að kosning megi standa lengur, að möguleiki sé til, að einhver geti öðlazt kosningarrétt næsta dag, eða eftir kl. 12, og geti heimtað að fá þá að kjósa. En það er varlegt að hafa kosningu í 2 daga samfleytt — varhugavert að fara inn á þá braut.

Þá getur kjörstjórn lýst yfir, að kosningu sé lokið, ef 80% af kjósendum í kjördeildinni hafa greitt atkv. Þetta er hægt að misnota. Einn flokkur getur smalað fyrri daginn, svo að lítið beri á, í þeirri von, að kjörstjórnin fari þannig að. Þetta er vanhugsað mál. Þá þurfa ekki endilega 80% að hafa greitt atkvæði, til þess að kjörstjórn og umboðsmenn frambjóðenda geti ákveðið að kvöldi fyrra dags, að kosningu skuli lokið.

Nú er svo um minn flokk, að hann hefur ekki alls staðar umboðsmenn og getur þar ekki haft nein áhrif á þetta. Þetta er höfuðbrot á þeim reglum, er frjálsar og leynilegar kosningar byggjast á. Ég segi ekki, að það valdi fyrir þessum hv. flm., en þetta er brot á þeirri reglu, að enginn geti neitt haft upp á annan að klaga í þessu efni. En það, sem ég vildi þó einkum leggja áherzlu á með máli mínu, var meðmælendafjöldinn í tvímenningskjördæmunum.